samningar andstæðir lögum sædís...6 gegn greiðslu í peningum og/eða öðrum verðmætum.“...

26
Lokaverkefni til BA-prófs í lögfræði Samningar andstæðir lögum Þegar samkeppnisákvæði í ráðningarsamningum ganga of langt Sædís Birta Barkardóttir Leiðbeinandi: Eggert Páll Ólason Desember 2015

Upload: others

Post on 28-Mar-2021

1 views

Category:

Documents


0 download

TRANSCRIPT

Page 1: Samningar andstæðir lögum Sædís...6 gegn greiðslu í peningum og/eða öðrum verðmætum.“ Einnig má taka fram að ráðningarsamningar eru almennt persónubundnir, þ.e

Lokaverkefni til BA-prófs

í lögfræði

Samningar andstæðir lögum

Þegar samkeppnisákvæði í ráðningarsamningum ganga of langt

Sædís Birta Barkardóttir

Leiðbeinandi: Eggert Páll Ólason

Desember 2015

Page 2: Samningar andstæðir lögum Sædís...6 gegn greiðslu í peningum og/eða öðrum verðmætum.“ Einnig má taka fram að ráðningarsamningar eru almennt persónubundnir, þ.e

Lokaverkefni til BA-prófs

í lögfræði

Samningar andstæðir lögum

Þegar samkeppnisákvæði í ráðningarsamningum ganga of langt

Sædís Birta Barkardóttir

Leiðbeinandi: Eggert Páll Ólason

Desember 2015

Page 3: Samningar andstæðir lögum Sædís...6 gegn greiðslu í peningum og/eða öðrum verðmætum.“ Einnig má taka fram að ráðningarsamningar eru almennt persónubundnir, þ.e
Page 4: Samningar andstæðir lögum Sædís...6 gegn greiðslu í peningum og/eða öðrum verðmætum.“ Einnig má taka fram að ráðningarsamningar eru almennt persónubundnir, þ.e

3

EFNISYFIRLIT

1 Inngangur ................................................................................................................................ 4

2 Almennt um samninga andstæða lögum ................................................................................. 4

2.1 Gildir og ógildir löggerningar ........................................................................................... 4

3 Ráðningarsamningar og samkeppnisákvæði ........................................................................... 5

3.1 Almennt um ráðningarsamninga ...................................................................................... 5

3.2 Samkeppnisákvæði og 37. gr. smnl. ................................................................................. 7

3.2.1 Samkeppnisákvæði í sérlögum .................................................................................. 8

4 Atvinnufrelsi ............................................................................................................................ 9

4.1 Nánar um atvinnufrelsi ..................................................................................................... 9

5 Vistarbönd, frjálsir samningar og aðrar ógildingarreglur ...................................................... 11

5.1 Munur á vistarböndum og samkeppnisákvæðum ........................................................... 11

5.2 Frjálsir samningar ........................................................................................................... 12

5.3 Aðrar ógildingarreglur .................................................................................................... 13

6 Dómaframkvæmd .................................................................................................................. 14

6.1 Samanburður á dómaframkvæmd hérlendis og erlendis ................................................ 14

6.1.1 Ísland ........................................................................................................................ 14

6.1.2 Danmörk .................................................................................................................. 16

6.1.3 Breskur réttur ........................................................................................................... 17

6.2 Ályktanir af dómaframkvæmd ........................................................................................ 18

7 Réttaráhrif .............................................................................................................................. 19

7.1 Helstu réttaráhrif ............................................................................................................. 19

7.2 Togstreita atvinnufrelsis og samningsfrelsis .................................................................. 20

8 Niðurstöður ............................................................................................................................ 21

Heimildaskrá ............................................................................................................................ 23

Dómaskrá ................................................................................................................................. 24

Page 5: Samningar andstæðir lögum Sædís...6 gegn greiðslu í peningum og/eða öðrum verðmætum.“ Einnig má taka fram að ráðningarsamningar eru almennt persónubundnir, þ.e

4

1 Inngangur

Samningar andstæðir lögum eru til í mörgum myndum, m.a. þegar samkeppnisákvæði í

ráðningarsamningum ganga of langt, sem er aðal umfjöllunarefni þessarar ritgerðar.

Samkeppnisákvæði í ráðningarsamningum hafa verið við lýði hér á landi um nokkurt skeið og

eru mörg fordæmi fyrir því að slík ákvæði séu talin of víðtæk og ganga þar með of langt, með

tilliti til þess að hvort þau raski samningsstöðu aðila. Þessi ákvæði hafa á síðustu árum og

áratugum orðið töluvert algengari en áður og hafa skipað sér nokkuð stóran sess. Það getur

verið nauðsynlegt fyrir sérhæfð fyrirtæki sem byggja starfsgrundvöll sinn á viðkvæmum

upplýsingum að láta háttsetta starfsmenn sína, sem oft búa yfir trúnaðarupplýsingum, skrifa

undir samninga sem innihalda slík ákvæði til einhvers tiltekins tíma. Með þeim hætti geta

fyrirtækin tryggt, að starfsmaðurinn fari ekki að vinna fyrir samkeppnisfyrirtæki eða stofni

sjálfur fyrirtæki í beinni samkeppni við fyrrum atvinnurekanda, sem kynni að stofna

starfsgrundvelli þess fyrirtækis í hættu.

Með því að skrifa undir ráðningarsamning með slíku ákvæði afsala menn sér vissum

atvinnuréttindum og samþykkja þar með skerðingu á atvinnufrelsi sínu. Því þarf að velta upp

spurningunni um hvort það megi semja um allt, þ.e. hversu víðtækt er samningsfrelsið og

einnig skoða það hvenær þessi skerðing á atvinnufrelsi er of víðtæk og hvernig skorið er úr

því hvað telst of víðtæk skerðing hverju sinni.

Umfjöllun þessarar ritgerðar mun fyrst og fremst beinast að ráðningarsamningum sem eru

andstæðir lögum, nánar tiltekið þegar ofangreind samkeppnisákvæði í ráðningarsamningum

eru talin ganga of langt. Þar sem þessi ákvæði hafa um nokkurt skeið sett mark sitt á íslenska

réttarframkvæmd verður m.a skoðað hversu vel þau samræmast lagaákvæðum um

atvinnufrelsi, m.a. með hliðsjón af innlendri og erlendri dómaframkvæmd.

2 Almennt um samninga andstæða lögum

2.1 Gildir og ógildir löggerningar

Páll Sigurðsson slær þeirri meginreglu fastri í riti sínu Samningaréttur um „að ákvæði í

löggerningum, sem eigi fá samrýmst landslögum eða viðurkenndum siðferðisskoðunum,

skuli, eftir atvikum, teljast ógild“.1 Samningar andstæðir lögum geta verið margskonar, eins

og t.d. einfaldir einkaréttarlegir löggerningar en einnig samningar sem brjóta gegn almennu

velsæmi, s.s. samningar um kaup og sölu á fíkniefnum. Þó að stofnað sé til samninga eða

1 Páll Sigurðsson: Samningaréttur, bls. 257.

Page 6: Samningar andstæðir lögum Sædís...6 gegn greiðslu í peningum og/eða öðrum verðmætum.“ Einnig má taka fram að ráðningarsamningar eru almennt persónubundnir, þ.e

5

annars konar löggerninga með ólögmætum hætti, sem geta þá mögulega haft í för með sér

viðurlög, geta þeir samt sem áður verið gildir í einkaréttarlegri merkingu.2 Þetta þurfa ekki

einungis að vera löggerningar sem eru bannaðir með lögum, enda er ekki unnt að setja fram

algilda reglu um þetta viðfangsefni, heldur ræðst það af þeim lögum sem fengist er við hverju

sinni og er það þá fyrst og fremst eðli löggerninganna sem máli skiptir. Einnig ber að nefna

það að bann við tilteknu samningsákvæði í lögum hefur fyrst og fremst í för með sér almenn

varnaðaráhrif og réttaráhrif opinbers réttarlegs eðlis, og snýr því síður að hinni

einkaréttarlegu hlið viðskiptanna. Dæmi um löggerninga á þessu réttarsviði sem teljast gildir

að lögum eru kaupsamningar sem gerðir eru í sölubúðum kaupmanna á lokunartíma. Þrátt

fyrir að lög nr. 17/1936 um samþykktir um lokunartíma sölubúða heimili bæjarstjórnum og

hreppsnefndum að gera samþykktir um slíkt, er gert ráð fyrir refsingu í formi sekta við broti á

lögunum.3

Löggjafinn virðist telja sig knúinn að setja samningsfrelsinu skorður, þrátt fyrir

meginreglur samningaréttar um samningsfrelsi og að samninga skuli halda. Það virðist vera

einhver siðferðislegur þröskuldur sem knýr löggjafann til þess að setja lög um ákveðna

samninga, sem almennt eru taldir brjóta gegn almennu velsæmi, sbr. samningar um kaup og

sölu á fíkniefnum og vændiskaup. Grundvallarmunurinn á þeim samningum og dæminu hér

að ofan, um kaupmanninn sem gerir kaupsamning eftir lokun, er að sá samningur er almennt

talinn gildur því hann er einkaréttarlegs eðlis og brýtur ekki gegn almennu velsæmi, þó

kaupmaðurinn gæti vissulega hlotið sektir fyrir.

Siðferðisleg sjónarmið eru þó ekki þau einu sem spila inn í þegar að samningsfrelsinu er

vegið með þessum hætti, því neytendavernd gegnir einnig lykilhlutverki. Lög af þessu tagi,

sem segja einhverja tiltekna samninga ósanngjarna og þar með ógilda, eru til þess fallin að

vernda neytendur og almenning sem stofna til þessara samningssambanda.

3 Ráðningarsamningar og samkeppnisákvæði

3.1 Almennt um ráðningarsamninga

Áður en lengra er haldið er nauðsynlegt að skilgreina hvað ráðningarsamningur er, en Viðar

Már Matthíasson hefur komist svo að orði: „Ráðningarsamning (vinnusamning) má skilgreina

svo, að það sé samningur, þar sem annar samningsaðilinn, launþeginn, skuldbindur sig til að

starfa hjá hinum samningsaðiljanum, vinnuveitandanum, undir stjórn hans og á ábyrgð hans,

2 Páll Sigurðsson: Samningaréttur, bls. 263. 3 Páll Sigurðsson: Samningaréttur, bls. 264.

Page 7: Samningar andstæðir lögum Sædís...6 gegn greiðslu í peningum og/eða öðrum verðmætum.“ Einnig má taka fram að ráðningarsamningar eru almennt persónubundnir, þ.e

6

gegn greiðslu í peningum og/eða öðrum verðmætum.“ Einnig má taka fram að

ráðningarsamningar eru almennt persónubundnir, þ.e. aðilar að samningnum geta ekki efnt

hann með því að fela þriðja manni að efna skuldbindingar sínar samkvæmt samningnum.4

Ráðningartími er þá „sá tími sem starfsmaður er ráðinn til starfa skv. ráðningarsamningi.

Ráðningarsamningar geta ýmist verið ótímabundnir eða tímabundnir. Sé ekki annað tekið

fram í samningi eða lögum er hann ótímabundinn.“5

Það hefur færst í aukana síðustu áratugi að atvinnurekendur setji samkeppnisákvæði í

ráðningarsamninga, en það eru ákvæði sem kveða á um að starfsmanni sé óheimilt í tiltekinn

tíma eftir að ráðning líður undir lok að hefja störf hjá sambærilegu fyrirtæki og/eða að hefja

rekstur slíks fyrirtækis sjálfur. Þó að samkeppnisákvæði í ráðningarsamningum sé frekar nýtt í

framkvæmd er elsti dómur Hæstaréttar um þetta efni frá árinu 1939, svo þetta hefur verið við

líði í lengri tíma eins og sjá má á eftirfarandi dómi.

Hrd. 1939, bls. 365 þar sem A rak saumastofu í Reykjavík. Hún réð þýska konu B til að

vera forstöðukona saumastofunnar. B skrifaði undir ráðningarsamning þar sem hún skuldbattt

sig til að vinna ekki hjá öðru fyrirtæki í Reykjavík, nágrenni Reykjavíkur eða Hafnarfirði en

utan þessara staða mátti hún vinna að þremur árum liðnum frá upphafi ráðningartímans. Að

þremur árum liðnum sagði hún upp og hóf sjálf að reka saumastofu í Reykjavík. Þá höfðaði

fyrrverandi vinnuveitandinn A mál gegn henni og krafðist þess að henni yrði gert óheimilt að

reka saumastofu í Reykjavík eða nágrenni. B krafðist aðallega sýknu en til vara, að henni

væri heimilað að leysa sig með fégjaldi undan atvinnubanninu í samningi aðila.

Sýknukröfunni var hafnað en sagt var að hið víðtæka og ótímabundna atvinnubann skerti

atvinnufrelsi B svo verulega að hún hafi ekki að vera bundin við það að fullu. Metið var að

eitt ár væri hæfileg legnd á atvinnubanninu skv. 37. gr. laga um samningsgerð, umboð og

ógilda löggerninga nr. 7/1936, hér eftir smnl. Þar sem B hafði hins vegar rekið saumastofu

sína í átta eða níu mánuði þegar dómur Hæstaréttar gekk, var talið rétt að heimila henni að

leysa sig undan atvinnubanninu með því að greiða A bætur fyrir það tjón er ætla mátti að A

hefði beðið vegna brots B á atvinnubanninu.

Þó að þessi dómur sé kominn til ára sinna, þá eiga þessi álitaefni ennþá við í dag og er því

hægt að draga þá ályktun að dómurinn sem slíkur hafi enn fordæmisgildi.

Það er breytilegt hvort starfsmaður er látinn skrifa undir slíkan samning áður en hann

hefur störf eða hvort komið er að máli við hann síðar, t.d. við stöðuhækkun og hann látinn

undirgangast slíkt ákvæði. Algengara er þó, eins og gefur að skilja, að slíkt ákvæði sé sett í

4 Viðar Már Matthíasson: „Um ráðningarsamninga“, bls. 368. 5 Lögfræðiorðabók með skýringum, bls. 335.

Page 8: Samningar andstæðir lögum Sædís...6 gegn greiðslu í peningum og/eða öðrum verðmætum.“ Einnig má taka fram að ráðningarsamningar eru almennt persónubundnir, þ.e

7

ráðningarsamninga við upphaf starfs og hjá þeim sem búa yfir sérþekkingu, þ.e. menntun sem

nýtist í starfi eða haldbærri reynslu,6 því mikilvægara er að tryggja að slíkir starfsmenn haldi

sinni þekkingu innan fyrirtækisins sökum viðskiptahagsmuna. Einnig eru til dæmi um að bann

sé lagt við því að starfsmaður eigi viðskipti við viðskiptavini vinnuveitanda eftir lok

ráðningartíma og hefur þetta verið kallað viðskiptamannaákvæði.7

3.2 Samkeppnisákvæði og 37. gr. smnl.

Um samkeppnisákvæði sem ganga of langt í ráðningarsamningum er fjallað í 37. gr. smnl.

Greinin hefur verið í samningalögunum frá upphafi, eða frá setningu þeirra árið 1936, en

lítilsháttar breyting var þó gerð á orðalaginu árið 1986.8 Ákvæði 37. gr. smnl. hljóðar svo:

Hafi maður, í því skyni að varna samkeppni, áskilið sér hjá öðrum manni að sá maður reki

eigi verslun eða aðra atvinnu, eða hann ráði sig eigi til starfa við slíkt fyrirtæki þá er það

loforð eigi bindandi fyrir þann mann ef telja verður, þegar litið er til allra atvika, að

skuldbinding þessi sé víðtækari en nauðsynlegt er til þess að varna samkeppni eða hún

skerði með ósanngjörnum hætti atvinnufrelsi þess manns sem tókst þessa skyldu á herðar.

Við mat á hinu síðastnefnda atriði skal einnig hafa hliðsjón af því hverju það varðar

rétthafann að þessi skuldbinding sé haldin.

Hafi starfsmaður við verslun eða annað fyrirtæki tekið á sig slíka skuldbindingu, sem getur

um í 1. mgr., gagnvart þeim, sem fyrirtækið rekur, og skuldbinding hans á að gilda eftir að

ráðningu hans við fyrirtækið er lokið þá er sú skuldbinding ógild ef honum er sagt upp

stöðunni eða vikið úr henni án þess að hann hafi sjálfur gefið nægilega ástæðu til þess eða ef

hann sjálfur fer löglega úr stöðunni sakir þess að sá, sem fyrirtækið rekur, vanefnir skyldur

sínar við hann.

Fyrri málsgreinin fjallar líka um aðra aðila en atvinnurekanda og launþega, enda er ekki

óalgengt að í samningum um fyrirtækjakaup séu ákvæði sem eiga að koma í veg fyrir að

seljandi fari í samkeppni við kaupanda starfseminnar.9 Ástæðan er m.a. sú að söluverð

atvinnufyrirtækis er oft hærra en bókfært verð eigna gefur til kynna sem má rekja til

viðskiptavildar, þ.e. verðmæta af fjárhagslegum toga í formi þekkingar og hóps fastra

viðskiptamanna sem kjósa að eiga viðskipti við fyrirtækið. Af þessum sökum skuldbinda

seljendur atvinnufyrirtækja sig til þess að fara ekki í samkeppni við kaupandann.10

Ákvæðið á að tryggja að verndin sé innan eðlilegra marka hvað varðar samkeppnisvernd

og skerðingu á atvinnufrelsi þess sem tók skylduna á herðar sér. Við mat á því hvort

6 Lára V. Júlíusdóttir: „Vistarbönd? Um samkeppnisákvæði í persónubundnum ráðningarsamningum“, bls. 540. 7 Benedikt Bogason, Eyvindur G. Gunnarsson og Þorgeir Örlygsson: Kröfuréttur II, bls. 349. 8 Lára V. Júlíusdóttir: „Vistarbönd? Um samkeppnisákvæði í persónubundnum ráðningarsamningum“, bls. 543. 9 Lára V. Júlíusdóttir: „Vistarbönd? Um samkeppnisákvæði í persónubundnum ráðningarsamningum“ , bls. 542. 10 Benedikt Bogason, Eyvindur G. Gunnarsson og Þorgeir Örlygsson: Kröfuréttur II, bls. 349.

Page 9: Samningar andstæðir lögum Sædís...6 gegn greiðslu í peningum og/eða öðrum verðmætum.“ Einnig má taka fram að ráðningarsamningar eru almennt persónubundnir, þ.e

8

atvinnufrelsi sé skert með ósanngjörnum hætti sökum verndarinnar skal líta til þeirra

hagsmuna, sem atvinnurekandinn hefur af því að farið sé eftir því.11

Síðari málsgrein 37. gr. smnl. fjallar einvörðungu um starfsmanninn og hvernig hann er

leystur undan samkeppnisákvæðinu ef honum er sagt upp án ástæðna, eða ef hann hættir

vegna vanefnda atvinnurekanda, t.d. ef starfsmaðurinn hefur ekki fengið greidd laun,12

eða

atvinnurekandi hefur ekki staðið við ráðningarsamning að öðru leyti.

Afar algengt er í samningsákvæðum sem þessum að samið sé samhliða um févíti, sem

felst í því að ef starfsmaður brýtur gegn ákvæðinu þá þurfi hann að greiða daglega tiltekna

fjárhæð fyrir þann tíma sem hann brýtur gegn banninu.13

Það er þó áhugavert að skoða

hvernig dómstólar túlka slíka samninga en nánar verður farið í það hér síðar í umfjölluninni

um réttaráhrif þessara samningsákvæða og samspil þeirra við ógildingarreglur samningaréttar.

Til að setja þetta í samhengi má þó nefna Hrd. 2003, bls. 3542 (124/2003) þar sem

starfsmaður hóf störf árið 1993 hjá fyrirtækinu PMT ehf. og hafði árið 2000 skrifaði undir

ráðningarsamning vegna launahækkunar, þar sem hann skuldbatt sig til að vinna ekki hjá

fjórum nafngreindum fyrirtækjum í tvö ár frá starfslokum hjá PMT ehf. að viðlögðu févíti að

upphæð 12.000 kr. á dag. Árið 2001 sagði hann upp störfum og hóf störf hjá einu af þessum

fjórum nafngreindu fyrirtækjum, sem hann hafði skuldbundið sig að gera ekki, og fór PMT

ehf. því í mál við hann og krafði hann um greiðslu févítis að upphæð 3.120.000 kr.

Samningurinn var ekki talinn ósanngjarn skv. 36. gr. smnl. og voru tvö ár talinn hæfilegur

tími á samkeppnisbanninu, þ.e. bannið var ekki talið víðtækara en nauðsyn krefði skv. 37. gr.

smnl. og var fjallað um þá meginreglu samningaréttar að samninga skuli halda. Hæstiréttur

féllst hins vegar ekki á greiðslu févítis að upphæð 3.120.000 kr. en þeim ákveðnar skaðabætur

að upphæð 900.000 kr.

3.2.1 Samkeppnisákvæði í sérlögum

Víða í sérlögum má finna ákvæði um samkeppnisbann, t.d. í 24. gr. laga um sameignarfélög

nr. 50/2007 en þar segir:

Félagsmanni er óheimilt að taka þátt í annarri starfsemi sem er í samkeppni við rekstur

félagsins nema með skriflegu samþykki allra félagsmanna.

Félagsmaður, sem brýtur gegn ákvæðum 1. mgr., er skaðabótaskyldur gagnvart félaginu skv.

44. gr.

11 Lára V. Júlíusdóttir: „Vistarbönd? Um samkeppnisákvæði í persónubundnum ráðningarsamningum“, bls. 542-543. 12 Lára V. Júlíusdóttir: „Vistarbönd? Um samkeppnisákvæði í persónubundnum ráðningarsamningum“, bls. 543. 13 Benedikt Bogason, Eyvindur G. Gunnarsson og Þorgeir Örlygsson: Kröfuréttur II, bls. 350.

Page 10: Samningar andstæðir lögum Sædís...6 gegn greiðslu í peningum og/eða öðrum verðmætum.“ Einnig má taka fram að ráðningarsamningar eru almennt persónubundnir, þ.e

9

Löggjafinn virðist ekki vera að senda nein sérstök skilaboð með því að hafa þetta í

sérlögum, því hending ein virðist ráða því hvað samkeppnisbannið er langt hverju sinni. Ef

lengdin á banninu er tekin fram, sem ekki er alltaf raunin, þá er hún ekki samræmd milli

sérlaga, sjá t.d. 16. gr. c. laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu nr. 57/2005

en þar segir:

Óheimilt er í atvinnustarfsemi, er lög þessi taka til, að afla sér eða reyna að afla sér með

ótilhlýðilegum hætti upplýsinga eða umráða yfir atvinnuleyndarmálum starfseminnar.

Sá sem fengið hefur vitneskju um eða umráð yfir atvinnuleyndarmálum á réttmætan hátt í

starfi sínu fyrir annan eða í félagi við annan, sbr. 1. mgr., má ekki án heimildar veita

upplýsingar um eða hagnýta sér slík leyndarmál. Bann þetta gildir í þrjú ár frá því að starfi

er lokið eða samningi slitið.

Þeim sem vegna starfs síns eða stöðu að öðru leyti hefur verið trúað fyrir uppdráttum,

lýsingum, uppskriftum, líkönum eða þess háttar er óheimilt að hagnýta sér að veita öðrum

afnot af slíku án sérstakrar heimildar.

Í þessu ákvæði er lengdin á banninu sérstaklega tekin fram, eða þrjú ár, en óalgengt verður

að teljast að lengd samkeppnisbanns sé tilgreind með þessum hætti. Má því draga þá ályktun

að dómstólar meti lengdina eftir því hvað þykir sanngjarnt hverju sinni, fremur en að styðjast

við settan rétt, og verður það skoðað nánar er kafað verður dýpra í dómaframkvæmdina hér

síðar í umfjölluninni.

4 Atvinnufrelsi

4.1 Nánar um atvinnufrelsi

Þegar samkeppnisákvæði eru til skoðunar, þarf alltaf að skoða áhrif þeirra á atvinnufrelsi

einstaklingsins samhliða því og þá skerðingu sem launþeginn gengst undir, sem felst fyrst og

fremst í því að lofa að vinna ekki á tilteknu sviði í fyrirfram ákveðinn tíma.14

Atvinnufrelsi er

eitt af stjórnarskrárvernduðum réttindum einstaklingsins og segir í 75. gr. stjórnarskrár

lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, hér eftir stjskr.:

Öllum er frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa. Þessu frelsi má þó setja skorður með

lögum, enda krefjist almannahagsmunir þess.

Í lögum skal kveða á um rétt manna til að semja um starfskjör sín og önnur réttindi tengd

vinnu.

Í ákvæðunum birtist meginregla, þess efnis að öllum er frjálst að stunda þá atvinnu sem

þeir kjósa, þótt þessu frelsi séu settar skorður með lögum enda krefjist almannahagsmunir

þess. Atvinnufrelsið, sem byggist á rétti manna til að velja sér atvinnu og til að semja um kaup

14 Lára V. Júlíusdóttir: ,,Vistarbönd? Um samkeppnisákvæði í persónubundnum ráðningarsamningum“, bls. 541.

Page 11: Samningar andstæðir lögum Sædís...6 gegn greiðslu í peningum og/eða öðrum verðmætum.“ Einnig má taka fram að ráðningarsamningar eru almennt persónubundnir, þ.e

10

og kjör, hefur talist til hinna mikilvægustu félagslegu réttinda á síðari tímum. Þeir þættir

atvinnufrelsisins sem hafa haft hvað mesta þýðingu í íslenskri réttarframkvæmd lúta að

verndun atvinnuréttinda, en þá er átt við heimildir manna til að stunda áfram þau störf sem

þeir hafa valið sér eða þau störf sem þeir hafa fengið sérstakt leyfi stjórnvalda eða löggildingu

til að stunda. Atvinnuréttindin sem slík njóta verndar eignarréttarákvæðis 72. gr. stjskr. og

skarast því gildissvið 75. og 72. gr. stjskr. að þessu leyti í mikilvægum atriðum, þó ekki sé

endilega alltaf skýrt greint þar á milli, hvorki í fræðikenningum né dómaframkvæmd.15

Stjórnarskrárvernd atvinnufrelsisins má rekja aftur til stjórnarskrár Íslands frá 1874.

Orðalag 1. mgr. 75. gr. stjskr. er nokkuð breytt frá upprunalega ákvæðinu sem stóð í 51. gr.

stjórnarskrárinnar frá 1874 og hljóðaði svo: „Öll bönd þau, er hamla atvinnuvegunum og

jafnrétti manna til atvinnu og eigi eru byggð á almenningsheill, skal af taka með lagaboði.“

Þetta ákvæði var orðrétt úr grundvallarlögum Dana.16

Ákvæðinu hefur verið breytt tvisvar

síðan 1874 en síðast var það árið 1995, þar sem kom fram í athugasemdum með frumvarpinu

frá 1995 „að ákvæðinu væri í megindráttum ætlað að vera efnislega það sama og eldri reglan“.

Orðalaginu var þó breytt og með því var verið að leggja ríkari áherslu á meginreglu fyrri

málsliðar 1. mgr., um að öllum sé frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa sjálfir.17

Einnig

var reynt í síðari málslið 1. mgr. að draga betur fram en áður að skorður við atvinnufrelsi, sem

þurfi að ákveða með lögum, skuli heyra til undantekninga og verði að helgast af nauðsyn

vegna almannahagsmuna.18

Í 37. gr. smnl. er einmitt tekið á þessu, eins og fjallað hefur verið

um hér að ofan, en þar segir að loforð sé ekki bindandi ef telja verður, þegar litið er til allra

atvika, að sú skuldbinding sé víðtækari en nauðsynlegt er til að varna samkeppni eða að hún

skerði með ósanngjörnum hætti atvinnufrelsi þess manns sem tókst þessa skyldu á herðar.

Framan af var litið svo á að réttarleg þýðing atvinnufrelsisákvæðisins væri ekki ýkja

mikil, enda ætti löggjafinn sjálfur fullnaðarmat um það hvort skilyrði um almannahagsmuni

væri uppfyllt. Var þetta í samræmi við danskar fræðikenningar um samsvarandi ákvæði og

þýðingu þess,19

en þar sem íslensku smnl. eru að miklu leyti byggð á þeim dönsku er

athyglisvert að bera saman kenningar danskra fræðimanna við það hvernig réttarsviðið hefur

þróast hér á landi.

Á seinni árum hafa kenningar danskra fræðimanna um þetta efni breyst og er nú

viðurkennt að önnur stjórnarskrárvernduð mannréttindi geti sett þessu svigrúmi löggjafans

15 Björg Thorarensen: Stjórnskipunarréttur, bls. 509. 16 Björg Thorarensen: Stjórnskipunarréttur, bls. 509. 17 Björg Thorarensen: Stjórnskipunarréttur, bls. 510. 18 Björg Thorarensen: Stjórnskipunarréttur, bls. 511. 19 Björg Thorarensen: Stjórnskipunarréttur, bls. 513.

Page 12: Samningar andstæðir lögum Sædís...6 gegn greiðslu í peningum og/eða öðrum verðmætum.“ Einnig má taka fram að ráðningarsamningar eru almennt persónubundnir, þ.e

11

ákveðnar skorður, auk þess sem allar takmarkanir á atvinnufrelsi verði að eiga sér málefnaleg

rök og að gætt sé meðalhófs við ákvarðanatökur. Þetta eru þó einungis fræðilegar vangaveltur

því aldrei hefur fallið dómur í Danmörku þar sem atvinnufrelsisákvæðið réði úrslitum. Þarna

gefur að líta augljósan mun á íslenskum rétti og dönskum, því Danir beita ekki

atvinnufrelsisákvæðinu samhliða eignarréttarákvæðinu um atvinnuréttindin eins og gert er

hér, og er því þróun íslensks réttar töluvert frábrugðin þeirri dönsku.20

Síðustu tveir áratugirnir hafa verið þýðingarmiklir og leitt til grundvallarbreytingar á

túlkun 1. mgr. 75. gr. stjskr. Ástæðurnar eru margar og ber þar helst að nefna aukna virkni

dómstóla við skýringu mannréttindaákvæða, stjórnarskrárbreytingarnar árið 1995 og áhrif

alþjóðasamninga. Einnig eru tvær grundvallarbreytingar sem hafa haft mikil áhrif. Annars

vegar hafa dómstólar breytt mati sínu á því hvort almannahagsmunir krefjist takmarkana, með

hliðsjón af meðalhófi og jafnræði, og hins vegar, eins og komið var inn á hér að ofan, er 1.

mgr. 75. gr. stjskr. í æ meira mæli beitt samhliða 72. gr. stjskr. þegar um atvinnuréttindi er að

ræða og skerðingu á þeim.21

5 Vistarbönd, frjálsir samningar og aðrar ógildingarreglur

5.1 Munur á vistarböndum og samkeppnisákvæðum

Umfjöllun um samkeppnisákvæði í ráðningarsamningum kallar á samanburð við vistarbönd á

þjóðveldisöld fram til ársins 1893, þar sem íslensk fátækralöggjöf takmarkaði búsetu- og

atvinnufrelsi landsmanna. Með Lausamannalögunum árið 1783, þar sem vinnuhjú voru

einskonar þrælar bænda, var atvinnufrelsi þessara einstaklinga látið sæta miklum

takmörkunum. Bændurnir réðu einnig hjúskaparstöðu hjúa sinna og var þessu fólki

fyrirmunað að ganga í hjónaband og þröngvað til að lifa einlífi allt sitt líf. Með þessu

fyrirkomulagi var bændastéttinni tryggt nægt ódýrt vinnuafl og voru afleiðingar

vistarbandsins óeðlilega lág kjör, ánauð og einlífi. Afleiðingar samkeppnisákvæðis í

ráðningarsamningum eru auðvitað ekki jafn alvarlegar22

og fyrr á tímum en gott er að hafa

þennan samanburð í huga, enda á skerðing á atvinnufrelsi ekki að vera sjálfsagður hlutur og

getur sú skerðing haft afdrifaríkar afleiðingar í för með sér.

Samkeppnisákvæði eru víða og geta virkað ósköp saklaus við fyrstu skoðun, en þegar

betur er að gáð, og rýnt er í efni þeirra, er ljóst að áhrif þeirra geta verið umtalsverð og ýmsir

þættir sem vegast á við mat á því hver endanleg þýðing slíks ákvæðis getur verið. Aðilar sem

20 Björg Thorarensen: Stjórnskipunarréttur, bls. 513-514. 21 Björg Thorarensen: Stjórnskipunarréttur, bls. 514. 22 Lára V. Júlíusdóttir: „Vistarbönd? Um samkeppnisákvæði í persónubundnum ráðningarsamningum“, bls. 540.

Page 13: Samningar andstæðir lögum Sædís...6 gegn greiðslu í peningum og/eða öðrum verðmætum.“ Einnig má taka fram að ráðningarsamningar eru almennt persónubundnir, þ.e

12

skrifa undir ráðningarsamning með slíku ákvæði afsala sér vissum atvinnuréttindum í

ákveðinn tíma og samþykkja þar með skerðingu á atvinnufrelsi sínu. Þá þarf að hafa í huga þá

meginreglu samningaréttar að samninga skuli halda, skoða stöðu aðila, hvort þeir voru

jafnsettir, hvort um yfirburðastöðu annars aðilans var að ræða o.sfrv. við mat á lögmæti

þeirra. Samningsfrelsið er einnig eitthvað sem þarf að taka inn í myndina þegar ætlunin er að

blanda sér í samninga milli tveggja aðila, eins og dómstólar virðast gera þegar þeir ákveða að

breyta einkaréttarlegum samningi með því að hlutast til um lengd samkeppnisbanns.

Spurningunni sem m.a. þarf að svara er hvort það megi semja um allt, þ.e. ríkir algjört

samningsfrelsi í einkaréttarlegum lögskiptum aðila, og mætti þá t.d. semja um óendanlega

langt samkeppnisbann? Skv. 37. gr. smnl. eru samningar ógildir ef um of víðtæka skerðingu á

atvinnufrelsi er að ræða. Eftir stendur mat um það hvað er of víðtæk skerðing og hver sker úr

um það? Er það fyrirfram ákveðið, mót sem gengur yfir alla, eða er það eitthvað sem er metið

hverju sinni? Þessum spurningum hefur að einhverju leyti verið svarað hér að ofan en svörin

við þeim verða líklega ekki fundin með öðrum hætti en að greina dómaframkvæmdina, með

það að markmiði að finna gildandi réttarreglu á þessu sviði. Fjallað verður um

dómaframkvæmdina síðar, en svo virðist, að óbreyttu, að dómstólar meti þetta hverju sinni.

Álitaefnið um hvað er sanngjarnt í hverju tilviki fyrir sig, að teknu tilliti til allra þátta, svo sem

stöðu aðilans innan fyrirtækis, menntunar, sérþekkingar, starfsaldurs, áhrif skerðingar

atvinnufrelsis fyrir þann tiltekna starfsmann o.fl., er eitthvað sem reynt verður að svara í

þessari umfjöllun og þá sérstaklega með hliðsjón af dómafordæmum.

5.2 Frjálsir samningar

Rétturinn til frjálsra samninga er einn megingrundvöllur frjáls atvinnulífs. Þegar launþegi skrifar

undir ráðningarsamning sem inniheldur ákvæði um bann við samkeppni, er það samningsákvæði

yfirleitt víðtækara en það sem kveðið er á um í lögum um eftirlit með óréttmætum

viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins, þar sem kemur fram m.a. að bann við notkun

atvinnuleyndarmála gildir í þrjú ár. Að gangast við slíkum ráðningarsamningi er skuldbinding af

hálfu launþega til að vinna ekki hjá samkeppnisaðila, yfirleitt í tiltekinn árafjölda.23

Í þessu

samhengi er oft talað um samkeppnisiðnað, þ.e. þegar aðilar skuldbinda sig til að vinna ekki í

tilteknum samkeppnisiðnaði. Samkeppnisiðnaður er mjög víðtækt hugtak en samningar á því

sviði, sem segja til um umfangsmeiri skerðingu á atvinnufrelsi en lög heimila með beinum hætti,

eru heimilir samkvæmt meginreglu samningaréttar um samningsfrelsi.24

23 Lára V. Júlíusdóttir: „Vistarbönd? Um samkeppnisákvæði í persónulegum ráðningarsamningum“, bls. 543. 24 Lára V. Júlíusdóttir: „Vistarbönd? Um samkeppnisákvæði í persónulegum ráðningarsamningum“, bls. 543.

Page 14: Samningar andstæðir lögum Sædís...6 gegn greiðslu í peningum og/eða öðrum verðmætum.“ Einnig má taka fram að ráðningarsamningar eru almennt persónubundnir, þ.e

13

Þessir samningar verða þó alltaf túlkaðir með vísan til 37. gr. smnl., bæði 1. og 2. mgr. en

skv. 2. mgr. 37. gr. smnl. er starfsmaður ekki bundinn af samkeppnisákvæðinu ef hann t.d.

hættir vegna vanefnda atvinnurekanda á ráðningarsamningi, ef þær vanefndir hafa verið

verulegar og nægilegar til að gefa starfsmanninum heimild til að rifta ráðningarsamningnum.

Hafi hann sjálfur sagt upp störfum er hann bundinn af ráðningarsamningsákvæðinu, nema

hægt sé að sýna fram á að þessi skuldbinding sé víðtækari en nauðsynlegt er til að varna

samkeppni eða hún skerði, með ósanngjörnum hætti, atvinnufrelsi þess manns, sem tókst

þessar skyldur á herðar, sbr. 1. mgr. 37. gr. smnl.25

Þetta fer saman við fyrri umfjöllun um samkeppnisákvæði í ráðningarsamningum, þ.e.

meta þarf hversu víðtæk skuldbindingin er og túlka í samræmi við 37. gr. smnl.

5.3 Aðrar ógildingarreglur

Þegar farið er að skyggnast undir yfirborðið á þessum samningum er nauðsynlegt að staldra

við það orðalag sem löggjafinn ákveður að nota í 1. mgr. 37. gr. smnl., en það er „með

ósanngjörnum hætti“. Þetta orðalag er afar opið og býður upp á mikið svigrúm til túlkunar og

aðlögunar að hverju máli fyrir sig. Það er varla hægt að fjalla um það sem telja má sanngjarnt,

án þess að minnast á aðrar ógildingarreglur samningaréttar, svo sem 36. gr. smnl. Samningar

andstæðir lögum er ógildingarregla útaf fyrir sig, en regla þessi er sjaldan notuð ein og sér í

málflutningi í dómsmálum heldur yfirleitt samhliða öðrum ógildingarreglum á borð við 36. gr.

smnl. Gjarnan er komist að því að samningur sé andstæður réttarreglu og 36. gr. smnl. þá

notuð sem réttarheimild sem myndar réttarregluna að samningur sé ógildur af því hann er

ósanngjarn. Þannig tvinnast 37. gr. og 36. gr. saman. Niðurstaða dómstóla við mat á samningi

sem inniheldur ósanngjarnt samkeppnisákvæði, gæti þá verið á þann veg að samningurinn

yrði metinn gildur í heild en hinu ósanngjarna ákvæði yrði breytt eða það fellt brott,

ósanngjarnt ákvæði annars bindandi samnings fellt brott en öðrum ákvæðum þá breytt til þess

að aðlagast breyttum samningi og til þess að sanngjörn niðurstaða fáist eða samningur í heild

sinni er felldur úr gildi.26

Einnig kunna önnur ákvæði samningalaganna að koma til skoðunar í

einstaka tilvikum, t.d. þegar starfsmenn skrifa undir samkeppnisákvæði í

ráðningarsamningum án þess að gera sér grein fyrir eða vita hvað þeir voru í raun að skrifa

undir. Þá þarf að meta gildi samningsins með hliðsjón af misneytingarákvæðum

samningalaga, svo og sönnunarreglum, en það kann að reynast afar snúið í þeim tilvikum.27

25 Lára V. Júlíusdóttir: „Vistarbönd? Um samkeppnisákvæði í persónulegum ráðningarsamningum“, bls. 543. 26 Páll Sigurðsson: Samningaréttur, bls. 322. 27 Lára V. Júlíusdóttir: „Vistarbönd? Samkeppnisákvæði í persónulegum ráðningarsamningum“, bls. 544.

Page 15: Samningar andstæðir lögum Sædís...6 gegn greiðslu í peningum og/eða öðrum verðmætum.“ Einnig má taka fram að ráðningarsamningar eru almennt persónubundnir, þ.e

14

6 Dómaframkvæmd

6.1 Samanburður á dómaframkvæmd hérlendis og erlendis

Samkeppnisákvæði í ráðningarsamningum hafa reglulega komið til kasta dómstóla í gegnum

tíðina, jafnt í íslenskum, dönskum og evrópskum rétti. Fyrsti íslenski dómurinn er tók á

álitaefnum þessu tengdu og fjallað er um hér ofar, er svokallaði saumakonudómurinn frá árinu

1939. Sá dómur hefur enn fordæmisgildi þar sem mörg sömu álitaefnin eiga enn við í dag og

telja má að Hæstiréttur nálgist viðfangsefnið á svipaðan hátt enn þann dag í dag. Hér á eftir

verða reifaðir nokkrir dómar til að varpa betur ljósi á nálgun dómstóla og túlkun á 37. gr.

smnl., er snýr að samkeppnisákvæðum í ráðningarsamningum.

6.1.1 Ísland

Hrd. 1987, bls. 1293, E réð sig til starfa hjá endurskoðunarskrifstofunni M en í starfsamningi

var ákvæði sem fjallaði um að E væri óheimilt að takast á hendur störf fyrir viðskiptavini M.

E hætti störfum hjá M og hóf ásamt öðrum rekstur endurskoðunarskrifstofunnar R. Þegar E

vann enn hjá M kom inn nýr viðskiptaaðili en E hafði þó enga aðkomu að stofnun þeirra

viðskipta. Þessi aðili vildi síðan eiga í viðskiptasambandi við R og stofnuðu þeir til viðskipta.

M höfðaði þá mál gegn E fyrir brot á samningi og til greiðslu skaðabóta fyrir missi

viðskiptasambands á grundvelli þessa starfsamnings á milli R og viðskiptaaðilans. Með

hliðsjón af 35. gr. smnl. (nú 37. gr. smnl.) var E dæmd til greiðslu skaðabóta en

skaðabæturnar voru þó lækkaðar frá því sem krafist var með vísan til 35. gr. smnl.28

Hrd. 1995, bls. 1646, S réðst til starfa hjá öryggisþjónustunni V í janúar árið 1990 og

fólst starfið í hleðslu og þjónustu á handslökkvitækjum. Í ráðningarsamningnum voru ákvæði

um að S mætti hvorki vinna hjá samkeppnisfyrirtæki né stofna samskonar fyrirtæki í sömu

starfsgrein í fimm ár eftir starfslok. S hætti síðan hjá öryggisþjónustunni í maí 1990 og

stofnaði fljótlega einkafyrirtækið Slökkvitækjaþjónustuna. V höfðaði þá mál og krafðist

viðurkenningar á að rekstur S hafi verið ólögmætur, auk þess að krefjast dagsekta og til vara

greiðslu skaðabóta. Dómurinn hljóðaði þannig að fimm ár voru talin fela í sér ósanngjarna

skerðingu á atvinnufrelsi S og tvö ár voru dæmd hæfileg með vísan til 37. gr. smnl. Sá tími

var hinsvegar liðinn þegar dómur Hæstaréttar var upp kveðinn og var S því ekki dæmdur til

greiðslu dagsekta. Þar sem V gagnstefndi ekki málinu til Hæstaréttar var S ekki dæmdur til

greiðslu skaðabóta þar.

28 Lára V. Júlíusdóttir: „Vistarbönd? Samkeppnisákvæði í persónulegum ráðningarsamningum“, bls. 545.

Page 16: Samningar andstæðir lögum Sædís...6 gegn greiðslu í peningum og/eða öðrum verðmætum.“ Einnig má taka fram að ráðningarsamningar eru almennt persónubundnir, þ.e

15

Þó ofangreindir dómar og aðrir sem hafa verið reifaðir í fyrri köflum ritgerðarinnar fjalli

um sérstök mál og erfitt kunni að vera að draga of víðtækar ályktanir af þeim, er ljóst að

Hæstiréttur hefur staðfest, í öllum þessum málum, að skorður á atvinnufrelsi megi setja í lög,

þótt í sumum tilvikum hafi það verið skert með ósanngjörnum hætti.29

Í Hrd. 2000, bls. 2083 (29/2000) voru tveir dagskrárgerðarmenn sem hættu störfum hjá

tiltekinni útvarpsstöð áður en ráðningartími þeirra var liðinn. Lögbann hafði verið lagt við að

þeir störfuðu hjá tilteknum samkeppnisaðilum en þar komst dómurinn að þeirri niðurstöðu að

túlka hafi átt samninginn þröngt, og atvinnurekandi látinn bera hallann af óskýru orðalagi, þá

var ekki talið að þetta ákvæði í samningnum gæti lifað sjálfstæðu lífi óháð afdrifum meginefni

samningsins, þ.e. ákvæði um að þeir mættu ekki starfa í tiltekinn tíma í sjónvarpi eða útvarpi.

Voru dagskrárgerðarmennirnir því sýknaðir og niðurstaða héraðsdóms, um að hafna kröfu

vinnuveitandans um lögbann, staðfest.

Af þessum dómi má draga þá ályktun að atvinnurekandi beri hallan af óskýru orðalagi

íþyngjandi samningsákvæðis og mikilvægi þess að samningar séu skýrir. Ekki var hægt að

ráða það af samningnum að samkeppnisbannið gilti í þessu tilviki, þrátt fyrir að ótvírætt hafi

talist að dagskrárgerðarmönnunum hafi brostið heimild til að segja upp störfum með þeim

hætti sem þeir gerðu.

Hrd. 1998, bls. 1595. Starfsmaður Kælismiðjunnar Frost sagði upp starfi sínu hjá

fyrirtækinu með bréfi dags. 23. september 1996. Þann 26. s.m. sendi framkvæmdarstjóri

fyrirtækisins starfsmanninum bréf þar sem honum var tilkynnt að Kælismiðjan hefði

upplýsingar um að starfsmaðurinn ætlaði að stofna samkeppnisrekstur ásamt öðrum. Af

þessum sökum væri ekki óskað eftir starfsmanninum á vinnustaðnum og honum óleyfilegt að

koma fram fyrir hönd Kælismiðjunnar Frosts á nokkurn hátt, auk þess að þeir gætu leitað til

hans á vinnutíma með sérverkefni meðan þeir borguðu honum laun. Var einnig vakin athygli á

því í bréfinu að brot á trúnaðarskyldu myndi leiða til launamissis. Þann 30. september 1996

stofnar starfsmaðurinn fyrirtæki á samkeppnismarkaði ásamt öðrum og er ráðinn

framkvæmdarstjóri þess sama dag og 16. október sama ár fær starfsmaðurinn bréf þess efnis

að hann muni ekki hljóta frekari launagreiðslur af þessum sökum, þrátt fyrir þriggja mánaða

uppsagnarfrest. Vegna framgangs hans eftir uppsögnina, gat Kælismiðjan Frost ekki nýtt sér

rétt sinn til þess að leita til hans með sérverkefni. Vegna framangreindrar framkomu og þar

sem nokkrir viðskiptavinir Kælismiðjunnar ákváðu að eiga frekar viðskipti við nýja fyrirtæki

29 Lára V. Júlíusdóttir: „Vistarbönd? Samkeppnisákvæði í persónulegum ráðningarsamningum“, bls. 545.

Page 17: Samningar andstæðir lögum Sædís...6 gegn greiðslu í peningum og/eða öðrum verðmætum.“ Einnig má taka fram að ráðningarsamningar eru almennt persónubundnir, þ.e

16

starfsmannsins, taldi Hæstiréttur að Kælismiðjan þyrfti ekki að borga honum laun í

uppsagnarfresti.

Í Hrd. 2001, bls. 4097 (398/2001) kröfðust sóknaraðilarnir, Global refund, þess að lagt

yrði lögbann við athöfnum fyrrverandi framkvæmdastjóra fyrirtækisins, J, og nýju fyrirtæki

hans R hf. sem J hafði stofnað eftir að honum var vikið frá Global refund. Það lá fyrir að J

hafði íhugað uppsögn vegna fyrirhugaðs samkeppnisreksturs og leitaði sér lögfræðiaðstoðar

vegna þessa. Ekki var talið að það gengi gegn trúnaðarskyldu hans við Global refund en

hinsvegar var talið að það væri brot að senda lögmanni sínum afrit af samningum 10 stærstu

viðskiptavina Global refund, með þeim tilgangi að athuga hvort þeir gætu hætt í viðskiptum

við Global refund og hafið viðskipti við R hf. Þetta mátti gefa þeim tilefni til fyrirvaralausrar

riftunar á samningi sínum við J en við riftunina virkjaðist ákvæði í ráðningarsamningnum um

að J væri óheimilt að stunda samkeppnisrekstur í allri Skandinavíu. Orðalagið var talið of

óskýrt og atvinnurekendurnir látnir bera hallan af því. Ekki var talið að J hefði skuldbundið

sig til að hefja ekki samkeppnisrekstur hér á landi og þótti ákvörðun J, um að stofna R hf. eftir

einhliða uppsögn, ekki vera tilefni til lögbanns gegn starfsemi hans á grundvelli almennra

regla um trúnaðarskyldu vinnuréttar. Lögbannskröfunni var þar með hafnað.

Þarna má sjá annað dæmi um mikilvægi þess að orða ákvæðið skýrt og hver ber hallan af

óskýru orðalagi.

6.1.2 Danmörk

Hömlur hafa verið settar í starfsmannalög í Danmörku við samkeppnisákvæðum en þau

kallast funktionærloven30

og eru nr. 81/2009. Í 18. gr. þessara laga segir að ef starfsmaður

hefur skuldbundið sig til þess að reka ekki fyrirtæki á samkeppnisgrundvelli geta 36. og 38.

gr. dönsku samningalaganna, aftaleloven eða Lovbekentgørelse om aftaler og andre

retshandler på formuerettens område nr. 781/1996, átt við. Í Danmörku þykir afar eðlilegt að

vernda starfsmenn gegn samkeppnisákvæðum í ráðningarsamningum og skulu þessi ákvæði

fyrst og fremst eiga við um aðila sem gegna stjórnunarstörfum. Sá áskilnaður er gerður að

ákvæðin séu skýr og ljóst skuli vera að verið sé að borga sérstaklega fyrir verndina. Svipuð

sjónarmið hafa verið uppi í dönskum dómum og í þeim íslensku og eru menn gjarnan dæmdir

til bótagreiðslna vegna brota á samkeppnisákvæðum, en litið er til bótalækkandi þátta með

vísan til 38. gr. dönsku samningalaganna. Flestir dönsku dómarnir fjalla þó um menn sem láta

af störfum og hefja eigin rekstur í samkeppni við fyrri atvinnurekanda.31

30 Lára V. Júlíusdóttir: „Vistarbönd? Um samkeppnisákvæði í ráðningarsamningum“, bls. 549. 31 Lára V. Júlíusdóttir: „Vistarbönd? Um samkeppnisákvæði í ráðningarsamningum“, bls. 549.

Page 18: Samningar andstæðir lögum Sædís...6 gegn greiðslu í peningum og/eða öðrum verðmætum.“ Einnig má taka fram að ráðningarsamningar eru almennt persónubundnir, þ.e

17

Sambærilegt ákvæði 37. gr. smnl. má finna í 38. gr. aftaleloven og eru þessi ákvæði alveg

hliðstæð, enda eru íslensku lögin byggð á danskri fyrirmynd. Í bókinni Aftaleloven, sem fjallar um

dönsku samningalögin ásamt skýringum, segir að 38. gr. hafi verið sett í lögin af því það hafði

sýnt sig að starfsmaður var ekki nægilega varinn gegn of víðtæku samkeppnisákvæði með öðrum

ógildingarreglum, þ.e. ekki er víst að aðrar ógildingarreglur samningaréttarins kæmu í veg fyrir að

ósanngjarnt samkeppnisákvæði í ráðningarsamningi fengi fram að ganga.32

Í Danmörku er að finna marga dóma sem fjalla um 38. gr. dönsku laganna og má þar

nefna UfR. 2015, bls. 1152, þar sem tveir fyrrverandi starfsmenn voru ekki taldir hafa brotið

samkeppnisákvæði með því að uppfæra síður sínar á LinkedIn með upplýsingum um

nýráðningu þeirra hjá tilvonandi yfirmanni. Einnig má nefna UfR. 1963, bls. 495, þar sem

samkeppnisákvæði var ekki talið gilda um starfsmann sem var sagt upp án nægilegrar ástæðu

og má þar sjá hliðstæðu við íslenskan rétt, þar sem sama regla gildir hér á landi. Sjá einnig

UfR. 1968, bls. 117, þar sem fimm ára samkeppnisbann var ekki látið standa eftir sölu á

gildandi starfsemi.

6.1.3 Breskur réttur

Það er áhugavert að skoða nálgun dómstóla úr öðru lagakerfi varðandi þetta álitaefni og hefur

danskur réttur nú þegar verið skoðaður. Í Bretlandi hefur einnig reynt á þetta álitaefni fyrir

dómstólum og er fróðlegt að skoða það til hliðsjónar við fyrri umfjöllun. Þar má m.a. nefna

málið Herbert Morris Ltd v Saxelby [1916] AC 688, sem varpar ljósi á hvernig tekið er á

þessu álitaefni þar í landi. Þetta mál fjallaði um verkfræðing sem skrifaði undir

ráðningarsamning sem innihélt samkeppnisákvæði, sem hljóðaði upp á sjö ára

samkeppnisbann hvar sem er í Bretlandi. Þegar atvinnurekandinn vildi síðan fá úr því skorið

fyrir dómstólum hvort bannið gilti, mistókst það og var dæmt starfsmanninum í hag, þ.e.

bannið var dæmt ógilt.

Hinsvegar var önnur niðurstaða í máli Home Counties Dairies Ltd v Skilton [1970] 1

WLR 526, þar sem mjólkursölumaður samþykkti að selja ekki mjólkurvörur til viðskiptavina

fyrrum yfirmanns síns. Þetta samkeppnisbann var talið í lagi því það var takmarkað við

mjólkurvörur, sem hann hafði verið að selja í fyrra starfi. Einnig er áhugavert að skoða mál

Mason v Provident Clothing & Supply Co. Ltd [1913] AC 724, þar sem hömlurnar voru þær

að starfsmaður mætti ekki fara út í svipaðan rekstur innan 25 mílna fjarlægðar frá London.

32 Lennart Lynge Andersen: Aftaleloven med kommentarer, bls. 276.

Page 19: Samningar andstæðir lögum Sædís...6 gegn greiðslu í peningum og/eða öðrum verðmætum.“ Einnig má taka fram að ráðningarsamningar eru almennt persónubundnir, þ.e

18

Hann hafði starfað í lítilli búð í Islington og vegna þessa voru umræddar hömlur taldar

víðtækari en nauðsyn krefðist.33

Af þessum dómum má draga þá ályktun að dómstólar í Bretlandi noti svipaða aðferðarfræði

og íslenskir dómstólar til að komast niðurstöðu í þessum málum. Eins og sjá má af þessum

dómum þá vilja þeir ekki viðurkenna of víðtæka skerðingu á atvinnufrelsi starfsmanns, en reyna

þó að virða samninga sem menn gera á jafnréttisgrundvelli. Niðurstöður í ofangreindum dómum

samrýmast því vel hugsjón íslenskra dómstóla. Þetta má sjá af mjólkursöludómnum þar sem

skerðingin var talin heimil því hún var ekki of víðtæk, heldur einskorðaðist hún við vörur sem

hann hafði verið að selja í fyrra starfi. Annað var upp á teningnum í Mason málinu, þar sem

skerðingin var talin of víðtæk því hún var ekki nauðsynleg. Þetta er því sjálfstætt mat hverju

sinni og margt tekið inn í matið, eins og hér á landi.

6.2 Ályktanir af dómaframkvæmd

Í ljósi ofangreindra dóma, er hægt að draga þá ályktun að fara verður varlega í að beita

samkeppnisákvæði í ráðningarsamningum. Þau mega ekki vera víðtækari en brýnir hagsmunir

krefjast og ber atvinnurekandi sönnunarbyrði á því hvað teljist brýnir hagsmunir. Þegar skoða

á hve víðtæk samningsskuldbindingin má vera þarf að horfa á hvers konar starfi viðkomandi

starfsmaður gegndi, hvort hann var lykilstarfsmaður og í beinu sambandi við viðskiptamenn.

Athuga þarf hversu ríka trúnaðarskyldu hann hafði gagnvart vinnuveitanda sínum og hvort

hann bjó yfir lykilupplýsingum um fyrirtækið. Einnig spilar inn í þekking starfsmannsins, þ.e.

hversu hratt þekking hans úreldist og hversu mikið atvinnurekandi hefur menntað hann til

starfsins.34

Það er mikilvægt að skoða og taka tillit til hvers konar starfsemi um er að ræða,

hvort hún sé sérhæf og hverjir samkeppnisaðilar eru. Þegar búið er að taka þetta allt með í

reikninginn þarf samt alltaf að gæta þess að atvinnufrelsi starfsmannsins sé ekki skert með

ósanngjörnum hætti og að skerðingin verði ekki víðtækari en nauðsyn ber til.35

Að auki er nauðsynlegt að samkeppnissákvæðið sé skýrt og hnitmiðað og sett í því skyni

að vernda ákveðna samkeppnishagsmuni og ber atvinnurekandi alltaf hallan af óskýru

orðalagi íþyngjandi ákvæðis.36

33 Jill Poole: Textbook on Contract Law, bls. 395-396. 34 Lára V. Júlíusdóttir: „Vistarbönd? Um samkeppnisákvæði í persónulegum ráðningarsamninum“, bls. 548. 35 Lára V. Júlíusdóttir: „Vistarbönd? Um samkeppnisákvæði í persónulegum ráðningarsamninum“, bls. 549. 36 Lára V. Júlíusdóttir: „Vistarbönd? Um samkeppnisákvæði í persónulegum ráðningarsamninum“, bls. 549.

Page 20: Samningar andstæðir lögum Sædís...6 gegn greiðslu í peningum og/eða öðrum verðmætum.“ Einnig má taka fram að ráðningarsamningar eru almennt persónubundnir, þ.e

19

7 Réttaráhrif

7.1 Helstu réttaráhrif

Velta þarf upp réttaráhrifum samkeppnisákvæðis í ráðningarsamningum, því ef það er of

víðtækt og brýtur gegn atvinnufrelsi starfsmanns kemur til skoðunar hvaða afleiðingar það

hefur í för með sér. Ekki er til eitt einfalt svar við þessu því eins og umfjöllun um

dómaframkvæmd leiddi að nokkru leyti í ljós hér að ofan þá er ekki hægt að slá neinni

ákveðinni reglu fastri í þessum efnum. Dómstólar virðast vilja hafa nokkuð frjálst mat þegar

kemur að samkeppnisákvæðum og taka marga þætti inn í sitt mat, s.s. menntun, starfsreynslu,

hvort viðkomandi var lykilstarfsmaður, hvort hann bjó yfir viðskiptaleyndarmálum o.s.frv.

Það mætti velta því upp á ný af hverju dómstólar séu yfir höfuð að fjalla um þessi mál sem

varða samninga milli tveggja aðila, þ.e. af hverju eiga aðilarnir ekki að taka afleiðingum þess

að semja illa og þegar þeir semja frá sér atvinnufrelsi og atvinnuréttindum? Dómstólar virðast

oftast leysa menn úr snörunni og pendúllinn virðist augljóslega sveiflast í átt að hag

einstaklinga, fremur en vinnuveitanda, því þó starfsmaður brjóti gegn ákvæði sem inniheldur

samkeppnisbann þá er ákvæðið oft talið ósanngjarnt eða of víðtækt. Ef svo er ekki þá eru

févíti, sem eru algeng í þessum samningum, í flestum tilvikum lækkuð. Dómstólar hafa ekki

gert miklar kröfur til einstaklinga, að þeir sanni eða sýni fram á að samkeppnisákvæði í

ráðningarsamningum sé ósanngjarnt heldur virðist allur þungi lagður á fyrirtæki sem beita

samkeppnisbanninu án þess að sú skylda sé beinlínis lögð á dómstóla með lögum. Þannig

móta dómstólar réttinn því löggjafinn skilur eftir svigrúm til mats með opnu orðalagi ákvæðis

37. gr. smnl. Einnig er áhugavert að aldrei hefur verið fallist á lögbann í þessum málum sem

skoðuð voru, en skaðabótakrafa aftur á móti samþykkt. Þessi samningsákvæði eru því í sífellu

virt að vettugi, enda vitað að afleiðingarnar eru yfirleitt ekki ýkja alvarlegar.

Þessi hugsunarháttur verður hins vegar að teljast varhugaverður, enda getur það ekki talist

gott þegar dómstólar telja það eðlilegt að leysa menn undan ábyrgð sem hlýst af því að menn

brjóta samningsskilmála sem þeir undirrituðu af frjálsum vilja. Lög eiga að veita félagslegt

aðhald, sérstaklega ef þau eiga sér rætur í siðferðislegu gildismati fólks. Sá sem að brýtur lög

telst þannig hafa rofið óskráðan sáttmála við samþegna sína.37

Þess vegna er undarlegt hversu

auðveldlega menn koma sér undan þessum samningum þrátt fyrir lagaákvæði eins og 16. gr.

c. laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, þar sem mælt er fyrir um að

bannið sé hæfilegt í þrjú ár eftir að viðkomandi lét af störfum eða samningurinn rann úr gildi.

37 Sigurður Líndal: Um lög og lögfræði, bls. 42.

Page 21: Samningar andstæðir lögum Sædís...6 gegn greiðslu í peningum og/eða öðrum verðmætum.“ Einnig má taka fram að ráðningarsamningar eru almennt persónubundnir, þ.e

20

Með hliðsjón af þessu má velta því upp hvort að dómstólar séu að líta til meginreglunnar um

lex superior, þ.e stöðu grundvallarlaga gagnvart öðrum flokkum settra laga þar sem

grundvallarlög eru mikilvægust settra laga. Það þýðir að ef sett lög annarrar tegundar

samrýmast ekki grundvallarlögum að formi eða efni til þá þoka þau nema annað sé tekið

fram.38

Dómstólar gætu verið að horfa til þessa, þegar þeir breyta samningi sem fellur undir

ofangreinda 16. gr. c. og láta þar með ákvæði almennra laga þoka fyrir atvinnufrelsisákvæði

stjskr. Af þessu mætti ráða að dómstólar virðast sjá sig knúna til þess að taka stöðu með

atvinnufrelsinu í þessum tilvikum.

Það er ekki hægt að setja fram einn fullkominn mælikvarða á það hvernig dómstólar

komast að sinni niðurstöðu. Það er ekki svo að ef samkeppnisákvæðið segir til um bann í

fimm ár, að þá sé það í öllum tilvikum lækkað niður í þrjú ár því það er svo afskaplega margt

sem spilar inn í. Algengast er þó að fimm ár teljist of víðtæk skerðing óháð öðrum þáttum, því

það er talin of mikil skerðing á þeim stjórnarskrárbundnu réttindum sem atvinnufrelsi er, þó

þar standi að skerða megi þau með lögum. Í nokkrum dómum var lengd samkeppnisbanns

stytt úr fimm árum niður í tvö ár og það talinn hæfilegur tími með hliðsjón af stöðu aðilans í

fyrirtækinu, eðli fyrirtækisins, starfsreynslu og menntunar starfsmanns.

Einnig er það samspil 37. gr. smnl. við aðrar ógildingarreglur samningalaga, s.s. við 36.

gr. og misneytingarákvæðin í smnl., eins og fjallað hefur verið um, sem varpar ljósi á

aðferðarfræði dómstóla. Ef samningur er ógiltur í heild eða að hluta, þá er það yfirleitt alltaf

samhliða annarri ógildingarreglu en þeirri að samningurinn sé andstæður lögum, þ.e.

samningurinn er andstæður réttarreglu en réttarheimildin er t.d. 36. gr. smnl.

7.2 Togstreita atvinnufrelsis og samningsfrelsis

Það sem vekur athygli við skoðun á gildandi viðhorfum og niðurstöðum dómstóla varðandi

samkeppnisákvæði í ráðningarsamningum, er þessi togstreita milli samningsfrelsis og

atvinnufrelsis. Öðru megin er meginreglan í íslenskum samningarétti, að tveir jafnsettir aðilar

mega ákveða að semja um nánast hvað sem er, þar á meðal skerðingu á stjórnarskrárvörðum

réttindum, og á hinn bóginn eru það þessi stjórnarskrárvörðu réttindi, sem óeðlilegt þykir að

hægt sé að semja sig frá. Báðir þessir pólar þurfa að lúta í lægra haldi fyrir hinum því

samningsfrelsinu eru settar skorður þegar samningurinn er talinn vera ósanngjarn og skerðing

á atvinnufrelsi of víðtæk. Atvinnufrelsið er þó ekki ófrávíkjanlegur réttur þar sem stjskr.

heimilar að því séu settar skorður með lögum, auk þess að heimilt er að semja um

38 Sigurður Líndal: Um lög og lögfræði, bls. 85.

Page 22: Samningar andstæðir lögum Sædís...6 gegn greiðslu í peningum og/eða öðrum verðmætum.“ Einnig má taka fram að ráðningarsamningar eru almennt persónubundnir, þ.e

21

samkeppnisákvæði ef það gengur ekki of langt. Þetta er því einhvers konar samspil þessara

tveggja réttinda.

Af dómaframkvæmd má sjá, að dómstólar virðast oft taka stöðu með atvinnufrelsinu og

telja samkeppnisbannið ósanngjarnt og ógilda það að hluta, þannig að dregið er úr tímalengd

þess með vísan til annarra ógildingarreglna samningaréttar og ef það er ekki gert þá eru févíti,

sem eru algeng í þessum samningum, oft á tíðum lækkuð svo um munar. Hægt er að setja

spurningamerki við þessa aðferð dómstóla, að hafa afskipti af samningum tveggja aðila og af

hverju slíkir samningar eru ekki látnir standa og hlutaðeigandi látnir taka afleiðingum

samningsráðstafana sinna. Atvinnufrelsið kemur í veg fyrir það að of víðtækt

samkeppnisbannsákvæði fái að standa óhaggað, þar sem það er talið vega um of að réttindum

starfsmanns.

8 Niðurstöður

Eftir þessa umfjöllun er áhugavert að draga saman ályktanir af dómaframkvæmd og réttaráhrif

samkeppnisákvæða í ráðningarsamningum þegar þau ganga of langt. Margt spilar inn í þegar

dómstólar skera úr um hvort samkeppnisákvæði í ráðningarsamningi sé of víðtækt. Það skiptir

máli hversu sérhæft fyrirtækið er. Ef fyrirtækið sem um ræðir þarf ekki að gæta neinna

sérhæfðra eða afmarkaðra viðskiptahagsmuna, engra ákveðinna trúnaðarupplýsinga sem

fyrirtækið býr yfir eða neinna viðskiptaleyndarmála sem geta stofnað fyrirtækinu í hættu ef

fyrrverandi starfsmaður fer að vinna hjá samkeppnisfyrirtæki, þá getur samkeppnisbann varla

talist nauðsynlegt.

Þó fyrirtæki sé sérhæft eða á afmörkuðu sviði í sínum rekstri þarf ekki endilega að teljast

forsvaranlegt að setja samkeppnisákvæði í ráðningarsamning starfsmanns eingöngu á þeim

forsendum að hann teljist lykilstarfsmaður. Nauðsynlegt verður að telja að starfsmaðurinn búi

yfir trúnaðarupplýsingum eða veigamikilli þekkingu og sé þannig sannarlega þýðingarmikill

starfsmaður. Það er skiljanlegt að atvinnurekendur vilji láta lykilstarfsmenn skrifa undir

samninga sem innihalda slík ákvæði því það er mikilvægt fyrir fyrirtæki að starfsmaður geti

ekki sagt upp, stofnað fyrirtæki á samkeppnisgrundvelli og jafnvel stolið viðskiptavinum. Það

er m.a. vegna þessarar ástæðu sem slíkt samkeppnisbann og skerðing á atvinnufrelsi, þ.e.

skerðing á því að vera heimilt að stunda þá atvinnu sem maður kýs,39

er leyfileg upp að

ákveðnu marki.

39 Lögfræðiorðabók með skýringum, bls. 32.

Page 23: Samningar andstæðir lögum Sædís...6 gegn greiðslu í peningum og/eða öðrum verðmætum.“ Einnig má taka fram að ráðningarsamningar eru almennt persónubundnir, þ.e

22

Slíkt bann er víða að finna í ráðningarsamningum og staðreyndin er sú að starfsmenn

virðast ekki vera tregir við að brjóta gegn banni af þessu tagi, enda eru afleiðingarnar í

flestum tilvikum ekki afdrifaríkar. Verður þetta að teljast afar áhugavert. Af dómaframkvæmd

má ráða, að hámarkstími bannsins er yfirleitt tvö ár. Þá eru öll ofangreind atriði tekin inn í mat

dómstóla og vegur þá einna þyngst að skerðing á atvinnufrelsi á ekki að vera víðtækari en

þörf krefur. Samkeppnisákvæði verður að vera skýrt orðað og ber atvinnurekandi hallan af

óskýru orðalagi íþyngjandi ákvæðis. Starfsmaður er t.d. ekki bundinn af slíku ákvæði ef hann

er knúinn til þess að hætta störfum vegna vanefnda atvinnurekanda.

Hér hefur verið drepið á ýmsu er við kemur samkeppnisákvæðum í ráðningarsamningum

og hvaða afleiðingar það kann að hafa í för með sér þegar slík ákvæði ganga of langt.

Dómstólar eru yfirleitt samkvæmir sjálfum sér í mati sínu í þessum málum og eðli málsins

samkvæmt eru þetta viðkvæm réttindi sem togast á, þ.e. samningsfrelsið og atvinnufrelsið.

Dómstólar virðast taka nokkuð afgerandi stöðu með atvinnufrelsinu í þeim tilvikum sem

samkeppnisbann telst of víðtækt, því eins og áður hefur komið fram, á skerðing á atvinnufrelsi

ekki að vera víðtækari en þörf krefur. Löggjafinn hefur gert dómstólum kleift að hlutast til um

ákvæði þessara samninga með tilkomu 37. gr. smnl. og gefið þeim nokkuð frjálsar hendur við

mat á því hvað telst ósanngjörn skerðing á atvinnufrelsi hverju sinni. Af öllu þessu má ráða að

dómstólar meta þetta hverju sinni, hversu langt er hægt að ganga í skerðingu á atvinnufrelsi

einstaklings á grundvelli samningsfrelsis.

Page 24: Samningar andstæðir lögum Sædís...6 gegn greiðslu í peningum og/eða öðrum verðmætum.“ Einnig má taka fram að ráðningarsamningar eru almennt persónubundnir, þ.e

23

HEIMILDASKRÁ

Benedikt Bogason, Eyvindur G. Gunnarsson og Þorgeir Örlygsson: Kröfuréttur II. Reykjavík 2011.

Björg Thorarensen: Stjórnskipunarréttur. Mannréttindi. Reykjavík 2008.

Jill Poole: Textbook on Contract Law. 7. útgáfa. Oxford 2004.

Lára V. Júlíusdóttir: „Vistarbönd? Um samkeppnisákvæði í persónubundnum

ráðningarsamningum“. Úlfljótur, 3. tbl. 2005, bls. 539-550.

Lennart Lynge Andersen: Aftaleloven med kommentarer. 5. útgáfa. Kaupmannahöfn 2008.

Lögfræðiorðabók með skýringum. Ritstj. Páll Sigurðsson. Reykjavík 2008.

Páll Sigurðsson: Samningaréttur. Reykjavík 2004.

Sigurður Líndal: Um lög og lögfræði. Grundvöllur laga – réttarheimildir. 2. útgáfa.

Reykjavík 2010.

Viðar Már Matthíasson: „Um ráðningarsamninga“. Úlfljótur, 4. tbl. 1989, bls. 367-395.

Page 25: Samningar andstæðir lögum Sædís...6 gegn greiðslu í peningum og/eða öðrum verðmætum.“ Einnig má taka fram að ráðningarsamningar eru almennt persónubundnir, þ.e

24

DÓMASKRÁ

Dómar Hæstaréttar Íslands:

Hrd. 1939, bls. 365

Hrd. 1987, bls. 1293

Hrd. 1995, bls. 1646

Hrd. 1998, bls. 1595

Hrd. 2000, bls. 2083 (29/2000)

Hrd. 2001, bls. 4097 (398/2001)

Hrd. 2003, bls. 3542 (124/2003)

Dómar Hæstaréttar Danmerkur:

UfR. 1963, bls. 495

UfR. 1968, bls. 117

UfR. 2015, bls. 1152

Dómar Hæstaréttar Bretlands:

Dómur 1913, bls. 724

Dómur 1916, bls. 688

Dómur 1970, bls. 526

Page 26: Samningar andstæðir lögum Sædís...6 gegn greiðslu í peningum og/eða öðrum verðmætum.“ Einnig má taka fram að ráðningarsamningar eru almennt persónubundnir, þ.e