sÚgandi - sumarblað 2015

40
SUMARBLAÐ 1

Upload: grafisk-hoennun

Post on 22-Jul-2016

256 views

Category:

Documents


0 download

DESCRIPTION

Árlega gefur Súgfirðingafélagið út tvö blöð. Fyrst gefa þau út sumarblað sem kemur venjulega út í byrjun júlí og síðan er gefið út jólablað. Í blöðunum er farið yfir ýmsa viðburði á liðnu ári sem og viðtöl við unga sem aldna Súgfirðinga.

TRANSCRIPT

Page 1: SÚGANDI - Sumarblað 2015

SUMARBLAÐ

1

Page 2: SÚGANDI - Sumarblað 2015

SÚGANDI 2015

2

Page 3: SÚGANDI - Sumarblað 2015

SUMARBLAÐ

3

EFNISYFIRLITBls. 4 Stjórnarspjall

Bls. 5 Hallvarður og hesturinn

Bls. 8 Á SkothólnumHeimir Hávarðsson

Bls. 10 Pub Quiz

Bls. 11 Vísnahornið

Bls. 12 Ættfræðikvöld

Bls. 14 Dagskráin framundan

Bls. 15 Á Skothólnum Sveinbjörn Yngvi Gestsson

Bls. 16 Blómlegt starf Fornminjafélags Súgandafjarðar

Bls. 18 Act Alone 2015

Bls. 19 Á SkothólnumÞröstur Karlsson

Bls. 20 Súgfirðingaskálin 2015

Bls. 22 Dagskrá Sæluhelgarinnar 2015

Bls. 24 Súgfirðingur utan landsteinanna

Bls. 27 Aðalfundur Súgfirðingafélagsins

Bls. 28 Spurningakeppni átthagafélaganna

Bls. 29 Ljóð eftir Guðríði Gyðu Halldórsdóttur

Bls. 30 Súgfirðingagleði

Bls. 34 Súgfirðingur í sviðsljósinu

Bls. 38 Golfmót Súgfirðingafélagsins

Útgefandi:Súgfirðingafélagið í ReykjavíkVefsíða:www.sugandi.isÁbyrgðarmaður: Elsa EðvarðsdóttirLjósmynd á forsíðu: Ingrid KuhlmanSkothóllinn – umsjón: Ellert GuðmundssonPrófarkalesari: Ingrid Kuhlman

Stjórn Súgfirðingafélagsins skipa:Formaður: Eyþór EðvarðssonGSM: 892 [email protected]

Varaformaður: Elsa EðvarðsdóttirGSM: 868 [email protected]

Gjaldkeri:Björk BirkisdóttirGSM: 852 [email protected]

Ritari:Steinunn MarGSM: 697 [email protected]

Meðstjórnendur:Kristján PálssonGSM: 859 [email protected]

Pálína Björg SnorradóttirGSM: 840 [email protected]

Elín BragadóttirGSM: 662 [email protected]

Umbrot:Grétar Örn Eiríksson - grafiskhonnun.is

Prentun: Prentmiðlun ehf

Page 4: SÚGANDI - Sumarblað 2015

SÚGANDI 2015

4

Félagsstarfið síðasta vetur var blómlegt en það er í höndunum á góðu fólki sem tryggir að allt gangi vel sbr. Súgfirðingaskálin í briddsinu, Kirkjukaffið, blaðaútgáfan og Pub Quiz. Góð mæting var á fyrirlestur Arnbjörns Jóhannessonar um súgfirskar ættir í lok apríl. Við héldum sveitaball á Hótel Sögu undir nafninu “Alltaf fór ég vestur” ásamt vinum okkar Önfirðingum og Dýrfirðingum. Súgfirðingar létu ekki sitt eftir liggja og fjölmenntu.

Framundan eru góðir tímar hjá Súg-firðingafélaginu. Við erum skuldlaust félag og getum nú einhent okkur í að verja peningunum í að styrkja innviðina í félaginu enn frekar og huga að endurbótum og viðhaldi á okkar fallegu íbúð á Suðureyri.

Núna í haust verður farin vinnuferð í Súgfirðingasetrið. Ætlunin er að breyta eld-húsinu í herbergi og gera hluta stofunnar að eldhúsi. Þannig viljum við opna sameiginina meira og gera samverustundirnar í íbúðinni enn skemmtilegri. Með þessum hætti verður hægt að elda, borða, horfa á sjónvarp og spjalla í stofunni. Þvottavél verður sett upp í íbúðinni og tæki endurnýjuð. Unnið verður í viðhaldi á íbúðinni í sumar og m.a. gert við sprungur við svalir sem valda því að vatn lekur inn í íbúð á neðri hæð. Einnig er leki inn í kjallara frá útidyratröppunum sem þarf að laga.

Umgengni um íbúðina hefur verið ágæt en því er ekki að neita að stundum hefur vantað aðeins uppá. En meirihlutinn stendur algjörlega við sitt. Ekki er hægt að fela það ef ekki er

þrifið eftir heimsókn í setrið því næsti aðili lætur vita af því ef ekki hefur verið vel gengið frá. Rætt hefur verið um það í stjórninni að finna aðila á Suðureyri sem gæti haft yfirumsjón með ástandi íbúðarinnar. Oft eru einföld atriði flókin í framkvæmd því enginn er á staðnum. Dæmi um það er að skipta um perur, tékka á slökkvitækinu, skipta um rafhlöður eða loka gluggum.

Frá og með haustinu verður hægt að bóka íbúðina með því að greiða rafrænt í gegnum heimasíðuna www.sugandi.is. Þar er einnig hægt að sjá hvaða helgar eru lausar. Sá fyrirvari er settur við greiðslunni að kennitala skráðs félagsmanns verður að fylgja með en það er gert til að tryggja að engir aðrir en félagsmenn séu að bóka íbúðina. Enda gilda strangar reglur um hótelrekstur og við erum ekki í þannig rekstri. Við eigum hinsvegar ánægjulegt samstarf við ferðaþjónustuaðila á Suðureyri.

Framundan er grill í Súgfirðingalundinum ef veður og hentugur dagur fara saman. Næsta vetur verður blómlegt starf og til viðbótar við fasta liði eins og Súganda blaðið okkar, bridds og kirkjukaffið verður hugað að súgfirskri sögu og menningu og m.a. sögð saga nokkurra súgfirskra kvenna. Meira um það síðar.

Sumarið er tíminn og eins og einhver sagði, „smá rigning hefur aldrei neinn skaðað“.

Eyþór Eðvarðsson Formaður Súgfirðingafélagsins

Stjórnarspjall

Page 5: SÚGANDI - Sumarblað 2015

SUMARBLAÐ

5

Hallvarður Súgandi setti upp leikverkið Hr. Kolbert, eftir Þjóðverjann David Gieselmann, síðastliðinn vetur.

Æfingar fóru fram í Bjarnaborg til að byrja með því Góukarlar voru með æfingar í Félagsheimili- nu. Þegar þeim var lokið færðum við okkur yfir í hús andanna. Ég leyfi mér að segja þetta í léttu gríni. Húsið hefur nefnilega að geyma marga anda. Jólaanda, vínanda, skemmtianda og sorgaranda. Félagsheimilið skipar stóran sess í lífi okkar og getum við verið þakklát fyrir stofnun Hollvinasamtaka Félagsheimilis Súgfirðinga. Ég held að án þeirra væri húsið ekki til.

Á æfingartímabilinu sem voru sex vikur var margt um alls kyns viðburði. Það var Sólarkaffi kvenfélagsins Ársólar, starfsmanna- partý Íslandssögu, fjölskyldubingó Ársólar, árshátíðarsýning grunnskólans, auk þess sem bæjarbúar komu saman í erfidrykkju eftir að kjarna- konan Unnur Kristjánsdóttir var borin til grafar.

Eins og sjá má á þessari upptalningu er hlutverk félagsheimilisins mjög mikilvægt í samfélagi eins og okkar.

Leikfélagið bauð þetta árið upp á kolsvartan og drepfyndinn gamanleik með blóðslettum ætluðum fullorðnum. Við settum 16 ára aldurs- takmark. Það var alveg tilvalið að detta í einn kaldan af barnum og hlæja hressilega með full-um sal af fólki.

Síðastliðin ár hafa leikfélagar reynt eftir bestu getu að gleyma ekki að fóðra hestinn sem er undir sviðinu. Sögur segja (sumir vilja kannast við þetta og aðrir ekki) að áður fyrr hafi verið hesthús eða eitthvað álíka þar sem félags- heimilið stendur núna. Eitt skipti var maður að flá húð af dauðum hesti sínum en hann var víst ekki alveg dauður og brokkaði í burtu með feld-inn hangandi utan á sér. Hann á að hafa gengið aftur. Ýmis hljóð heyrast í húsinu, t.d. brak í þaki og brokkið í hestinum. Margir hafa heyrt og

HALLVARÐUR OGHESTURINN

Leikhópurinn í Hr.Kolbert.María Dögg Þrastardóttir, Jóhann Daníelsson, Magnús Traustason, Ástrós Þóra Valsdóttir og Bergrós Eva Valsdóttir.

Page 6: SÚGANDI - Sumarblað 2015

SÚGANDI 2015

6

fundið fyrir nærveru hans, sumir finna kalt vatn renna milli skins og hörunds á meðan öðrum finnst þetta bara notalegt. Greyið hesturinn sem fékk þennan slæma dauðdaga fær að lifa með okkur í húsinu og upplifa ýmislegt sem aðrir hestar gera ALDREI. Það skiptir miklu máli að gefa honum að éta. Það gerðist eitt sinn þegar við settum upp Galdrakarlinn í OZ að við gleymdum að gefa hestinum í nokkrar vikur, vorum að æfa í íþróttahúsinu og hann bara gleymdist.

Við fórum að átta okkur á því þegar fleiri og fleiri úr leikarahópnum voru að lenda í óhöppum af ýmsu tagi á þessu tímabili. Mig minnir að um 18 manns af 30 manna hópi voru ýmist með sýkingu á hné eða munni, brákaða ökla og bara endalaus meiðsli. Við gleymdum hestinum! Við fluttum steininn sem við settum matinn hans alltaf á inn í íþróttahús og viti menn og konur! Allt fór að ganga slysalaust fyrir. Þetta var farið að likjast ónefndu Shakespeare verki sem ég nefni ekki upphátt.

Mér hefur alltaf fundist aðdáunarvert að fylgjast

með æfingum áhugamannahóps. Fólkið vinnur fullan vinnudag og mætir síðan á æfingar á kvöldin til í slaginn. Fólk frá hinum og þessum starfsstéttum hittist og fíflast og gleymir sér saman í gleðinni. Svo kemur að frumsýningu, spennan fer að kikka inn og stress í flestum. Afrakstur mikilla æfinga er að fara að skila sér. Fólk flykkist frá fjörðunum í kring til að sjá.

Á frumsýningu fæ ég tilfinningu sem er góð. Ég verð að viðurkenna að þegar ég hef komið að sýningum sem framkvæmdastjóri og nú sem

formaður fyllist ég stolti. Stolti af verkefninu, þetta gátum við. Stolti af leikurunum sem gáfu allt sitt í verkefnið. Stolt af menningarsjóðnum sem við eigum og verðum að varðveita.

Kveðja, stoltur formaður Leikfélagsins Hallvarðs Súganda

Kolbrún Elma Schmidt

Frumsýningarkvöld.

Kolbrún skutlar Hr.Kolbert í búningamátun.

Page 7: SÚGANDI - Sumarblað 2015

SUMARBLAÐ

7

Page 8: SÚGANDI - Sumarblað 2015

SÚGANDI 2015

8

Hverra manna ertu ?Ég er fæddur í Vestmannaeyjum 3. júní 1954. Móðir mín var Fanney Guðmundsdóttir frá Súgandafirði en faðir minn hét Hávarður Ásbjörnsson frá Vestmannaeyjum. Móðir mín flutti með mig til Súgandafjarðar um tveggja ára aldur þar sem ég ólst upp ásamt fjórum bræðrum mínum. Uppeldisfaðir minn var Friðjón Guðmundsson frá Súgandafirði og leit ég á hann ávallt sem minn föður.

Fjölskylduhagir?Ég stofnaði ungur fjölskyldu eða rúmlega tvítugur og eignaðist dásamlega eiginkonu og með henni tvö yndisleg börn sem eru uppkomin með sínar eigin fjölskyldur. Við skildum fyrir um tíu árum. Ég hef verið í sambúð sem slitnaði uppúr fyrir um fjórum árum. Staðan er þannig núna að ég á vinkonu erlendis og vonandi þróast það samband í eitthvað meira því ég kann illa við mig einn.

Starf?Ég hef alla tíð starfað við eitthvað sem tengist fiski og fiskvinnslu. Ég er lærður útgerðartæknir frá Tækniskóla Íslands og markaðsfræðingur frá Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands. Ég rek mína eigin fiskvinnslu í Sandgerði og svo er ég í veitingarekstri í Reykjanesbæ. Hvar býrðu?Síðustu tíu ár hef ég búið í Reykjanesbæ. Áhugamál?Ég hef stundað skíði með hléum frá því ég var þriggja til fjögurra ára. Fyrstu skíðin voru gerð úr tunnustöfum sem frændi minn Guðni Guðmundsson gerði og ýtti hann mér af stað í fyrstu brekkunni. Undanfarin fimm ár hef ég ekkert stundað skíðin en keypti mér nýjar græjur í vor. Ég reyni að stunda líkamsrækt þrisvar til fjórum sinnum í viku, göngur og TRX. Siðan er ég mikill fótboltaáhugamaður og fylgist vel með

enska boltanum. Ég fer stundum á leiki erlendis. Mitt félag er Liverpool. Fallegustu staðirnir í Súgandafirði?Þar er af ýmsu að taka: stóra vatnið í Vatnadal er heillandi fagurt, og Spillirinn og Hádegishornið eru tignarlegir og fallegir staðir. Þá vil ég minnast á bæjarstæði í Vatnadal þar sem langamma mín bjó og frændi minn Guðni Guðmundsson ólst upp. Bærinn hét Hraunprýði og gekk undir nafninu Hraunakot í daglegu tali.

Hvenær fórstu síðast á Suðureyri? Síðast kom ég til Suðureyrar fyrir tveimur árum.

Uppáhaldsstaðurinn?Uppáhaldsstaðurinn er eyrin, skollasandur og ósinn.

Uppáhaldsmaturinn? Uppáhaldsmaturinn er tvímælalaust aðalblá-berin úr Súgandafirði og lambakjöt. En sá matur sem ég hef haft hvað mest fyrir að útbúa og hlýtur því að teljast í uppáhaldi er skatan, ýmist elduð úti í bílskúr eða úti á verönd. Meira að segja hef ég tvisvar sinnum tekið hana með mér til Orlando og eldað hana á gasgrilli utandyra en snarhætti því þegar granni kom eitt sinn í heimsókn til að óska okkur gleðilegra jóla og bauðst til að hjálpa mér að kæra matvörubúðina sem seldi mér úldinn kalkúnn. Þá rétt slapp ég fyrir horn og reyndi þetta ekki aftur.

Uppáhaldstónlist?Country Western og Ýr.

Uppáhalds leikari/leikkona?Jón Kitt og Bessi Bjarna

Viltu deila með okkur einni góðri minningu frá Suðureyri?Við félagarnir vorum miklir prakkarar og kennt um ýmislegt sem fór úrskeiðis. Sumt var

Heimir Hávarðsson

Page 9: SÚGANDI - Sumarblað 2015

SUMARBLAÐ

9

rétt en flest var ýkt og ósatt, en þó kom upp leiðindamál sem endaði þó vel. Þannig var að ég átti forlátan loftriffil. Við nutum þess að skjóta úr honum í mark og hann var ekki ætlaður til annars. Einn daginn vorum við að munda riffilinn og þá gengur mikilsmetin hefðarkona upp Hjallaveginn. Miðið var sett á hana og vegna einhverra óskiljanlegra hluta var hleypt af skoti, sem endaði með því að blýkúla skaust í aðra löppina á greyið konunni og festist í nælonsokkunum. Svo ég fari hratt yfir sögu þá endaði þetta ævintýri með því að æðsta vald staðarins Sturla Jónsson mætti á staðinn með hreppstjórahúfuna í plastpoka undir hendinni. Hann útbjó skýrslu, gerði byssuna upptæka og fór fram á að við púkarnir bæðum viðkomandi afsökunar, sem og við gerðum.

Wise lausnir ehf.Borgartún 26, 105 Reykjavík » Hafnarstræti 93-95, 600 Akureyrisími: 545 3200 » [email protected] » www.wise.is

- snjallar lausnir

545 3200 navaskrift.is [email protected]

Fullbúin viðskiptalausn í áskrift- Microsoft Dynamics NAV

Gold Enterprise Resource PlanningSilver Independent Software Vendor (ISV)

TM

NAV í áskrift

Verð frá kr.

pr. mán. án vsk11.900-

Mánaðarlegt gjald veitir aðgang að einu mest selda bókhaldskerfi landsins ásamt kostnaði við uppfærslu- og þjónustugjöld, hýsingu, afritun á gögnum, öryggisvarnir og SQL gagnagrunn.

Breytilegur �öldi notenda eftir mánuðum sem lágmarkar kostnað.

Kerfinu fylgir rafræn sending reikninga, samskipti við RSK og margt fleira.

Fjöldi sérlausna í boði fyrir þá sem þurfa aukna virkni.

Page 10: SÚGANDI - Sumarblað 2015

SÚGANDI 2015

10

Pub Quiz var haldið á Catalínu í Kópavogi þann 15. janúar síðastliðinn. Góð mæting var og voru alls fjögur lið sem kepptu og svöruðu 40 spurningum. Liðið Norðureyri fór með sigur af hólmi með 32 1/2 stig. Í öðru sæti voru Vit- ringarnir. Liðið Erla hafnaði í þriðja sæti og 66° suður í því fjórða.

Spurningakeppninni stjórnaði Atli Þór Þorvaldsson.

2015

Myn

dir -

Ingr

id K

uhlm

an

Page 11: SÚGANDI - Sumarblað 2015

SUMARBLAÐ

11

VísnahorniðSÚGANDAFJÖRÐUR

Hér nam Hallvarður Súgandi landfyrir meira en ellefu hundrað árum.

Leikir barnaurðu spegilmyndaf lífifullorðna fólksins.

Á góðum dögumvar smáfiskurveiddur á færivið bryggjurnar.

Kúskeljarvoru tíndar í fjörunnisíðan farið í „kappa“og sterkasta skelinvann.

Bláskel og gimburskelurðu hluti af búsmalaásamt sauðarleggjumog kindakjálkum.

Síðla sumars blánuðu brekkuraf berjum þá brostu allirberjabrosi.

Veturinn kommeð skammdegiog ómældan snjóog skíðabrekkurnarlifnuðu við.

Fyrsta sunnudag í Góuskein sólin á þorpiðeftir fimm mánaðafjarveru.

Þá færðist fjörí barnaleikinaog hlaupið var milli kennileita.

ÁTTHAGAÁST

Í firðinum mínum fagurt erþar fjöll og dalir skínasenn fara nú að blána ber sem börnin mega tína.

Guðrún G. Jónsdóttir ( Edda )

Ég skora á vin minn Birki Friðbertsson í Birkihlíð að koma með næsta ljóð.

Guðrún G. Jónsdóttir (Edda) er fædd 1923 á Suðureyri í Súgandafirði. Hún settist að í Reykjavík árið 1945 þegar hún gekk í hjónaband með Ásvaldi Stefánssyni, málara- meistara. Þau fluttu síðan í Kópavog 1998. Í Kópavogi fengu þau að njóta félagsstarfs eldri borgara, hann í myndlistinni en hún í ljóðagerð undir leiðsögn Þórðar Helgasonar.

Guðrún G. Jónsdóttir

®

Page 12: SÚGANDI - Sumarblað 2015

SÚGANDI 2015

12

Þann 30. apríl síðastliðinn hélt Arnbjörn Jóhannesson fróðlegan fyrirlestur um súgfirskar ættir á Catalínu í Kópavogi. Um 50 manns mættu og rifjuðu upp góðar minningar úr firðinum fagra. Fjallað var um sögu fjarðarins, m.a. upphaf þorpsins og verslunar þar, ásamt ættartengslum Súgfirðinga. Ljóst er að Súgfirðingar eru af góðu fólki komnir.

Page 13: SÚGANDI - Sumarblað 2015

SUMARBLAÐ

13

Myn

dir -

Els

a Eð

varð

sdót

tir

Page 14: SÚGANDI - Sumarblað 2015

SÚGANDI 2015

14

Page 15: SÚGANDI - Sumarblað 2015

SUMARBLAÐ

15

Hverra manna ertu?Ég er sonur Gests Kristinssonar og Sólveigar Huldu Kristjánsdóttur. Systkini mín eru Þuríður Kristín Heiðarsdóttir, Kristinn Gestsson, Óðinn Gestsson, Gunnhildur Gestsdóttir og Jón Arnar Gestsson.

Fjölskylduhagir?Ég er í sambúð með Borghildi Kristínu Magnús-dóttur.

Starf?Eftir meistaranám í sálfræði fór ég að vinna sem próffræðingur hjá Námsmatsstofnun. Hvar býrðu?Ég bý í Kópavogi.

Áhugamál?Margt, hef áhuga á öllu sem tengist tölvum og tækni. Bæði tónlist og kvikmyndir heilla mig. Einnig hef ég gaman af því að ferðast.

Fallegustu staðirnir í Súgandafirði?Spillirinn er mjög fallegur og þá sérstaklega uppi á toppi. Einnig er gamla skriðan utan við Skothólinn mjög falleg. Ég bjó á Hlíðarveginum og var Skothóllinn beint fyrir ofan húsið okkar. Á Skothólnum er yndislegt að sitja og horfa yfir bæinn.

Hvenær fórstu síðast á Suðureyri? Það var í fyrra eða 2014.

Uppáhaldsstaðurinn?Allur bærinn var leikvöllur hjá okkur í gamla daga og man ég sérstaklega eftir verksmiðjunni, gamla Ísver, og rústunum af gamla frystihúsinu. Þetta var ævintýraheimur fyrir litla prakkara.

Uppáhaldsmaturinn? Steikt ýsa með kartöflum. Það er eitthvað sem ég fæ ekki leið á.

Uppáhaldstónlist?Í dag hlusta ég mikið á raftónlist en einnig rokk.

Uppáhalds leikari/leikkona?Pétur Jóhann Sigfússon/Ágústa Eva Erlends-dóttir.

Viltu deila með okkur einni góðri minningu frá Suðureyri?Mér eru alltaf minnisstæðar rauðmagaveiðarnar sem ég stundaði með pabba heitnum. Hann var löngu hættur sem skipstjóri þegar ég var lítill og dundaði sér við að draga rauðmaganet á bátnum Rauðku. Ég fór oft með honum og má segja að það hafi verið mín fyrsta sjómennska þar sem ég fékk að draga netin með honum og leggja þau aftur. Það sem er mér minnisstæðast úr þessum ferðum var að pabbi notaði svo til aldrei sjóvettlinga og dró netin berhentur. Þessar rauðmagaveiðar standa uppúr í þeim aragrúa góðra minninga sem ég á frá æsku- árunum.

Sveinbjörn Yngvi Gestsson

Minnum félagsmenn á að fallegt er í Súgandafirði á veturna og gott að gista í

Súgfirðingasetrinu. www.sugandi.is

Sumarverð 36.000 krVetrarverð 29.000 kr

Helgarverð á vetrartíma 20.000 kr 40.000 kr Sæluhelgin

Afsláttur til öryrkja og eldri borgara 20 prósent af vetrarverði á vetrartíma.

Page 16: SÚGANDI - Sumarblað 2015

SÚGANDI 2015

16

Blómlegt starf Fornminjafélags SúgandafjarðarGróska hefur verið í starfi Fornminjafélags Súgandafjarðar. Skipulag starfsins er í fjórum hópum sem eru: Fornmunahópur, Forn-leifahópur, Örnefnahópur og Söguhópur. Hóparnir vinna allir að ákveðnum markmiðum og merkilegt starf hefur verið unnið. Á síðasta ári hélt Minjastofnun í samstarfi við Náttúrustofu Vestfjarða námskeið fyrir Forn-minjafélag Súgandafjarðar um skráningu fornleifa fyrir áhugafólk. Þátttaka var góð og námskeiðið í alla staði áhugavert og gagnlegt.Fornleifahópurinn, sem Egill Ibsen fer fyrir, hóf kortlagningu Súgandafjarðar í Staðardalnum og bæði ljósmyndaði og skráði GPS-hnit þeirra minja sem eru á svæðinu frá Keravík og upp að Sunndal. Fjölmargar tóftir urðu sjáanlegar þegar flygildið flaug yfir og ljósmyndaði. En loft-myndir virðast vera áhrifaríkastar til að greina þær minjar sem eru illsjáanlegar frá jörðu niðri. Svæðið fyrir ofan Stað reyndist áhugavert og svokallaður „Vandræðakotsreitur“ reyndist búa yfir fleiri tóftum en upphaflega var talið. Erla Eðvarðsdóttir og Anna Bjarnadóttir voru með Agli síðasta sumar við að skrásetja. Kjartan Ólafsson lagði einnig hönd á plóg, enda með afbrigðum fróður og minnugur. Framundan er að halda áfram inn í Vatnadalinn en þar leynast margar tóftir sem áhugavert verður að skoða. Einnig er stefnan tekin á Sauðanesið en nokkuð er af mannvirkjum þar. Minjahópurinn, sem Erla Eðvarðsdóttir stýrir í góðu samstarfi við Önnu Bjarnadóttur, hefur tekið ljósmyndir af gömlum munum sem tengjast Súgandafirði og segja sögu hans. Má þar nefna ljósmyndir af munum í Barnaskólanum á Suðureyri og á bókasafninu, gamlan brauðhníf, og leirker frá tímum hollenskra sjómanna við strendur íslands. Rætt hefur verið um að fá Þjóðminjasafnið til að koma og kynna fyrir áhugasömum sögu gamalla gripa. En starfs-menn safnsins eru fróðir um marga hluti. Örnefnahópurinn, sem Birkir Friðbertsson hefur farið fyrir, hefur unnið að því að staðsetja öll örnefni í firðinum inn á kort. Birkir, sem er manna fróðastur um örnefni fjarðarins, hefur ekki setið auðum höndum enda gríðarlega umfangsmikið verkefni og örnefnin nokkur þúsund talsins.

Birkir hefur skráð örnefnin inn á ljósmyndir sem síðar verða skráð inn í rafrænan gagna-grunn sem verður aðgengilegur öllum. Björn Birkisson, Sæmundur Þórðarson og Valdimar Hreiðarsson hafa aðstoðað Birki í þessu og m.a. útvegað ljósmyndir til að merkja inná.Söguhópurinn, sem Eyþór Eðvarðsson fer fyrir, hefur farið víða og m.a. unnið að heimildamynd-böndum um fornleifar á Vestfjörðum. Búinn var

Page 17: SÚGANDI - Sumarblað 2015

SUMARBLAÐ

17

til þáttur um fornleifauppgröftinn á Grélutóft-um við Hrafnseyri sem eru taldar vera með elstu fornleifum á Vestfjörðum. Einnig var sagt frá fornleifauppgreftrinum sem er yfirstand- andi á Hrafnseyri en þar hafa áhugaverðar niðurstöður komið fram um viðamikla járn-vinnslu á miðöldum. Einnig voru búin til mynd-bönd um fornleifarannsóknir á Gufuskálum og á Siglunesi en þar voru í fyrndinni stórar verstöðvar.

Fornleifafélag Súgfirðinga stóð í samstarfi við Minjastofnun Íslands og fleiri aðila fyrir vel sóttri ráðstefnu um strandminjar í mikilli hættu. Á ráðstefnunni var farið yfir stöðu strandminja en staðreyndin er því miður sú að mikill hluti útvegsminja Íslend-inga er að hverfa í brimið og við erum ekki að gera mikið til að bjarga þeim. Ástandið er mjög slæmt á nokkrum stöðum á landinu og heilt yfir þá eru allar stóru verstöðvar okkar Vest-firðinga í mikilli hættu. Fyrir utan áframhaldandi starf í hópunum er í sumar skipulögð ferð á Hrafnseyri til að fylgjast með og fræðast um fornleifa- uppgröft hjá Margréti Hrönn Hallmundsdóttur en hún hefur stjórnað uppgreftri þar í nokkur sumur. Einnig að heimsækja

þá staði á Vestfjörðum sem eru í mikilli hættu vegna sjávarrofs, m.a. Kálfeyri í Önundarfirði, Fjallaskaga í Dýrafirði, og Kollsvíkina í Arnar-firði. Ennfremur að vinna í að mynda frásagnir um áhugaverðar tóftir í Súgandafirði. Allir eru velkomnir í félagið. Við erum með fésbókarsíðu sem finnst undir Fornminjafélag Súgandafjarðar.

Eyþór Eðvarðsson

Page 18: SÚGANDI - Sumarblað 2015

SÚGANDI 2015

18

Einleikjahátíðin Act alone verður haldin á Suður- eyri dagana 5.-8. ágúst. Boðið verður uppá einstaka dagskrá fyrir alla aldurshópa og rúsínan í pysluenda-num er að það er frítt á hátíðina. Já, frítt á alla þá 21 viðburði sem verður í boði á Act alone 2015.

Act alone var fyrst haldin árið 2004 á Ísafirði en árið 2012 flutti hátíðin búferlum til Suðureyrar. Óhætt er að segja að Act alone hafi tekið margfalt hástökk við þann flutning. Bæði hefur dagskráin margfaldast, þó einstök sé, sem og aðsókn en í fyrra sóttu um 3000 manns hátíðina þökk sé bakhjarli hátíðarinnar, Fish-erman á Suðureyri, sem og íbúum sem hafa tekið hátíðinni opnum örmum.

Á Act alone 2015 verður boðið uppá allt það bes-ta af einleikjaárinu. Allir aldurshópar geta skemmt sér saman þessa einstöku helgi í ágúst. Enda er Act alone fjölskylduhátíð og vissulega er fjölskyldan stór. Boðið verður uppá leiksýningar, tónleika, dans, gjörn-ing og svo ótalmargt fleira einleikið. Eina reglan er að aðeins einn listamaður kemur fram í hverjum viðburði. Það er Act alone.

Meðal þess sem boðið verður uppá á Act alone 2015 má nefna vinsælasta einleik ársins sjálfan Kenneth Mána. Leikkonan ástsæla Edda Björgvins býður uppá leikinn Húmor er dauðans alvara, Karl Örvarsson eftir- herma bregður sér í ótal gerfi, Þórarinn Eldjárn les úr verkum sínum og tónlistarmennirnir Lára Rúnars og KK verða með einstaka tónleika. Að vanda verður boðið uppá veglega dagskrá fyrir börn. Ævar vísindamaður verður með vísindanámskeið og Ísgerður Gunnars-dóttir verður með leik og söngskemmtun. Margt fleira einleikið og einstakt verður í boði á Act alone 2015 má þar nefna gjörninginn Hertu þig upp sem mun fara fram í einum af hinum fjölmörgu harðfiskhjöllum sjávarþorpsins. Nánari upplýsingar um Act alone og dagskrá ársins má nálgast á heimsíðu hátíðarinnar www.actalone.net

Eitt er víst. Nú veistu lesandi góður hvar er gott að vera dagana 5.-8. ágúst. Sjáumst á Act alone á Suðureyri.

Act alone

Page 19: SÚGANDI - Sumarblað 2015

SUMARBLAÐ

19

Hverra manna ertu? Sonur hjónanna Karls Guðmundssonar og Ingibjargar Jónsdóttur frá Bæ.

Fjölskylduhagir?Ég er giftur Ingibjörgu Önnu Elíasdóttur. Sam-tals eigum við fjóra dætur.

Starf?Vélstjóri á Tómas Þorvaldsson GK 10 sem Þorbjörn í Grindavík gerir út. Hvar býrðu?Brekkubraut 22, Akranes.

Áhugamál? Ferðalög innanlands og fjölskyldan. Fallegustu staðirnir í Súgandafirði?Verð að segja gamla sveitin mín Bær í Súganda- firði, sem er búið að selja til ungra hjóna, og Spillirinn, sem getur verið mjög fallegur á sum-rin en jafnframt hrikalegur á veturna.

Hvenær fórstu síðast á Suðureyri?Ég fór síðast til Suðureyrar í mars í jarðarför hjá elsku ömmu minni.

Uppáhaldsstaðurinn? Sveitin mín gamla og Djúpavík sem konan mín er ættuð frá.

Uppáhaldsmaturinn? Kjötbollurnar hennar mömmu.

Uppáhaldstónlist? Ég er alæta á tónlist. Núna í augnablikinu er það Of Monsters and men.

Uppáhalds leikari/leikkona? Siggi Sigurjóns.

Viltu deila með okkur einni góðri minningu frá Suðureyri?Þær eru nokkrar: Í minningunni finnst mér öll grunnskólagangan hafa verið góð, sérstak- lega þegar maður fór úr sveitinni í stórborg- ina Suðureyri. Við systkinin fórum oftast á sunnudagkvöldum til ættingja á Suðureyri til að stunda skólann á veturna því það gat oft verið skrautlegt að komast á milli (fyrir Spilli). Á veturna fórum síðan heim á föstudögum. Í minningunni var miklu meiri snjór þá. Það snjóaði meira og góðar stillur voru á milli. Fjörurnar voru ekki mokaðar. Gaui á ýtunni jafnaði bara ofaná og þá var hægt að fara á dráttarvélinni.

Þröstur Karlsson

Page 20: SÚGANDI - Sumarblað 2015

SÚGANDI 2015

20

Súgfirðingar og aðrir velunnarar Súg-firðingafélagsins þreyttu kappiz í allan vetur um Súgfirðingaskálina í bridge. Keppnin var jöfn fram á síðustu lotu enda margir góðir spilarar í þessum hópi og blanda af konum og körlum, ungum og öldnum sem hafa gaman af því að hittast og eiga saman stund við spilaborðið.

Ég vil óska sigurvegurunum þeim Hafliða Baldurssyni og Árna Guðbjörnssyni til hamingju með sigurinn sem var verð-skuldaður. Ég vil einnig þakka öllum spilurunum fyrir þátttökuna og skemmtileg kvöld. Einnig þakka ég spilastjóranum honum Sigurpáli

Spilaðar voru sjö lotur í vetur þar sem allir spiluðu sömu gjafirnar. Sex lotur hámark teljast með í hámarksstigaskori vetrarins og má því sleppa lélegasta kvöldinu ef spilaðar eru allar sjö loturnar.

Sextán pör hófu keppni um Súgfirðinga-skálina 2015 og var röð keppenda eftir veturinn eftirfarandi í réttri röð með stigaskori:

fyrir röggsama stjórnun. Súgfirðingaskálin 2016 verður svo á sínum

stað næsta vetur og verður spilað eftirtalda daga:

28. september, 26. október, 30. nóvember, 25. janúar, 29. febrúar, 14. mars og 25. apríl.

Hafliði Baldursson - Árni Guðbjörnsson ...............................Karl Bjarnason - Ólafur Ólafsson .......................................... Flemming Jessen - Kristján H. Björnsson ............................. Kristján Pálsson - Ólafur Karvel Pálsson .............................. Rafn Haraldsson - Jón Sveinsson ........................................Sturla Gunnar Eðvarðsson - Björn Guðbjörnsson ..................Friðgerður Friðgeirs - Kristín Guðbjörnsdóttir ....................... Gróa Guðnadóttir - Alda S. Guðnadóttir .............................Finnbogi Finnbogason - Magnús Jónsson ..............................Sigurður G. Ólafsson - Ásgeir Ingvi Jónsson ......................... Sveinbjörn Jónsson - Sigurður Ólafsson .............................Eðvarð Sturluson - Mortan Hólm ..........................................Steinþór Benediktsson - Birgir Benediktsson ........................ Hnikarr Antonsson - Guðmundur Símonarson ....................... Ásgeir Sölvason - Sölvi Ásgeirsson ......................................Sigurjón Guðröðarson - Þórólfur Friðgeirsson ......................

1076 stig1050 stig1049 stig1010 stig1010 stig1001 stig965 stig952 stig909 stig901 stig887 stig 872 stig859 stig599 stig409 stig144 stig

Page 21: SÚGANDI - Sumarblað 2015

SUMARBLAÐ

21

Spilamennskan hefst því 28. september n.k kl. 18:00 og verður spilað á sama stað í sal Bridgefélags Reykjavíkur að Síðumúla 37 á þriðju hæð. Ég vonast eftir góðri mætingu að venju og ekki væri verra að fá fleiri unga spilara í hópinn.

Nokkrar myndir af hópnum og sigurvegurunum í fyrsta til þriðja sæti 2015 fylgja hér með.

F. h. stjórnar Súgfirðingafélagsins,Kristján Pálsson

Myn

dir -

Kris

tján

Páls

son

Page 22: SÚGANDI - Sumarblað 2015

SÚGANDI 2015

22

Dagskrá Sæluhelgarinnar á Suðureyri - 2015Litaþema Sæluhelgarinnar í ár er Mansaliturinn appelsínugult

Föstudagurinn 10. júlí

10:00 - Hoppukastalar blásnir upp.

15:30 - 17:00 - Þorpsganga og matarferð í boði Fisherman. Þar er öllumgestum boðið í kynnisferð um eyrina þar sem saga þorpsins og húsa er

rakin undir leiðsögn (skráning í síma 450 9000).

18:00 - 22:30 - Fjölskylduhátíð í Bryggjukoti. Hátíðarsetning, kynning áSæluhelgarlaginu Þjóðvegur 65, sameiginlegt grill, viðurkenning fyrir

Sæluhelgarlagið og fyrir frumlegasta appelsínugula búninginn, barnadiskómeð mömmu, pabba, afa, ömmu frænku og frænda.

Stulli puð sér um fjörið.

23:30 - 03:00 - Stórdansleikur í FSÚ. Rokksveit Jonna Ólafs sér um aðhalda uppi rífandi stemmningu fram undir ársól.

Laugardagurinn 11. júlí

10:00 Hoppukastalar blásnir upp.

11:30 – 13:00 - Skráning/æfing fyrir söngvarakeppnina í Íslandssögu, semverður með sama sniði og í fyrra, þar sem söngvarar koma með sinn eiginundirleik hvort sem er lifandi eða af diski. Albert skráir í síma 892 8683.

12:00 - 18:00 - Sæluhátíð á Freyjuvöllum og Bryggjukoti, m.a. markaðstorg,kaffisala Ársólar, pylsusala Stefnis, matarkynning annarra landa, Vestfjarðaglíma, minningarmót Guðna kóngabana, andlitsmálun, gjarðarskopp, sleggjukast, húsmæðrafótboltinn og verðlaunaafhending

(básapantanir í sms 861 7061).

Hittumst á Sælu! Mansavinir

Til að geta haldið Sæluhelgina sem veglegasta verða seld armbönd í Sparisjóðnum, Kaupfélaginu og versluninni Súganda sem gilda á alla viðburði helgarinnar - kr. 1000 fyrir 12 ára og yngri og kr. 3000 fyrir 13 ára og eldri (mælum með að armböndin fyrir börnin séu merkt viðkomandi).

Page 23: SÚGANDI - Sumarblað 2015

SUMARBLAÐ

23

Dagskrá Sæluhelgarinnar á Suðureyri - 2015Litaþema Sæluhelgarinnar í ár er Mansaliturinn appelsínugult

17:00 - 17:40 - Mansakeppnin fyrir 12 ára og yngri.

17:40 - 20:00 - Söngvarakeppnin og verðlaunaafhending.

20:00 - 22:00 - Stund milli stríða.

22:00 - 01:00 - Óvissu- og ævintýraferð fyrir unglinga 13 til 17 ára.

23:00 - 03:00 - Diskó, karaoke og stuð með Stulla puð í FSÚ.

Sunnudagurinn 12. júlí

10:00 - Hoppukastalar blásnir upp.

10:00 - 12:00 - Fjósið í Botni er opið fyrir hátíðargesti. Boðið er uppákaffi og hjónabandssælu. Söluborð verður á staðnum og eitt er víst að

það er alltaf fjör hjá Helgu.

12:00 - 14:00 - Skötuveisla með vestfirsku ívafi til styrktar Hofsú í FSÚ,skammturinn kostar 2000 kr. sem rennur óskiptur til Hofsú

(pantanir í síma 866 4738).

12:30 - Skothólsganga barna með Lilju og Jónu Möggu á meðan mam-ma og pabbi eru að borða skötu. Boðið verður upp á harðfisk og svala.

Mæting á gamla sumarróló með góða skapið og klæðnað eftir veðri.

14:00 - 14: 15 - Sæluslútt með Adda Önd í FSÚ.

Hittumst á Sælu! Mansavinir

Til að geta haldið Sæluhelgina sem veglegasta verða seld armbönd í Sparisjóðnum, Kaupfélaginu og versluninni Súganda sem gilda á alla viðburði helgarinnar - kr. 1000 fyrir 12 ára og yngri og kr. 3000 fyrir 13 ára og eldri (mælum með að armböndin fyrir börnin séu merkt viðkomandi).

Page 24: SÚGANDI - Sumarblað 2015

SÚGANDI 2015

24

Sigrún heiti ég og er dóttir Ágústu Gísladóttur og Magnúsar Sigurðar Jónssonar (Magga Sigga), sonar Jóns Kristjánssonar (Nonna Kitt), hvers afi (Kristján Albertsson) byggði fyrsta timburhúsið á Suðureyri árið 1892 á þeim stað sem kirkjan stendur nú. Húsið fauk í ofsaveðri 32 árum síðar. Nokkrum áratugum síðar fæddist ég síðan í Reykjavíkinni en var komin vestur með pabba og mömmu rétt rúmlega eins árs. Mamma (skvísa úr Hafnarfirðinum) ákvað að fara með pabba vestur og samþykkti að vera þar til ég myndi byrja í sex ára bekk. Þau halda nú, tæpum 40 árum síðar, til á Eyrargötu 5 og tel ég ekki þurfa að hafa um það fleiri orð. Ég flutti burt úr firðinum fagra þegar ég var tuttugogeitthvað ára. Þvældist svolítið á þeim árum svo ég er ekki með dagsetningar á hreinu enda flestum sama um slíkt.

Ég er sumsé stoltur Súgfirðingur, búsettur í Grímsey. Nú spyrð þú þig, kæri lesandi, hvernig í ósköpunum mér datt í hug að flytja til Grímseyjar (einhverjir hafa væntanlega flett yfir þennan pistil minn eða eru hættir að lesa en ég sé ekki ástæðu til að ávarpa þá sérstaklega) og þá sérstaklega þar sem við hvorki tengdumst né þekktum neinn hérna. Og nú verður forvitni þinni svalað því hér kemur sagan af því þegar Sigrún MaggaSigga flutti til Grímseyjar:

Þannig er að fyrir rétt um ári ákvað ég að svara auglýsingu þar sem óskað var eftir grunnskólakennara í Grímsey. Þrátt fyrir að vera búin að búa á Akureyri í sjö ár lágu rætur okkar hjóna nokkuð grunnt. Við stóreignalaus, bæði að útskrifast úr Háskólanum á Akureyri (ég sem kennari og hann sem lögfræðingur) og krakkarnir mínir, þau Ágústa Sóley og Skarphéðinn Ás, á leikskólaaldri. Hugmyndin var alltaf að þetta yrði aðeins tímabundið, við vildum kúpla okkur út úr öllu, núlla okkur og reyna að finna hvað skiptir okkur máli í alvöru, hverjar raunverulegu þarfirnar eru og hverjar eru gervi. Ekki væri verra ef manni tækist svo að safna smá aur (eins og amma Veiga hefði sagt) í leiðinni en það hafði sitt að segja að

starfinu fylgir íbúð í parhúsi og hér getur maður farið allra sinna leiða fótgangandi. Ég sá líka ómetanlegt tækifæri til að kenna krökkum á öllum aldri allskonar námsgreinar og koma mér inn í starfið og námsefnið á þennan hátt.

Að sannfæra fjölskylduna gekk stórátakalaust

fyrir sig. Með Ágústu og Skarphéðin virkar það svolítið þannig að ef Ágústa er kát þá speglar Skarphéðinn það nokkurn veginn. Ef hún er örugg og líður vel þá veit hann að það er ekkert að óttast. Ágústu Sóleyju spurði ég hvernig henni litist á að gerast eyjarskeggi og bætti svo við að í eyjunni væru sko margir margir lundar! Henni fannst þetta æðisleg hugmynd. Pabbi þeirra var meira en til í að taka við stöðu leikskólaleiðbeinanda við leikskólann í eynni í eitt ár svo við sáum ekkert því til fyrirstöðu að leggja í þetta ævintýri og létum því vaða.

Hér í Grímsey búa yfir vetrartímann um 70 manns en fleiri yfir sumartímann. Hér er

Súgfirðingur utan landsteinannaSigrún Magnúsdóttir

Skútuvogi 11 • 104 Reykjavík • 510 8888 • www.las.is • [email protected]

Glerísetningar

Helstu samstarfsaðilar:

sími:51

0 6

6 6

6

Bíllyklar/húslyklar

Smíðum og forritum flestar gerðir bíllykla

og húslykla á meðan beðið er.

Þjónustum öll höfuðlyklakerfi.

Tímapantanir óþarfar

Kæru Súgfirðingar

Page 25: SÚGANDI - Sumarblað 2015

SUMARBLAÐ

25Skútuvogi 11 • 104 Reykjavík • 510 8888 • www.las.is • [email protected]

Glerísetningar

Helstu samstarfsaðilar:

sími:51

0 6

6 6

6

Bíllyklar/húslyklar

Smíðum og forritum flestar gerðir bíllykla

og húslykla á meðan beðið er.

Þjónustum öll höfuðlyklakerfi.

Tímapantanir óþarfar

Kæru Súgfirðingar

Page 26: SÚGANDI - Sumarblað 2015

SÚGANDI 2015

26

verslun og aðlögunarhæfnin er ekki minni en svo að mér fannst strax aðdáunarvert að hún væri opin alla daga vikunnar. Þó hún sé bara opin í klukkutíma á laugardögum og hálftíma á sunnudögum. Þetta sannaði fyrir mér að það að hafa verslun sem opin er allan sólarhringinn í bakgarðinum hjá mér, eins og var á Akureyri, var sannarlega gerviþörf. Hingað siglir ferja frá Dalvík þrjá daga vikunnar og tekur siglingin um þrjár klukkustundir. Yfir vetrartímann er flogið hingað frá Akureyrarflugvelli þrisvar í viku og

alla daga yfir sumartímann. Við erum því langt frá því að vera í algjörri einangrun hérna.

Lífið er ljúft hér í eyjunni. Skólinn er með aðstöðu í félagsheimilinu Múla. Þar eru tvær skólastofur, ein fyrir yngri deild (1.-4. bekk) og önnur fyrir eldri deild (5.-8. bekk). Nemendur í 9. og 10. bekk fara í skóla í landi. Leikskólinn er síðan með aðstöðu í herbergi sem staðsett er milli skólastofanna tveggja. Nemendur í grunnskólanum voru ellefu talsins nú í vetur og fimm krakkar í leikskólanum. Við höfum því gengið nánast alla daga í skólann saman og eytt dögunum undir sama þaki og það hefur verið ómetanlegt að geta verið svona nálægt börnunum mínum.

Margir spyrja hvað í ósköpunum við gerum í frítímanum (sem reyndar er af skornum skammti fyrsta árið í rúmlega fullri kennslu) en við höfum oft sagt fólki að hér sé varla flóarfriður. Hér er starfandi mjög virkt kvenfélag (Baugur) og líka klúbbur Kiwanismanna (Grímur) og höfum við verið þátttakendur í þeirra starfi í vetur. Kvenfélagskonur standa til dæmis fyrir handavinnukvöldum öll fimmtudagskvöld yfir vetrartímann. Þá sjá tvær konur um veitingar og svo mæta þær sem geta og vilja, með eða án handavinnu, og spjalla um daginn og veginn. Samræðurnar geta oft orðið dásamlega litríkar og skemmtilegar. Það er því erfitt að verða algjörlega félagslega einangraður nema maður kjósi það sjálfur.

Það er enginn vafi um það í mínum huga að

það að vera uppalin á stað eins og Suðureyri gerði þessa ákvörðun mun léttari. Ég upplifði að ég vissi hvað ég væri að fara út í. Þetta væri bara lítill staður, ekki ósvipaður Suðureyri. Eitt af því sem ég kveið hvað mest var að búa einhvers staðar þar sem engin fjöll væru. En ég sé fjöllin í landi og það virðist hafa sitt að segja. Náttúrufegurðin hérna er ótrúleg og oft er fjallasýnin í landi eins og í málverki. Hér eru að vísu færri íbúar en lögmálin einhvern veginn þau sömu. Ekki síst er ómetanlegt að komast aftur í meiri tengingu við sjóinn og dýrmætt þegar hér banka sjómenn með fullan haldapoka af nýveiddum fiski handa okkur, flökuðum og roðflettum. Það verður ekki mikið betra í mínum huga. Fuglalífið hérna er líka fjölbreytt. Þá er það sérstaklega lundinn sem heillar en það er líka gaman að sjá lóu og hrossagauk trítla um garðinn sinn en hér eru engir hundar eða kettir og fuglarnir því sérlega óhræddir.

Mér finnst mikilvægt að vera minnt á, eins og gerist gjarnan þegar maður býr í svona litlu samfélagi, að það gerist ekkert án fólksins. Við höfum oft miklar skoðanir á því hvað ætti

að vera gert í hinu og þessu, fussum jafnvel yfir framkvæmd hátíða eða skemmtana, en gleymum að við getum haft áhrif og jafnvel aðstoðað. Svona samfélag eins og hér í Grímsey ER fólkið. Hér er nóg að gera af því að fólkið býr sér til eitthvað að gera. Og í svona samfélagi getur verið gott að vera stór fiskur í lítilli tjörn. Rödd manns heyrist, öllum hugmyndum er fagnað og margir tilbúnir að aðstoða mann við að gera hugmynd að veruleika. Mér hefur fundist Grímseyingar taka vel á móti okkur og hérna höfum við átt dásamlegan vetur innan um dásamlegt fólk í yndislegu umhverfi. Og eftir þennan vetur verður sannarlega breyting á högum litlu fjölskyldunnar í norðri en hugsanlegt er, ef einhverjir lásu til enda, að ég fái tækifæri til að skrifa meira síðar.

Page 27: SÚGANDI - Sumarblað 2015

SUMARBLAÐ

27

Aðalfundur Súgfirðingafélagsins64. aðalfundur Súgfirðingafélagsins var haldinn sunnu- daginn 12. apríl á Catalínu í Kópavogi. Á dagskránni voru hefðbundin aðalfundarstörf

Nýir stjórnarmenn voru boðnir velkomnir í stjórn. Í stjórninni hættu Eydís Aðalbjörnsdóttir, Alda Karls-dóttir, Guðríður Gyða Halldórsdóttir og Friðbert Páls-son. Ný stjórn er skipuð Eyþóri Eðvarðssyni formanni, Elsu Eðvarðsdóttur varaformanni og ritstjóra, Björk Birkisdóttur gjaldkera, Steinunn Mar ritara, Kristjáni Pálssyni meðstjórnanda, Elínu Bragadóttur meðstjórn- anda og Pálínu Snorradóttur meðstjórnanda.

Kæru SúgfirðingarAðfluttir, brottfluttir og ófluttir

Innilegar hamingjuóskir með nýjan pottog sérlega huggulega Suðureyrarlaug.

Page 28: SÚGANDI - Sumarblað 2015

SÚGANDI 2015

28

SPURNINGA-KEPPNIÁTTHAGA-FÉLAGANNASúgfirðingar kepptu í Spurninga-keppni átthagafélaganna þann 19. febrúar síðastliðinn. Keppnin var hörð og erfið og Húnvetningar stóðu uppi sem sigurvegarar.

Keppendur fyrir hönd Súgfirðinga- félagsins voru Atli Þór Þorvalds-son, Björk Birkisdóttir og Ingrid Kuhlman.

Page 29: SÚGANDI - Sumarblað 2015

SUMARBLAÐ

29

Hálfnað verk þá hafið erhugur fylgir máli.

Hópast nú að, heimaherheljar Noggs að báli.

Ævar, Guðni, ættartal,eins er von og vísa.

Leifa Nogg með lagaval,lofa menn og prísa.

Bál er tendrað, blik á sjá,boðar komu slíka.

Gítarspil og gleði á brá,getur þar að líta.

Vildi gjarnan vera hérog vísur ykkur færa.

En flensuskömmin fatlar mérfæ mig ekki að hræra.

Guðríður Gyða Halldórsdóttir (Gyða)

Page 30: SÚGANDI - Sumarblað 2015

SÚGANDI 2015

30

Súgfirðingagleðin var haldin í veislusalnum Lundi að Auðbrekku í Kópavogi þann 14. mars síðastliðinn. Kvöldið heppnaðist mjög vel og vinahópar og árgangar fjölmenntu og

gerðu sér glaðan dag. Skemmtiatriðin slógu í gegn og á ballinu hljómuðu fagrir tónar frá árinu 1945 og til ársins í dag. Veislustjóri var Elsa Eðvarðsdóttir.

Page 31: SÚGANDI - Sumarblað 2015

SUMARBLAÐ

31

Myn

dir -

Els

a Eð

varð

sdót

tir, I

ngrid

Kuh

lman

Page 32: SÚGANDI - Sumarblað 2015

SÚGANDI 2015

32

Page 33: SÚGANDI - Sumarblað 2015

SUMARBLAÐ

33

Page 34: SÚGANDI - Sumarblað 2015

SÚGANDI 2015

34

Nafn og hverra manna ertu?Lilja Rafney Magnúsdóttir dóttir Þóru Þórðar kennara frá Stað í Súgandafirði og Magga Ingimars sjómanns á Suðureyri. Fósturfaðir minn er Valgeir sjómaður á Suðureyri.

Fjölskylduhagir? Ég hef búið með eiginmanni mínum Hilmari Oddi vörubílstjóra og sjómanni í 42 góð ár í blíðu og stríðu og afraksturinn er fjögur mannvænleg börn, tvær dætur og tveir synir, og 2 barnabörn ásamt heimiliskettinum.

Starf/Nám? Ég hef verið alþingismaður Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi í sex ár og minn bakgrunnur er úr félagsmálum, verkalýðshreyfingunni og sveitarstjórnarmálum. Ég lauk hefðbundinni skólaskyldu en hef sótt mér menntun úr ýmsum áttum í gegnum lífið sem hefur gagnast mér vel

en svo lengi lærir sem lifir og mennt er máttur hverrar gerðar sem hún er.

Hvar býrðu? Ég bý á Suðureyri og hafði alið allan minn aldur þar þegar ég fór á þing árið 2009. Þá urðu kaflaskil í lífi mínu og ég þurfti að halda tvö heimili, annað fyrir sunnan nú í Kópavoginum, en ég flýg vestur um hverja helgi þar sem eiginmaðurinn og heimili mitt er. Börn og barnabörn eru á höfuðborgarsvæðinu og yngsta dóttir okkar býr hjá mér svo þetta hefur allt blessast.

Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú varst lítil?Þegar ég var að alast upp með annan fótinn í sveitinni hjá afa og ömmu á Stað og svo hjá mömmu og Valla á Suðureyri fannst mér liggja beinast við að vera kennari á veturna og sjómaður á sumrin. Ég hugsa að ég hefði getað orðið ágætur kennari og flott á strandveiðum á sumrin.

Hvaðan stafar áhugi þinn á verkalýðsmálum og baráttu fyrir hagsmunum „litla“ mannsins?Ég byrjaði snemma að vinna í fiskvinnslu eins og flestir þeir sem alast upp í sjávarplássum. Ég er alin upp við réttlætiskennd og sanngirni og í uppvexti mínum á Suðureyri með sjómönnum, bændum og verkafólki fann ég þörf fyrir að standa með þeim sem minna mega sín og reyna að bæta þeirra hag. Í Súgandafirði hefur í gegnum tíðina verið róttækt félagshyggjufólk sem hefur látið til sín taka á ýmsum sviðum og þar á ég margar góðar fyrirmyndir.

Hvernig kom það til að þú situr nú á þingi?Ég hef verið að stússast í pólitík og

Súgfirðingur íSviðsljósinuLilja Rafney Magnúsdóttir

Page 35: SÚGANDI - Sumarblað 2015

SUMARBLAÐ

35

Page 36: SÚGANDI - Sumarblað 2015

SÚGANDI 2015

36

verkalýðsmálum frá því ég var um þrítug, var formaður Verkalýðs- og sjómannafélagsins Súganda í 16 ár, oddviti Suðureyrarhrepps í 4 ár og varaþingmaður Alþýðubandalagsins frá 1991 til 1999 og þar á eftir Vinstri grænna. Ætli minn tími hafi ekki bara verið kominn. Ég ákvað að taka slaginn 2009 og lenti inn á þingi við erfiðustu aðstæður sem hugsast geta eftir Hrunið. Þessi tími hefur verið harður skóli sem kennt hefur manni margt.

Hefur þig alltaf dreymt um að það að vera þingkona?Ég hef ekki gengið með þingmanninn í maganum. Mér hefur þótt mjög gaman að takast á við sveitarstjórnarmál og verkalýðsmálin í nærumhverfinu og oftar en ekki séð árangur af því sem ég vil sjá breytast til batnaðar. Kerfisbreytingar í gegnum Alþingi eru oft og

tíðum mjög svifaseinar og erfitt að gera róttækar breytingar á þjóðfélagsskipan, en dropinn holar steininn og á Alþingi eru línurnar lagðar um hvernig við ráðstöfum almannafé og hvort við stefnum til aukins jöfnuðar eða ójöfnuðar. Þar vil ég leggja mitt lóð á vogarskálina til að auka jöfnuð og bæta lífskjör í landinu og ég tala nú ekki um að breyta fiskveiðistjórnarkerfinu!

Hvað er það óþægilegasta við að að vera í sviðsljósinu? Það hefur ekkert truflað mig sérstaklega, ég reyni yfir höfuð að vera eins og ég á að mér. Ég var reyndar spurð nýlega af ókunnri konu í heitapottinum á Suðureyri hvort hún ætti ekki að þekkja mig. Ég svaraði því til að það gæti verið vegna þess að ég væri þingmaður. Þá svaraði hún já já ég sá þig á flokksþingi Framsóknarflokksins! Ég tók andköf en hugsaði

Page 37: SÚGANDI - Sumarblað 2015

SUMARBLAÐ

37

síðan með mér að flokksmenn Framsóknar þekktu greinilega ekki þingmenn sína betur en þetta.

Hver eru þín framtíðaráform næstu 5 ár? Að gera mitt besta til þess að bæta mig sjálfa og gera eitthvert gagn í lífinu og að gleyma ekki að njóta lífsins með fjölskyldunni.

Hver er þín helsta fyrirmynd?Móðir mín. En ég er svo heppin að eiga svo fjölbreytta flóru af ættingjum og vinum sem ég lít upp til og er alltaf að læra af því góða fólki sem ég hef kynnst í gegnum lífið.

Hver er þín framtíðarsýn fyrir Ísland?Að á Íslandi ríki jöfnuður og að okkur auðnist að byggja upp réttlátara þjóðfélag þar sem allir fái að njóta sín óháð tekjum og búsetu og burtséð frá því hvar þeir eru staddir í lífinu. Ísland á að vera í forystu í friðarmálum og umhverfisvernd og láta gott af sér leiða í þróunarsamvinnu meðal fátækari þjóða.

Eitthvað sem þú sérð eftir?Það er til lítils að lifa í eftirsjá en ég hefði viljað faðma þá oftar sem mér hefur þótt vænt um og eru farnir yfir móðuna miklu en við hittumst örugglega hinum megin og þá verða fagnaðarfundir.

Hver er þín besta minning um Suðureyri?Það er ómögulegt að gera uppá milli góðra minninga. Hjá mér var æskan samfelld gleðiganga en ég get nefnt alla leikina sem við krakkarnir vorum í á sumrin. Það voru boltaleikir, hverfa, þrautakóngur og fleira og inni á gamla leikvellinum var fjör þar sem kapphlaup var um að komast í kaðlana og í hringina. Svo átti ég mína sælu í sveitinni á Stað hjá afa og ömmu sem erfitt er að toppa.

Hver er draumurinn? Að komast aftur upp á Hádegishorn þegar búið verður að lappa uppá hnéð á mér, það væri frábært og svo myndi ég alveg þiggja það að komast á hestbak í fallegri sveit.

Page 38: SÚGANDI - Sumarblað 2015

SÚGANDI 2015

38

Velheppnað golfmót í MiðdalBlásið var til golfmóts Súgfirðingafélagsins

sunnudaginn 21. júní á stórglæsilegum níu holu golfvelli Dalbúa í Miðdal við Laugarvatn. 24 manns skráðu sig til þátttöku og spiluðu 9 holur eftir Texas

Scramble fyrirkomulagi í blíðskaparveðri. Mikill keppnisandi myndaðist á vellinum.

Sigurvegararnir voru Sturla Gunnar Eðvarðsson og Kári Árnason. Farandbikarinn verður því

hjá þeim þangað til á næsta ári.

Friðgerður Björk Friðgeirsdóttir og Elvar Jón Friðbertsson unnu annað sætið.

Þriðja sætið hlutu Hildur Þorsteinsdóttir og Karl Bjarnason.

Hugheilar þakkir fá Guðmundur H. Sigmundsson og Ransý Bender en þau sjá um rekstur golfvallar klúbbsins og skála og tóku vel

á mótu okkur Súgfirðingum.

Page 39: SÚGANDI - Sumarblað 2015

SUMARBLAÐ

39

Myn

dir -

Ingr

id K

uhlm

an

Page 40: SÚGANDI - Sumarblað 2015

SÚGANDI 2015

40