gildi hreyfingar sem hluti af meðferð og... · er, hvers konar hreyfingu er um að ræða,...

40
Hreyfing og fæðingarþunglyndi Gildi hreyfingar sem hluti af meðferð Ösp Jóhannsdóttir Ritgerð til BS gráðu Námsbraut í sjúkraþjálfun

Upload: others

Post on 23-Jan-2021

5 views

Category:

Documents


0 download

TRANSCRIPT

Page 1: Gildi hreyfingar sem hluti af meðferð og... · er, hvers konar hreyfingu er um að ræða, tíðni, tíma og ákefð? Þar að auki er markmið ritgerðarinnar að kanna afstöðu

Hreyfing og fæðingarþunglyndi

Gildi hreyfingar sem hluti af meðferð

Ösp Jóhannsdóttir

Ritgerð til BS gráðu

Námsbraut í sjúkraþjálfun

Page 2: Gildi hreyfingar sem hluti af meðferð og... · er, hvers konar hreyfingu er um að ræða, tíðni, tíma og ákefð? Þar að auki er markmið ritgerðarinnar að kanna afstöðu

Hreyfing og fæðingarþunglyndi

Gildi hreyfingar sem hluti af meðferð

Ösp Jóhannsdóttir

Ritgerð til BS gráðu í sjúkraþjálfun

Leiðbeinandi: Svandís Sigurðardóttir

Læknadeild

Námsbraut í sjúkraþjálfun

Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands

Október 2014

Page 3: Gildi hreyfingar sem hluti af meðferð og... · er, hvers konar hreyfingu er um að ræða, tíðni, tíma og ákefð? Þar að auki er markmið ritgerðarinnar að kanna afstöðu

Postpartum depression and exercise

The effectiveness of exercise as part of treatment

Ösp Jóhannsdóttir

Thesis for the BS degree

Advisor: Svandís Sigurðardóttir

Faculty of Medicine

Department of Physiotherapy

School of Health Sciences

October 2014

Page 4: Gildi hreyfingar sem hluti af meðferð og... · er, hvers konar hreyfingu er um að ræða, tíðni, tíma og ákefð? Þar að auki er markmið ritgerðarinnar að kanna afstöðu

i

Ritgerð þessi er til BS gráðu í sjúkraþjálfun og er óheimilt að afrita ritgerðina á

nokkurn hátt nema með leyfi rétthafa.

© Ösp Jóhannsdóttir 2014

Prentun: Háskólaprent ehf.

Reykjavík, Ísland 2014

Page 5: Gildi hreyfingar sem hluti af meðferð og... · er, hvers konar hreyfingu er um að ræða, tíðni, tíma og ákefð? Þar að auki er markmið ritgerðarinnar að kanna afstöðu

ii

Ágrip

Fæðingarþunglyndi þjakar um það bil 10–15 % kvenna en fæðingarþunglyndi er skilgreint sem

geðlægðarlota eða langvinn geðlægð á fyrstu mánuðunum eftir barnsburð. Orsakir þess eru óþekktar

en líklega er um að ræða samaspil margar þátta. Þeir þættir sem áhrif hafa geta verið af sálrænum

toga og/eða átt uppruna sinn að rekja til líffræðilegra eða félagsfræðilegra þátta auk þess sem

menningalegir þættir geta haft áhrif. Fæðingarþunglyndi getur haft slæmar afleiðingar í för með sér,

ekki eingöngu fyrir móðurina heldur einnig ungabarnið og fjölskylduna í heild og er því mikilvægt að

grípa sem fyrst inn í með viðeigandi meðferð.

Markmið þessarar kerfisbundnu samantektar er að varpa ljósi á gagnsemi hreyfingar sem

hluta af meðferð við fæðingarþunglyndi. Hreyfing hefur almennt reynst áhrifarík við þunglyndi og því

við hæfi að kanna áhrif hennar á þunglyndi í kjölfar barnsburðar.

Markviss leit af hágæða rannsóknum fór fram frá september 2013 til mars 2014. Við

heimildaleitina voru notaðir gagnabankar á borð við Leitir.is, PEDro og PubMed. Að lokum fundust tíu

rannsóknir sem uppfylltu öll skilyrði fyrir þátttöku í rannsókninni. Níu af þessum tíu rannsóknum sýndu

fram á jákvæð áhrif hreyfingar á fæðingarþunglyndi eða einkenni þess en engu að síður ber að túlka

niðurstöðurnar af varkárni vegna takmarkana í rannsóknunum. Til viðbótar við kerfisbundnu

samantektina voru tekin viðtöl við heilbrigðisstarfsmenn, einn geðlækni og einn sérfræðing í hjúkrun,

hjá Miðstöð foreldra og barna sem sinna konum með fæðingarþunglyndi til að kanna hvort þar sé

hreyfing ráðlögð samhliða hefðbundinni meðferð.

Þrátt fyrir takmarkaðan fjölda rannsókna á þessu sviði og annmarka þeirra gefa niðurstöðurnar

vísbendingar og grunn fyrir framtíðarrannsóknir að byggja á. Hreyfing skiptir máli, er öllum nauðsynleg

og mikilvægur hluti af heilbrigðum lífsstíl.

Page 6: Gildi hreyfingar sem hluti af meðferð og... · er, hvers konar hreyfingu er um að ræða, tíðni, tíma og ákefð? Þar að auki er markmið ritgerðarinnar að kanna afstöðu

iii

Abstract

Approximatly 10–15 % of women suffer from postpartum depression (PPD) which is a type of clinical

depression in the first few months after childbirth. The etiology of PPD is not well understood but

studies tend to show that many causes can be involved. Risk factors for PPD can be of psychological,

biological or social origin, as well can cultural factors affect the new mother’s wellbeing. PPD can have

negative consequences not only for the mother but also for the child and family as a whole. Therefore

it is important to intervene and offer a suitable treatment.

The goal of this systematic review is to put forward the benefit of exercise as a part of treatment for

PPD. Physical exercise is a form of treatment that is effective for clinical depression in general and it

would appear worthwhile and appropriate to examine the effects of exercise as a treatment for PPD.

The search for quality studies took place between September 2013 and March 2014 using

electronic databases such as: Leitir.is, PEDro and PubMed. Ten studies were eligible for inclusion.

Nine of these ten studies showed positive outcome for use of physical exercise as a form of treatment

for PPD. However, caution should be taken when interpreting these results due to the studies

limitations. In addition, interviews were taken with health care professionals at The Center for Parents

and Children that gives service to women with PPD to find out if exercise is recommended as an

addition to standard care.

Despite the limited number of studies in this field and their shortcomings, the results provide a base

for future recearches to build on. Proper exercise is important for everyone and essential part of a

healthy life style.

Page 7: Gildi hreyfingar sem hluti af meðferð og... · er, hvers konar hreyfingu er um að ræða, tíðni, tíma og ákefð? Þar að auki er markmið ritgerðarinnar að kanna afstöðu

iv

Þakkir

Eftirtaldir aðilar fá bestu þakkir fyrir að aðstoða mig við gerð lokaritgerðar minnar til BS-gráðu í

sjúkraþjálfun við Háskóla Íslands:

Svandís Sigurðardóttir, leiðbeinandi, fyrir umsjón, aðstoð við vinnslu og yfirlestur á ritgerðinni.

Anna María Jónsdóttir, geðlæknir, fyrir að veita viðtal.

Stefanía Arnardóttir, hjúkrunarfræðingur, fyrir að veita viðtal.

Íris Marelsdóttir fyrir þýðingu á ágripi yfir á ensku.

Helga Birgisdóttir fyrir prófarkalestur.

Einnig þakka ég fjölskyldu minni og vinum fyrir alla þá aðstoð, stuðning og umburðarlyndi sem þau

sýndu mér meðan á gerð ritgerðarinnar stóð.

Page 8: Gildi hreyfingar sem hluti af meðferð og... · er, hvers konar hreyfingu er um að ræða, tíðni, tíma og ákefð? Þar að auki er markmið ritgerðarinnar að kanna afstöðu

v

Efnisyfirlit

Ágrip ......................................................................................................................................................... ii

Abstract .................................................................................................................................................... iii

Þakkir ....................................................................................................................................................... iv

Efnisyfirlit .................................................................................................................................................. v

Myndaskrá .............................................................................................................................................. vii

Töfluskrá ................................................................................................................................................. vii

Listi yfir skammstafanir .......................................................................................................................... viii

1 Inngangur ............................................................................................................................................. 1

1.1 Tilgangur .................................................................................................................................... 2

2 Fræðilegur bakgrunnur ........................................................................................................................ 3

2.1 Orsakir og áhættuþættir ............................................................................................................. 3

2.2 Einkenni ...................................................................................................................................... 3

2.3 Greining ...................................................................................................................................... 4

2.4 Algengi ....................................................................................................................................... 4

2.5 Afleiðingar og horfur ................................................................................................................... 5

2.6 Mælitæki – Kembileit/skimun ..................................................................................................... 5

2.7 Hreyfing ...................................................................................................................................... 6

2.7.1 Ráðleggingar um hreyfingu kvenna á meðgöngu ............................................................... 7

2.7.2 Ráðleggingar um hreyfingu kvenna eftir barnsburð ............................................................ 8

2.8 Forvarnir og snemmtæk íhlutun ................................................................................................. 8

3 Efni og aðferðir ................................................................................................................................... 10

3.1 Dæmi um rafræna leit í Leitir.is ................................................................................................ 10

3.2 Val á rannsóknum og greining ................................................................................................. 10

4 Niðurstöður ......................................................................................................................................... 11

4.1 Þátttakendur og faraldsfræði .................................................................................................... 17

4.2 Íhlutun ....................................................................................................................................... 17

4.2.1 Tilgangur íhlutunarinnar .................................................................................................... 18

4.3 Niðurstöður rannsóknanna ....................................................................................................... 18

5 Umræður/umfjöllun ............................................................................................................................ 19

5.1 Takmarkanir ............................................................................................................................. 19

5.2 Viðtöl við heilbrigðisstarfsfólk ................................................................................................... 19

Page 9: Gildi hreyfingar sem hluti af meðferð og... · er, hvers konar hreyfingu er um að ræða, tíðni, tíma og ákefð? Þar að auki er markmið ritgerðarinnar að kanna afstöðu

vi

5.3 Hlutverk sjúkraþjálfara .............................................................................................................. 21

6 Samantekt og lokaorð ........................................................................................................................ 22

6.1 Framtíðarrannsóknir ................................................................................................................. 22

Heimildaskrá ........................................................................................................................................... 23

Fylgiskjal ................................................................................................................................................. 28

Upplýst samþykki vegna viðtala ............................................................................................................. 28

Page 10: Gildi hreyfingar sem hluti af meðferð og... · er, hvers konar hreyfingu er um að ræða, tíðni, tíma og ákefð? Þar að auki er markmið ritgerðarinnar að kanna afstöðu

vii

Myndaskrá

Mynd 1. Flæðirit yfir niðurstöður heimildaleitar. ..................................................................................... 11

Töfluskrá

Tafla 1. Greiningarviðmið fyrir fæðingarþunglyndi, samkvæmt DSM-V……………………………………4

Tafla 2. Ráðleggingar ACSM frá 2010 um þjálfun barnshafandi kvenna…………………………………..7

Tafla 3. Ráðleggingar ACSM frá 2002 um þjálfun kvenna eftir barnsburð……………………………...…8

Tafla 4. Yfirlit yfir þær rannsóknir sem skoða tengsl hreyfingar eftir barnsburð og

fæðingarþunglyndis...............................................................................................................................12

Page 11: Gildi hreyfingar sem hluti af meðferð og... · er, hvers konar hreyfingu er um að ræða, tíðni, tíma og ákefð? Þar að auki er markmið ritgerðarinnar að kanna afstöðu

viii

Listi yfir skammstafanir

DSM-V Diagnostic and Statistical Manual of Mental Disorders, Fifth Edition

EPDS Edinburgh Postnatal Depression Scale

CES-D The Center for Epidemiologic Studies Depression Scale

ACSM American College of Sports Medicine

VO2R Oxygen uptake reserve

HRmax Maximum heart rate

STAI State-Trait Anxiety Inventory

POMS Profile of Mood States

Page 12: Gildi hreyfingar sem hluti af meðferð og... · er, hvers konar hreyfingu er um að ræða, tíðni, tíma og ákefð? Þar að auki er markmið ritgerðarinnar að kanna afstöðu

1

1 Inngangur

Barnsfæðing er mikið kraftaverk og gleðiefni og fyrir flesta stórkostleg upplifun tengd jákvæðum

tilfinningum og hamingju. Því miður bera þó ekki allar nýbakaðar mæður þessar tilfinningar

innanbrjósts. Tilfinningar á borð við depurð, áhugaleysi, óöryggi, vanmátt og vonleysi geta skotið upp

kollinum ásamt sektarkennd yfir því að upplifa ekki ást og hamingju eins og til er ætlast. Miklar

breytingar verða á lífi fólks þegar það verður foreldrar og þetta nýja hlutverk, að ala og annast nýja

manneskju, er krefjandi verkefni.

Hvað margar varðar er þunglyndi kvenna í kjölfar barnsburðar mikið feimnismál auk þess sem

nýbakaðar mæður og aðstandendur þeirra gera sér oft ekki grein fyrir þeim vanda sem við er að etja.

Sem betur fer hefur umræðan um fæðingarþunglyndi aukist á undanförnum árum og orðið meira

áberandi. Konur hafa stigið fram í fjölmiðlum og sagt sögu sína, með það að markmiði að hvetja aðrar

konur sem glíma við svipaðan vanda til að leita sér aðstoðar. Í dag eru í auknum mæli send þau

jákvæðu skilaboð til verðandi og nýbakaðra mæðra að það sé í lagi og eðlilegt að finna ekki

samstundis til ástar gagnvart nýja einstaklingnum sem þær fá í hendur. Móðir og barn þurfa oft tíma til

að kynnast og byggja upp traust samband.

Andleg heilsa og vellíðan kvenna á meðgöngu og eftir fæðingu skiptir mjög miklu máli því

afleiðingar fæðingarþunglyndis eru víðtækar fyrir móður, barn og nákomna aðila. Fyrir utan mikla

vanlíðan og þjáningar móðurinnar getur ástandið haft neikvæð áhrif á tengslamyndun við barnið sem

aftur hefur svo áhrif á heilsu og tilfinninga- og vitsmunaþroska hins unga einstaklings (Beck, 1998;

Goodman, 2011)

Í nútímasamfélagi okkar fær útlit og holdafar mikla athygli. Skilaboð koma úr öllum áttum um að líta

vel út á meðgöngu og ekki síst að komast sem fyrst í fyrra form eftir fæðingu. Stórstjörnur hvíta

tjaldsins, sem oft prýða forsíður glanstímaritanna stuttu eftir barnsburð, og ofurfyrirsætur, sem spranga

um á tískupöllunum einungis fáeinum vikum eftir fæðingu, gefa óraunhæfa mynd af veruleikanum.

Þessar fyrirmyndir og umræða hefur vissulega áhrif konur og samfélagsviðhorf í heild. Rannsóknir

sýna að aukakíló í kjölfar meðgöngu og óánægja með eigin líkama eftir barnsburð geti einmitt stuðlað

að vanlíðan og þunglyndi mæðra (Downs o.fl. 2008; Herring o.fl. 2008) og þá hjálpar alls ekki til að

bera sjálfa sig saman við fyrrnefndar fyrirmyndir, þ.e. stórstjörnur og fyrirsætur. Á sama tíma og lögð er

áhersla á grannan líkamsvöxt hefur tíðni vandamála og fylgikvilla á meðgöngu og í fæðingu aukist

vegna lífsstílssjúkdóma á borð við offitu, háþrýsting og meðgöngusykursýki (Ólöf Jóna Elíasdóttir o.fl.,

2010) og geta þessir þættir aukið áhyggjur og vanlíðan hjá móður.

Árið 1997 gáfu vísindamenn frá Harvard School of Public Health og World Health Organization út

mat á helstu dánarorsökum og færnisskerðingum vegna sjúkdóma, slysa og áhættuþátta. Í greininni

áætla höfundar að þunglyndi verði önnur helsta ástæða færnisskerðingar í heiminum árið 2020

(Murray og Lopez, 1997). Hlutverk sjúkraþjálfara felst meðal annars í því að fyrirbyggja sjúkdóma,

bæta heilsu, hreyfigetu og færni fólks og er því ljóst að meðferð við andlegum kvillum og þunglyndi

mun í komandi framtíð verða sífellt stærra verkefni fyrir þá starfsstétt.

Page 13: Gildi hreyfingar sem hluti af meðferð og... · er, hvers konar hreyfingu er um að ræða, tíðni, tíma og ákefð? Þar að auki er markmið ritgerðarinnar að kanna afstöðu

2

Kostir hreyfingar fyrir konur með fæðingarþunglyndi gætu meðal annars verið bætt líkamlegt og

andlegt ástand eftir meðgöngu og fæðingu og þar af leiðandi gæti hreyfing stuðlað að bættri

líkamsmynd. Hreyfing hefur sáralitlar, ef einhverjar aukaverkanir, samanborið við þunglyndislyf sem

mæður með börn á brjósti eru oft óviljugar til að taka. Hreyfing felur ekki í sér inngrip í líkamann og

þarf ekki að kosta mikið.

National Institute for Health and Clinical Exellence í Englandi gefur út klínískar leiðbeiningar

varðandi andlega heilsu kvenna á meðgöngu og eftir barnsburð. Í leiðbeiningum þeirra frá árinu 2006

mæla sérfræðingar með því að heilbrigðisstarfsfólk íhugi hreyfingu sem meðferð við vægu til miðlungs

meðgöngu- og fæðingarþunglyndi. Á bak við þessar ráðleggingar liggja eingöngu tvær litlar rannsóknir

með fáum þátttakendum og gefa niðurstöður þeirra því takmarkaðar upplýsingar. Unnið er að

uppfærslu leiðbeininganna og er niðurstöður þeirrar vinnu að vænta í desember 2014 (NICE, 2007).

Fróðlegt verður að sjá hvort hreyfing fái aukið vægi í nýju leiðbeiningunum því fleiri rannsóknir á þessu

sviði hafa bæst við frá 2006 (Da Costa o.fl., 2009; Daley o.fl., 2008; Dritsa o.fl., 2008; Heh o.fl., 2008;

Ko o.fl., 2013; LeCheminant o.fl., 2012; Norman o.fl., 2010).

1.1 Tilgangur

Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt fram á gagnsemi hreyfingar við kvíða og streitu og er hún þar að auki

ráðlögð sem hluti af meðferð við vægu til miðlungs þunglyndi hjá almenningi (Kjellman, o.fl., 2010).

Vísbendingar eru um að hreyfing hafi góð áhrif á fæðingarþunglyndi og er því þörf á að taka saman

nýjustu heimildir um málefnið til að varpa ljósi á gagnsemi hennar. Sjúkraþjálfarar gætu verið hluti af

þverfaglegu teymi heilbrigðisstarfsmanna sem sinna konum með fæðingarþunglyndi og þannig lagt sitt

lóð á vogaskálarnar til að stuðla að bættri heilsu og aukinni vellíðan nýbakaðra mæðra. Það hefur

marga kosti í för með sér, bæði fyrir sjúklinga og meðferðaraðila, að hafa fleiri meðferðarúrræði í boði

til viðbótar við hefðbundnar samtals- og lyfjameðferðir sem fyrir eru. Sú rannsóknarspurning sem lögð

er til grundvallar í þessari kerfisbundnu samantekt er því þessi: Getur hreyfing dregið úr

fæðingarþunglyndi eða einkennum þess og þannig nýst sem hluti af meðferð?

Markmið þessarar ritgerðar er einnig að kanna stöðuna hér á landi og svara síðari

rannsóknarspurningunni: Er hreyfing ráðlögð við fæðingarþunglyndi samhliða annarri meðferð? Ef svo

er, hvers konar hreyfingu er um að ræða, tíðni, tíma og ákefð? Þar að auki er markmið ritgerðarinnar

að kanna afstöðu meðferðaraðila til hreyfingar, hvort þeir telji hana gagnlega og hvort hreyfiseðlar séu

raunhæfur kostur fyrir þennan hóp skjólstæðinga til að auka vægi hreyfingar í meðferð við

fæðingarþunglyndi. Til að afla svara við þessum spurningum voru tekin viðtöl við geðlækni og

sérfræðing í hjúkrun hjá Miðstöð foreldra og barna.

Page 14: Gildi hreyfingar sem hluti af meðferð og... · er, hvers konar hreyfingu er um að ræða, tíðni, tíma og ákefð? Þar að auki er markmið ritgerðarinnar að kanna afstöðu

3

2 Fræðilegur bakgrunnur

2.1 Orsakir og áhættuþættir

Ekki er með fullu vitað hvað veldur því að sumar konur fá fæðingarþunglyndi en aðrar ekki. Samkvæmt

Lindu Báru Lýðsdóttur og félögum (2008) hafa rannsóknir beinst að því að kanna áhrif kynhormóna á

fæðingarþunglyndi. Á meðgöngu framleiðir fylgjan mikið af kvenhormónum og við barnsburð lækkar

styrkur þessara hormóna skyndilega. Sett hefur verið fram sú tilgáta að miklar breytingar á hormónum

valdi truflun á virkni undirstúku-heiladinguls-nýrnahettu-öxuls (e. hypothalamic-pituitary-adrenal axis)

og þar af leiðandi þeim boðefnum sem stjórna tilfinningum (Jolley o.fl., 2007; Meltzer-Brody, 2011;

Workman o.fl., 2012). Þetta gerir mæðurnar næmari en ella fyrir þunglyndi, sérstaklega þegar mikið er

um streituvaldandi áreiti í lífi þeirra (Linda Bára Lýðsdóttir o.fl., 2008). Flestir eru sammála því að

orsakaþættir fæðingarþunglyndis séu margir og að samspil þeirra sé flókið. Áhrifaþættirnir geta verið

af sálrænum toga, líffræðilegum og félagsfræðilegum uppruna auk þess sem menningarlegir þættir

geta haft áhrif (Linda Bára Lýðsdóttir o.fl., 2008; O’Hara og MaCabe, 2013).

Mikið er til af rannsóknum og heimildum um sálfélagslega áhættuþætti fyrir fæðingarþunglyndis.

Þegar teknar eru saman niðurstöður þriggja samantektargreina um málefnið kemur fram að þunglyndi

og kvíði á meðgöngu hafa hvað mest að segja um þunglyndi eftir barnsburð. Lélegt sjálfstraust,

skortur á félagslegum stuðningi og stuðningi maka og streita við barnauppeldi fylgja þar fast á eftir.

Næst í röðinni koma neikvæðir lífsviðburðir og fyrri saga um þunglyndi. Alvarlegur

sængurkvennagrátur, tilfinninganæmi og það ef konur upplifa slæma eða erfiða fæðingu teljast einnig

áhættuþættir fyrir fæðingarþunglyndi. Einnig getur sambúðarform haft áhrif og þá sérstaklega ef

móðirin er ekki hamingjusöm í sambandinu eða ef hún er einstæð. Neðst á listanum kemur svo lág

félagsstaða, óvænt eða óvelkomin þungun og lunderni hins nýfædda barns (Beck, 2001; O’Hara og

Swain, 1996; Robertson o.fl., 2004). Allt eru þetta þættir sem auka álagið á móðurina og gera henni

erfiðara um vik að aðlagast hinu nýja hlutverki og annast barn sitt. Í nýlegri rannsókn á 264 konum

töldust þunglyndi á meðgöngu, saga um líkamlegt ofbeldi og að eiga ekki öruggt þak yfir höfuðið vera

helstu áhættuþættirnir (Gaillard o.fl, 2014).

Nokkrir þættir sem tengjast aukinni streitu á meðgöngu hafa verið kannaðir sem hugsanlegir

áhættuþættir fyrir fæðingarþunglyndi. Þar á meðal eru meðgöngutengdir fylgikvillar, heilsa barnsins og

lunderni og tegund fæðingar (O’Hara og McCabe, 2013). Blom o.fl. (2010) fundu út í rannsókn sinni á

4.941 konu að þær sem upplifðu meðgöngutengda fylgikvilla á borð við meðgöngueitrun, innlagnir á

sjúkrahús og bráðakeisaraskurð voru líklegri en aðrar til að greinast með fæðingarþunglyndi

samkvæmt Edinborgar þunglyndiskvarðanum og líkurnar jukust eftir fjölda fylgikvilla sem konan

upplifði. Samt sem áður hefur tegund fæðingar ekki verið tengd við auknar líkur á fæðingarþunglyndi

(Adams o.fl 2012; Sword o.fl. 2011)

2.2 Einkenni

Þau einkenni sem konur sem þjást af fæðingarþunglyndi tilgreina hvað oftast eru kvíði og óöryggi,

tilfinningalegt ójafnvægi sem lýsir sér helst sem skapstyggð og bráðlyndi, sektarkennd og skömm,

svefnleysi og átraskanir, æsingur, ruglingur og að hafa tapað sjálfri sér (Beck og Indman, 2005).

Page 15: Gildi hreyfingar sem hluti af meðferð og... · er, hvers konar hreyfingu er um að ræða, tíðni, tíma og ákefð? Þar að auki er markmið ritgerðarinnar að kanna afstöðu

4

Önnur einkenni eru mikill grátur, þreyta, áhugaleysi gagnvart barninu, að velta sér upp úr áhyggjum og

þráhyggja gagnvart heilsu og velferð barnsins. Þessar konur fá oftar felmtursköst og eiga erfiðara með

félagslega aðlögun en aðrar þunglyndar konur (Linda Bára Lýðsdóttir o.fl.,2008).

2.3 Greining

Fæðingarþunglyndi er skilgreint sem geðlægðarlota eða langvinn geðlægð á fyrstu mánuðunum í

kjölfar barnsburðar. Samtök amerískra geðlækna (e. American Psyciatric Association) gefa út handbók

um geðsjúkdóma og sjúkdómsgreiningar þeirra, skammstafað DSM-V. Ekki eru sérstök

greiningarviðmið fyrir fæðingarþunglyndi en samkvæmt handbókinni eru sömu viðmið notuð og gilda

fyrir alvarlega geðlægð (APA, 2013). Viðmiðin má sjá í töflu 1.

Einkenni fæðingarþunglyndis þurfa að hafa komið fram á fyrstu 4 vikunum í kjölfar barnsburðar en

þau tímaviðmið er þó umdeild (Linda Bára Lýðsdóttir o.fl., 2008). Rannsóknir sýna að áhættan sé fyrir

hendi frá tveimur vikum til átján mánuðum eftir barnsburð (Hendrick o.fl., 2000). Algengast er þó að

konur greinist á fyrstu þremur mánuðunum (Stowe o.fl, 2005).

Tafla 1. Greiningarviðmið fyrir fæðingarþunglyndi, samkvæmt DSM-V.

A) Fimm eða fleiri einkenni skulu hafa verið til staðar í að minnsta kosti tvær vikur og skilyrði er að

annað hvort atriði 1 eða 2 séu þar á meðal.

1. Þungt geðslag megnið af deginum, næstum alla daga.

2. Minni áhugi á nánast öllum atburðum, megnið af deginum, flesta daga.

3. Breyting á matarlyst; meiri eða minni, á næstum hverjum degi.

4. Erfiðleikar með svefn; erfitt að sofna, vakna oft upp eða sofa of mikið.

5. Óeirð eða hægar hreyfingar og hugsun.

6. Þreyta eða orkuleysi.

7. Óhófleg sektarkennd eða tilfinning um að vera einskis virði.

8. Erfiðleikar við hugsun eða einbeitingu.

9. Endurteknar hugsanir um dauða eða sjálfsvíg. Skipulagning eða tilraun til sjálfsvígs.

B) Einkennin þurfa að valda verulegri truflun í daglegu lífi.

C) Einkenni skulu ekki vera rekjanleg til líkamlegra sjúkdóma eða notkunar vímuefna.

D) Einkennin skulu ekki uppfylla greiningarviðmið annara geðraskana.

E) Ekki saga um geðhæðarlotu.

2.4 Algengi

Nokkurs misræmis gætir í rannsóknum hvað varðar algengi fæðingarþunglyndis en almennt er það

talið vera á bilinu 10–15% (Gaynes o.fl., 2005; O’Hara og Swain, 1996). Gaynes og félagar gera

greinarmun á alvarleika fæðingarþunglyndis í samantektargrein sinni frá árinu 2005 og samkvæmt

Page 16: Gildi hreyfingar sem hluti af meðferð og... · er, hvers konar hreyfingu er um að ræða, tíðni, tíma og ákefð? Þar að auki er markmið ritgerðarinnar að kanna afstöðu

5

niðurstöðum þeirra er algengi alvarlegrar geðlægðar 7,1% en algengi vægrar geðlægðar um 19,2% á

fyrstu þremur mánuðunum í kjölfar fæðingar.

Marga Thome (2000) rannsakaði algengi fæðingaþunglyndis hér á landi og leiddu niðurstöður

hennar í ljós 14% fæðingarþunglyndi meðal íslenskra kvenna tveimur til þremur mánuðum eftir

barnsburð. Ef horft er til landanna í kringum okkur sýndi langtímarannsókn í Svíþjóð að algengi

fæðingarþunglyndis væri 11,1% tveimur mánuðum eftir barnsburð en í stórri rannsókn á Bretlandi á

14.000 konum reyndist algengið lægra eða 9,1% tveimur mánuðum eftir barnsburð (Evans o.fl., 2001;

Rubertsson o.fl., 2005). Nýlegri rannsóknir sýna 9,6% algengi alvarlegs og vægs þunglyndis ári eftir

barnsburð á Ítalíu og 9,8% algengi lyndisraskana sex vikum eftir barnsburð á Spáni (Banti o.fl., 2011;

Navarro o.fl. 2008). Ýmsar ástæður geta skýrt misræmi í niðurstöðum eins og lítið samræmi í því

hvenær algengi er metið, það að oft er eingöngu um skimun að ræða en ekki greiningu, notuð eru

mismunandi mælitæki og úrtak rannsókna er lítið (O’Hara and McCabe, 2013).

2.5 Afleiðingar og horfur

Afleiðingar þunglyndis á meðgöngu og eftir barnsburð geta verið afar víðtækar hvað varðar móður,

barn, maka og nánustu ættingja og vini (Linda Bára Lýðsdóttir o.fl., 2008). Það sem gerir

fæðingarþunglyndi frábrugðið almennu þunglyndi er að mæður bera mikla ábyrgð á umönnun

ungabarnsins og viðvarandi þunglyndi getur leitt til truflunar á tengslamyndun ásamt fjölda neikvæðra

áhrifa á barnið bæði snemma og síðar á ævi þess (O’Hara og McCabe, 2013). Fæðingarþunglyndi

getur haft áhrif á það hvort móðirin sé fær um að uppfylla frumþarfir barnsins, til dæmis hvað varðar

næringu, svefn og öryggi (Field, 2010) ásamt því sem hegðun hennar getur haft neikvæð áhrif á

andlega líðan og þroska hins unga einstaklings (O’Hara og McCabe, 2013).

Þunglyndar mæður eru síður líklegar til að nýta sér heilbrigðisþjónustu fyrir ungabörn, eru ólíklegri

til að láta bólusetja börn sín, nota síður öryggisbúnað til að fyrirbyggja slys á heimilinu og leggja börn

sín síður til svefns í ráðlögðum svefnstöðum en þær mæður sem ekki þjást af þunglyndi (Field, 2010;

Zajick-Farber, 2009).

Rannsóknum ber hins vegar ekki saman um hversu víðtæk áhrifin eru á þroska barna. Engu að

síður hafa rannsóknir sýnt að þunglyndi og kvíði á meðgöngu og eftir barnsburð hafi mælanleg áhrif á

líkamlega heilsu (Gump o.fl., 2009; Ban o.fl., 2010), vaxtarþroska (Ertel o.fl., 2010; Gress-Smith o.fl.,

2012) og vitsmuna- og tilfinningaþroska barna (Beck, 1998; Brennan o.fl., 2000; Goodman o.fl., 2011;

Sohr-Preston og Scaramella, 2006). Alvarlegustu afleiðingar fæðingarþunglyndis eru svo þær að

móðirin skaði sjálfa sig eða barn sitt (Lee og Chung, 2007). Konur sem þurfa meðferð við krónísku eða

endurteknu þunglyndi rekja oft upptök sjúkdóms sín til fæðingarþunglyndis (Thome, 2000).

Ómeðhöndlað fæðingarþunglyndi getur því leitt til þráláts þunglyndis.

2.6 Mælitæki – Kembileit/skimun

Fæðingarþunglyndi getur reynst erfitt að greina. Í alvarlegum tilfellum fer það oft ekki fram hjá neinum

að hin nýbakaða móðir þarfnast aðstoðar en oft er það ekki svo augljóst, hvorki hvað varðar

heilbrigðisstarfsfólk, maka og fjölskyldu eða móðurina sjálfa. Konur sem þjást af fæðingarþunglyndi

skammast sín oft fyrir líðan sína og fyrir það að bera ekki tilætlaðan hlýhug til barns síns. Sumar reyna

Page 17: Gildi hreyfingar sem hluti af meðferð og... · er, hvers konar hreyfingu er um að ræða, tíðni, tíma og ákefð? Þar að auki er markmið ritgerðarinnar að kanna afstöðu

6

jafnvel að leyna vandanum og þá getur verið erfitt fyrir heilbrigðisstarfsfólk að bera kennsl á þær konur

sem þjást andlega eftir barnsburð (Eberhard-Gran o.fl., 2014). Fæðingarþunglyndiskvarðar eru

hannaðir með það í huga að auðvelda heilbrigðisstarfsfólki vinnuna svo mæður ungra barna þurfi ekki

að þjást í hljóði.

Hanusa og félagar (2008) báru saman og mátu skilvirkni þriggja helstu matskvarðanna sem notaðir

eru til að skima fyrir fæðingarþunglyndi. Kvarðarnir voru Edinborgar þunglyndiskvarðinn (e. Edinburgh

Postnatal Depression Scale, EPDS), depurðarkvarðinn (e. Patient Health Questionnaire, PHQ-9) og

fæðingarþunglyndisskimunarkvarðinn (e. Postpartum Depression Screening Scale, PDSS) (Hanusa,

o.fl., 2008). Samkvæmt niðurstöðunum hentar Edinborgar þunglyndiskvarðinn best til að skima eftir

fæðingarþunglyndi. Fyrir utan að vera áreiðanlegur og nákvæmur fylgir honum sá kostur að það tekur

stuttan tíma að fylla hann út, hann inniheldur aðeins 10 spurningar, er ókeypis fyrir rannsakendur og

hefur verið þýddur á 23 tungumál (Hanusa ofl., 2008).

Þegar Edinborgar þunglyndiskvarðinn er notaður í rannsóknum er nokkuð misjafnt hvaða

viðmiðunarmörk eru notuð. Sannreynd viðmiðunarmörk eru 12–13 stig eða fleiri af 30 til að greina

alvarlega geðlægð í kjölfar barnsburðar en til að telja með væga geðlægð eða hugsanlegt þunglyndi

mæla höfundar kvarðans með því að notuð séu 9–10 stig eða fleiri sem viðmiðunarmörk (Matthey o.fl,

2006). EPDS er mest notaða matstækið fyrir fæðingarþunglyndi í dag en erfiðlega hefur reynst að

bera saman rannsóknir á réttmæti hans vegna misleitni í rannsóknum (Gibson o.fl., 2009).

2.7 Hreyfing

Umræðan um kosti hreyfingar og gildi hennar sem forvörn gegn alls kyns sjúkdómum, ekki síst þeim

sem tengjast óheilbrigðum lífstíl, hefur líklega ekki farið framhjá neinum. Embætti landlæknis í

samvinnu við helstu sérfræðinga á sviði hreyfingar hér á landi hafa gefið út ráðleggingar um hreyfingu

fólks á öllum aldri. Þar kemur meðal annars fram að hreyfing dragi úr líkum á hjarta- og

æðasjúkdómum, sykursýki af tegund 2, sumum tegundum krabbameins, stoðkerfisvandamálum og

geðröskunum (Lýðheilsustöð, 2008). Því er óhætt að segja að hreyfing sé mikilvæg og geti aukið

lífslíkur og bætt lífsgæði fólks.

Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt fram á jákvæð áhrif hreyfingar á þunglyndi, bæði hvað varðar

forvarnir og sem bráða meðferð og langtímameðferð. Hins vegar hafa margar samantektargreinar um

áhrif hreyfingar á þunglyndi sett spurningarmerki við gæði þeirrar aðferðafræði sem notuð er við

rannsóknirnar. Gögn skortir um langtímaárangur og hugsanlega er því um ofmat á áhrifum

hreyfingarinnar að ræða. Á meðan beðið er eftir frekari hágæðarannsóknum er þó hægt að fullyrða,

byggt á fyrirliggjandi gögnum, að hreyfing samhliða annarri meðferð hafi góð áhrif á þunglyndi

(Cooney o.fl., 2013; Daley, 2008; Kjellman o.fl., 2010).

Kostir þess að hreyfa sig á meðgöngu og eftir barnsburð eru fjölmargir. Markmið hreyfingar á

meðgöngu eru meðal annars að auka vellíðan verðandi móður, draga úr meðgöngutengdum

óþægindum á borð við mjóbaksverki og bjúg og minnka líkur á meðgöngueitrun, háþrýstingi og

meðgöngusykursýki (Rahl, 2010; Wadsworth, 2007).

Kostir þess að hreyfa sig eftir fæðingu eru til dæmis aukin orka og betra skap, afslappaðra

samband og betri tengslamyndun móður og barns og minni kvíði og þunglyndi. Þar að auki getur

Page 18: Gildi hreyfingar sem hluti af meðferð og... · er, hvers konar hreyfingu er um að ræða, tíðni, tíma og ákefð? Þar að auki er markmið ritgerðarinnar að kanna afstöðu

7

hreyfing hindrað aðskilnað kviðbeins (m. rectus abdominis) um hvítalínu (linea alba), bætt stjórn á

þvagblöðru, stuðlað að þyngdartapi eftir meðgöngu og minna tapi á beinmassa af völdum brjóstagjafar

(Rahl, 2010).

Rannsóknir hafa einnig sýnt að óhætt er að hreyfa sig hvað varðar mjólkurframleiðslu og hefur

hreyfing því ekki neikvæð áhrif á vöxt og þroska ungabarnsins (Rahl, 2010). Þó er mælt með því að

barninu sé gefið brjóst fyrir líkamsrækt (Lýðheilsustöð, 2008; Rahl, 2010)

2.7.1 Ráðleggingar um hreyfingu kvenna á meðgöngu

Í ráðleggingum Lýðheilsustöðvar og Landlæknisembættisins varðandi hreyfingu almennings er að

finna sérstakan kafla um hreyfingu kvenna á meðgöngu. Barnshafandi konum er ráðlagt að hreyfa sig

í minnst 30 mínútur daglega af miðlungsákefð en heildartímanum má skipta í nokkur styttri tímabil yfir

daginn, til dæmis 10–15 mínútur í senn. Í ráðleggingunum er sérstaklega fjallað um mikilvægi þess að

þjálfa grindarbotnsvöðva á meðgöngu og eftir fæðingu og að markmið þjálfunarinnar eigi að snúast um

að viðhalda styrk og getu en ekki bæta við hana (Lýðheilsustöð, 2008). American College of Sports

Medicine (ACSM) eru ein stærstu samtök í heiminum á sviði íþróttalækninga og þjálfunarvísinda.

Þeirra helsta markmið er að stuðla að og samþætta vísindarannsóknir til að veita sem bestar

ráðleggingar og hagnýtan fróðleik varðandi þjálfun og líkamlega virkni. Ráðleggingar American

College of Sports Medicine um þjálfun barnshafandi kvenna má sjá í töflu 2 (Rahl, 2010).

Tafla 2. Ráðleggingar ACSM frá 2010 um þjálfun barnshafandi kvenna.

Tíðni Ákefð Tími Tegund

Loftháð þjálfun Að lágmarki 3

sinnum í viku en

helst alla daga

vikunnar.

Miðlungs ákefð

(40–60% VO2R),

geta haldið uppi

samræðum á

meðan þjálfun

stendur eða 12–

14 stig af 20 á

Borg-kvarða fyrir

áreynslu.

Að lágmarki 15

mín. á dag til að

byrja með en

auka upp í 30

mín. Samtals

150 mín/viku.

Kraftmikil,

taktföst líkamleg

hreyfing sem

tekur til allra

stærstu

vöðvahópa

líkamans.

Styrktarþjálfun Ekki tilgreint. Mótstaða sem

leyfir margar

endurtekningar

sem leiðir til

hæfilegrar/

miðlungs þreytu.

12–15

endurtekningar.

Hreyfing sem

tekur til allra

stærstu

vöðvahópa

líkamans.

Forðast ætti

jafnlengdar (e.

isometric)

vöðvasamdrátt.

Page 19: Gildi hreyfingar sem hluti af meðferð og... · er, hvers konar hreyfingu er um að ræða, tíðni, tíma og ákefð? Þar að auki er markmið ritgerðarinnar að kanna afstöðu

8

2.7.2 Ráðleggingar um hreyfingu kvenna eftir barnsburð

Lítið er til af sérstökum ráðleggingum um hreyfingu kvenna eftir barnsburð samanborið við það magn

af upplýsingum sem til er um þjálfun kvenna á meðgöngu. Þessi skortur á ráðleggingum stafar ef til vill

af því að erfitt er að alhæfa um þjálfun að barnsburði loknum því taka verður mið af þjálfunarástandi

fyrir og meðan á meðgöngu stóð, hvernig fæðingin gekk og hversu lengi konan er að jafna sig ásamt

þáttum sem tengjast umönnun barnsins, svo sem brjóstagjöf, þreyta og takmarkaður svefn.

Í ráðleggingum Lýðheilsustöðvar og Landlæknisembættisins segir að konur sem eiga að baki

eðlilega meðgöngu ættu að geta stundað miðlungserfiða hreyfingu, svo sem göngu, strax eftir

fæðingu. Flestar konur geti svo stundað alla hefðbundna hreyfingu 6–8 vikum eftir fæðingu

(Lýðheilsustöð, 2008).

American College of Sports Medicine gefur út ráðleggingar um hreyfingu kvenna fyrsta árið eftir

fæðingu. Þær má sjá í töflu 3. Þar segir að konur geti byrjað að hreyfa sig um 4–6 vikum eftir

barnsburð. Vöðvateygjur, grindarbotnsþjálfun, öndunar- og slökunaræfingar geti hafist hafist strax eftir

fæðingu en byrja ætti rólega á kviðæfingum (Rahl, 2010).

Tafla 3. Ráðleggingar ACSM frá 2002 um þjálfun kvenna eftir barnsburð.

Tíðni Ákefð Tími Dæmi

Loftháð þjálfun Að lágmarki 3

sinnum í viku

en helst alla

daga vikunnar.

Miðlungs; geta

haldið uppi

samræðum á

meðan þjálfun

stendur eða 70–

85% HRmax.

15 mín., bæta 5

mín. við í hverri

viku.

Hreyfing með

barninu, t.d. ganga

með

barnavagn/kerru.

Styrktarþjálfun Ekki tilgreint. Ekki tilgreint. Ekki tilgreint. Æfingar þar sem

nota má barnið

sem mótstöðu og

grindarbotnsþjálfun.

Upphitun og

niðurkæling

Ekki tilgreint. Ekki tilgreint. 5–10 af hvoru. Ekki tilgreint.

2.8 Forvarnir og snemmtæk íhlutun

Þunglyndi á meðgöngu er, eins og áður hefur komið fram, sterkur áhættuþáttur fyrir

fæðingarþunglyndi. Því skipta forvarnir og snemmtæk íhlutun miklu máli fyrir þær konur sem eiga

hættu á að upplifa kvíða og þunglyndi á meðgöngu og eftir barnsburð og er til mikils að vinna ef hægt

er að greina vandann snemma og takast á við hann. Í ljósi þess hafa vísindamenn kannað hvort

hreyfing á meðgöngu geti dregið úr líkum á þunglyndi eftir barnsburð.

Framkvæmdar hafa verið fimm slíkar rannsóknir, ein slembiröðuð samanburðarrannsókn, þrjár

langtímarannsóknir og ein þversniðsrannsókn. Tvær þeirra sýndu fram á tengsl milli hreyfingar á

meðgöngu og minni hættu á fæðingarþunglyndi (Sexton, o.fl., 2012; Söngøygard o.fl., 2012). Í

rannsókn Söngøygard og félaga (2012) áttu þessar niðurstöður þó eingöngu við afmarkaðan hóp

Page 20: Gildi hreyfingar sem hluti af meðferð og... · er, hvers konar hreyfingu er um að ræða, tíðni, tíma og ákefð? Þar að auki er markmið ritgerðarinnar að kanna afstöðu

9

kvenna sem ekki var líkamlega virkur fyrir meðgöngu. Hinar þrjár, allt athugunarrannsóknir, gátu ekki

sýnt fram á að hreyfing á meðgöngu drægi úr líkum á fæðingarþunglyndi (Demissie, o.fl., 2013;

Downs, o.fl., 2008; Ersek og Huber, 2009). Þrátt fyrir það sáu Downs og félagar (2008), í samræmi við

það sem Söngøygard og félagar fundu út, að þær konur sem hreyfðu sig fyrir meðgöngu voru síður

líklegar til að fá fæðingarþunglyndi en þær sem ekkert hreyfðu sig. Þrátt fyrir takmarkanir gefa

niðurstöður þessara rannsókna einhverjar vísbendingar um gagnsemi hreyfingar fyrir og á meðgöngu

við að draga úr líkum á fæðingarþunglyndi en rík krafa er um frekari rannsóknir á þessu sviði.

Þótt meðganga sé alla jafna ekki talin heppilegasti tíminn til að hefja umfangsmikið

líkamsræktarátak eru þessir níu mánuðir sem kona gengur með barn tími mikilla breytinga og flestar

verðandi mæður gera einhverjar breytingar á sínum lífsstíl í þágu fóstursins. Þungaðar konur eru oft

meðtækilegar fyrir fræðslu um heilbrigðan lífsstíl og oft viljugar til að huga betur að heilsunni, til dæmis

með bættu mataræði og aukinni hreyfingu. Heilbrigðisstarfsfólk á heilsugæslustöðvum hittir konurnar

reglulega í gegnum mæðra- og ungbarnaeftirlit og er því í lykilstöðu varðandi áhrif og hvatningu til

hreyfingar.

Evenson og félagar (2009) könnuðu hvaða þættir það eru sem bæði stuðla að og hindra hreyfingu

kvenna eftir fæðingu. Fimm hundruð og þrjátíu konur svöruðu spurningarlista bæði 3 og 12 mánuðum

eftir fæðingu. Um 90% kvennanna fannst hreyfing viðeigandi bæði 3 og 12 mánuðum eftir fæðingu,

jafnvel þótt þær væru með börn sín á brjósti. Þeir þættir sem höfðu hvað mest hindrandi áhrif voru

tímaskortur og vandamál varðandi barnapössun. Stuðningur maka og löngun til að líða betur voru þeir

þættir sem stuðluðu mest að því að konur hreyfðu sig. Mikilvægt er að hafa þessa þætti í huga fyrir þá

sem sjá um þjálfun kvenna eftir barnsburð svo hægt sé að útbúa þjálfunaráætlun sem skilar hvað

mestum árangri.

Page 21: Gildi hreyfingar sem hluti af meðferð og... · er, hvers konar hreyfingu er um að ræða, tíðni, tíma og ákefð? Þar að auki er markmið ritgerðarinnar að kanna afstöðu

10

3 Efni og aðferðir

Kerfisbundin leit af ritrýndum heimildum stóð yfir frá september 2013 til mars 2014. Gjaldgengar voru

þær rannsóknir þar sem mat var lagt á áhrif hreyfingar á geðheilsu kvenna eftir barnsburð og hún

borin saman við annars konar meðferð eða enga meðferð. Hreyfing var skilgreind samkvæmt ACSM

sem skipulögð, endurtekin líkamleg virkni af einhverju tagi með það að markmiði að bæta eða

viðhalda líkamlegri hæfni (Rahl, 2010). Geðheilsa kvennanna þurfti að vera metin með gildum

mælitækjum/matskvörðum. Skilyrði var að rannsóknirnar væru framkvæmdar á konum á aldrinum 16

til 45 ára og á tímabilinu 4 vikum til 12 mánuðum eftir barnsburð. Rannsóknirnar þurftu að hafa verið

birtar á síðustu 20 árum (1994–2014), ritaðar á íslenskri eða enskri tungu og af stigi eitt eða tvö af

fimm samkvæmt gæðatöflu Sackett (Sackett o.fl., 2000).

Við leitina voru eftirfarandi rafrænir gagnabankar notaðir: Leitir.is (leitar samtímis í gagnabönkum á

borð við ScienceDirect, ProQuest og Web of Science), PubMed, PEDro og Google Scholar. Notuð

voru eftirfarandi leitarorð: hreyfing, þjálfun, líkamleg virkni, fæðingarþunglyndi, postnatal depression,

postpartum depression, exercise, physical activity, mental health, physical therapy og randomized

controlled trial. Leitarorðin voru pöruð í mismunandi samsetningum fyrir hvern gagnabanka.

Heimildaskrár viðeigandi greina voru einnig skoðaðar sem og tengdar greinar innan rafrænu

gagnabankanna.

Við vinnslu ritgerðarinnar var einnig stuðst við upplýsingar úr viðtölum við fagaðila hjá Miðstöð

foreldra og barna varðandi hreyfingu kvenna með fæðingarþunglyndi. Fengið var upplýst samþykki

viðmælenda vegna viðtala (sjá fylgiskjal).

3.1 Dæmi um rafræna leit í Leitir.is

Leitarorðin postpartum depression og exercise gáfu 2.143 niðurstöður. Takmarkanir við leitina voru

ritrýndar greinar, birtar á síðustu 20 árum og ritaðar á ensku.

3.2 Val á rannsóknum og greining

Þær rannsóknir sem teknar voru með í samantektina voru slembiraðaðar og óslembiraðaðar

samanburðarrannsóknir ásamt einni hálf-tilraun (e. quasi experiment) með fyrir og eftir mælingu á

einum hóp. Heimildir sem upp komu við leitina voru skimaðar og þar þurftu að koma fram upplýsingar

um þátttakendur, íhlutun, þ.e.a.s. tegund, lengd og tíðni, hvaða mælitæki voru notuð og hvernig

niðurstöður voru metnar.

Page 22: Gildi hreyfingar sem hluti af meðferð og... · er, hvers konar hreyfingu er um að ræða, tíðni, tíma og ákefð? Þar að auki er markmið ritgerðarinnar að kanna afstöðu

11

4 Niðurstöður

Samtals fengust 4200 greinar við leit í gagnabönkum. Titlar og útdrættir greinanna voru skimaðir og

fækkaði þá greinunum niður í 100. Eftir nákvæmara mat á útdrætti þessara 100 greina stóðu uppi 33

greinar sem lesnar voru í heild. Að lokum voru það 10 greinar sem uppfylltu öll skilyrði fyrir þátttöku

(sjá mynd 1. af niðurstöðum heimildaleitar).

Til að bera saman rannsóknirnar voru upplýsingar um höfunda, útgáfuár, rannsóknarsnið, tilgang,

þátttakendur, íhlutun, samanburð og niðurstöður dregnar saman. Yfirlit yfir rannsóknirnar má sjá í töflu

4.

Mynd 1. Flæðirit yfir niðurstöður heimildaleitar.

4200 greinar komu upp við

leit í gagnabönkum.

Titlar 4200 greina skimaðir.

33 greinar metnar í heild

sinni með tilliti til skilyrða fyrir

þátttöku.

10 greinar uppfylltu öll

skilyrði til þátttöku.

4100 greinar útilokaðar eftir

skimun á titli og útdrætti.

Nákvæmara mat á útdrætti

100 greina.

67 greinar útilokaðar

Ástæða:

Ekki rannsókn á

tengslum hreyfingar og

fæðingarþunglyndis.

23 greinar útilokaðar

Ástæður:

Ekki íhlutunarrannsókn

(n=11).

Yfirlitsgreinar (n=4).

Rannsókn á áhrifum

hreyfingar fyrir fæðingu

(n=5).

Rannsókn enn í gangi

(n=3).

Page 23: Gildi hreyfingar sem hluti af meðferð og... · er, hvers konar hreyfingu er um að ræða, tíðni, tíma og ákefð? Þar að auki er markmið ritgerðarinnar að kanna afstöðu

12

Tafla 4. Yfirlit yfir þær rannsóknir þar sem skoðuð voru tengsl hreyfingar eftir barnsburð og fæðingarþunglyndis.

Höfundar Rannsóknar-

snið

Tilgangur Úrtak Íhlutun Samanburður Niðurstöður

Koltyn og

Schulters

(1997)

Slembiröðuð

samanburðar-

rannsókn

Kanna áhrif

hreyfingar á líðan

kvenna (skapsveiflur,

kvíða og þunglyndi)

eftir eingöngu 60

mínútna þjálfun

samanborði við

konur sem hreyfðu

sig ekki.

20 konur, 10 í

hvorum hóp.

Meðalaldur 30 ár.

Allar konurnar höfðu

alið barn 6–20 vikum

fyrir rannsóknina.

60 mínútna þjálfun; 10 mín.

upphitun, 30 mín. loftháð

dansþjálfun, 10 mín. dýnuæfingar

og 10 mín. niðurkæling. Ákefð

þjálfunarinnar var 60–70% af

hámarks hjartsláttartíðni.

60 mínútna hvíld.

Þátttakendur í

samanburðarhóp

sátu í rólegheitum í

herbergi án

utanaðkomandi

áreiti. Þeim var

útvegað lesefni og

máttu ekki sofna á

meðan hvíldinni stóð.

Kvíða- og

þunglyndiseinkenni

minnkuðu marktækt eftir

bæði líkamlega þjálfun og

hvíld. Að auki hafði

hreyfing jákvæð áhrif á

skapsveiflur og

þrótt/lífsorku.

Armstrong og

Edwards

(2003)

Slembiröðuð

samanburðar-

rannsókn

Bera saman velferð

kvenna sem upplifðu

fæðingarþunglyndi

hjá þeim sem fengu

líkamlega þjálfun og

félagslegan stuðning

við samanburðarhóp.

20 konur á aldrinum

21–30 ára sem

greinst höfðu með

fæðingarþunglyndi

(EPDS ≥ 12 stig), 10

í hvorum hóp. Allar

konurnar höfðu alið

barn 6 vikum til 12

mánuðum fyrir

rannsóknina og voru

metnar hæfar til að

stunda loftháða

líkamsþjálfun.

12 vikna þjálfunaráætlun.

Líkamleg þjálfun 3 sinnum í viku

sem samanstóð af göngu með

barnavagn/kerru (e. pram-

walking) í hóp, 30–40 mínútur í

senn af miðlungs ákefð (60–75%

af hámarks hjartsláttartíðni) ásamt

vöðvateygjum fyrir og eftir

gönguna.

Félagslegur stuðningur einu sinni

í viku. Þá hittust konurnar í kjölfar

þjálfunarinnar, fengu sér te,

spjölluðu og léku við börnin.

Samanburðar-

hópnum var boðið

stuðningsviðtal í

gegnum síma þegar

6 vikur voru liðnar af

rannsókninni.

Þátttakendum var

ráðlagt að viðhalda

sinni venjubundnu

hreyfingu og

félagslífi.

Líkamlegt form batnaði og

þunglyndis einkenni

minnkuðu verulega hjá

íhlutunarhóp samanborið

við viðmiðunarhóp. Ekki

var munur á milli hópa

hvað varðar áhrif

félagslegs stuðnings.

Page 24: Gildi hreyfingar sem hluti af meðferð og... · er, hvers konar hreyfingu er um að ræða, tíðni, tíma og ákefð? Þar að auki er markmið ritgerðarinnar að kanna afstöðu

13

Armstrong og

Edwards

(2004)

Slembiröðuð

samanburðar-

rannsókn

Kanna áhrif

gönguþjálfunar með

barnavagn/ kerru

samanborið við

félagslegan stuðning

til að draga úr

þunglyndiseinkennu

m kvenna eftir

barnsburð.

19 konur, meðalaldur

30 ár, sem greinst

höfðu með

fæðingarþunglyndi

(EPDS ≥ 12 stig), 9 í

íhlutunarhóp og 10 í

samanburðarhóp.

Allar konurnar höfðu

alið barn 6 vikum til

12 mánuðum fyrir

rannsóknina og voru

metnar hæfar til að

stunda loftháða

líkamsþjálfun.

12 vikna þjálfunaráætlun.

Konurnar hittust 2 sinnum í viku

ásamt því að þjálfa 1 sinni í viku

sjálfar. Þær æfðu í 40 mínútur í

senn af miðlungs ákefð (60–75%

af hámarks hjartsláttartíðni).

Samanburðar-

hópurinn hittist einu

sinni í viku, 90

mínútur í senn með

börn sín í

félagsmiðstöð á

svæðinu. Leikföng

voru fyrir börnin og

boðið var upp á

veitingar. Samveran

var mjög óformleg og

gátu mæðurnar rætt

um það sem þær

vildu og höfðu áhuga

á.

Verulega dró úr

þunglyndiseinkennum hjá

þátttakendum í

íhlutunarhóp og konurnar

bættu líkamlegt form sitt

töluvert samanborið við

þær sem eingöngu fengu

félagslegan stuðning frá

öðrum mæðrum í svipaðri

stöðu. Beint samband var

því á milli betra forms og

minni þunglyndis-

einnkenna. Útkoman var

hagstæðari fyrir íhlutunar-

hópinn, bæði eftir sex og

tólf vikna íhlutun.

Heh og

félagar (2008)

Óslembiröðuð

samanburðar-

rannsókn.

Þátttakendum

var skipt í tvo

hópa með því

að velja fyrst

þá konu sem

fæddi barn

fyrir hvað

skemmstum

tíma í

íhlutunar-

hópinn, næstu

í röðinni í

samanburðar-

hópinn og svo

til skiptis koll af

kolli.

Kanna áhrif

hreyfingar til að

draga úr fæðingar-

þunglyndi hjá konum

eftir barnsburð.

63 giftar frumbyrjur á

aldrinum 20–35 ára

sem fæddu barn sitt

eftir fulla meðgöngu

(38–42 vikur) á

eðlilegan hátt og

fengu 10 stig eða

fleiri á EPDS 4 vikum

eftir barnsburð luku

rannsókninni.

12 vikna þjálfunaráætlun sem

samanstóð af 60 mín. hópþjálfun

einu sinni í viku ásamt 2 x 60 mín.

þjálfun heima.

Í hópþjálfuninni voru gerðar léttar

liðkandi æfingar fyrir allan

líkamann.

Ákefð þjálfunarinnar ekki tekin

fram.

Þátttakendur fengu geisladisk

með þjálfunarleiðbeiningum,

bækling um fæðingarþunglyndi og

vikuleg símtöl til að auka

meðferðarheldni.

Samanburðarhópur

fékk hefðbundna

meðferð við

fæðingarþunglyndi.

Þeirri meðferð er ekki

lýst nánar.

Fimm mánuðum eftir

fæðingu voru hóparnir

bornir saman og fengu

konurnar í

íhlutunarhópnum lægri

stig á EPDS, þ.e.a.s.

hreyfing dró úr

fæðingarþunglyndi.

Page 25: Gildi hreyfingar sem hluti af meðferð og... · er, hvers konar hreyfingu er um að ræða, tíðni, tíma og ákefð? Þar að auki er markmið ritgerðarinnar að kanna afstöðu

14

Daley og

félagar (2008)

Slembiröðuð

samanburðar-

rannsókn

Kanna hvort hreyfing

henti sem inngrip við

fæðingarþunglyndi

og meta hvaða

aðferð er skilvirkust

til að fá konur eftir

barnsburð til að

hreyfa sig.

31 kona, flestar á

aldrinum 29–31 árs,

með barn yngra en

12 mánaða, sem

greinst höfðu með

fæðingarþunglyndi

(EPDS ≥ 12 stig) luku

rannsókninni.

12 vikna þjálfunaráætlun. Yfir

tímabilið fengu konurnar tvö

stuðnings- og hvatningarviðtöl

með ráðleggingum um hreyfingu,

hvernig takast ætti við það sem

getur hindrað hreyfingu, aðstoð

við markmiðasetningu og hvernig

viðhalda megi líkamlega virkum

lífsstíl. Konunum var ráðlagt að

hreyfa sig í að minnsta kosti í 30

mínútur á dag af miðlungs til

mikilli ákefð, fimm daga vikunnar.

Rannsakendur mæltu með göngu

með barnavagninn/kerruna ásamt

því að hreyfa sig án barnsins

þegar tækifæri gæfist.

Samanburðar-

hópurinn fékk

hefðbundna meðferð

við fæðingar-

þunglyndi og var

beðinn um að

viðhalda núverandi

þjálfunarmynstri.

Ekki var marktækur

munur á milli hópa með

tilliti til hreyfingar, þ.e.a.s

hvað konurnar hreyfðu sig

mikið, né útkomu á EPDS

þunglyndiskvarðanum.

Þessi íhlutun gagnaðist

ekki til að virkja konurnar

og fá þær til að hreyfa sig.

Dritsa og

félagar (2008)

Slembiröðuð

samanburðar-

rannsókn

Meta gagnsemi

heimaæfinga til að

draga úr líkamlegri-

og andlegri þreytu

hjá konum með

fæðingarþunglyndi.

88 konur, meðalaldur

33 ár, tóku þátt í

rannsókninni, 46 í

íhlutunarhóp og 42 í

samanburðarhóp

sem allar höfðu

fengið 10 stig eða

fleiri á EPDS

þunglyndiskvarðanu

m. Konurnar höfðu

allar alið barn 4–38

vikum fyrir

rannsóknina.

63 konur luku síðustu

eftirfylgninni.

12 vikna einstaklingsmiðuð

þjálfunaráætlun.

Íhlutunarhópurinn hitti

rannsakendur fjórum sinnum yfir

tímabilið. Konurnar fengu fræðslu

og ráðleggingar um gagnsemi

hreyfingar og hvernig fyrirbyggja

megi meiðsli. Fyrirmælin voru að

stunda loftháða þjálfun í 60–120

mínútur á viku af miðlungs ákefð,

byrja rólega, 60–70% af hámarks

hjartsláttartíðni, og auka svo

ákefðina þegar leið á rannsóknina

upp í 75–85%. Styrktar- og

teygjuæfingar voru einnig

ráðlagðar eftir þörfum hvers

þátttakanda.

Samanburðar-

hópurinn svaraða

eingöngu spurninga-

listum um þreytu,

fæðingarþunglyndi

og hreyfingu en fékk

engar ráðleggingar

né aðhald.

Niðurstöður voru á þá leið

að hreyfing dró úr

líkamlegri þreytu hjá

íhlutunarhópnum

samanborið við

viðmiðunarhópinn.

Höfundar gátu þó ekki

sýnt fram á að hreyfing

drægi úr andlegri þreytu

nema hjá þeim konum

sem voru minna líkamlega

þreyttar við upphaf

rannsóknarinnar.

Page 26: Gildi hreyfingar sem hluti af meðferð og... · er, hvers konar hreyfingu er um að ræða, tíðni, tíma og ákefð? Þar að auki er markmið ritgerðarinnar að kanna afstöðu

15

Da Costa og

félagar (2009)

Slembiröðuð

samanburðar-

rannsókn

Kanna hvort 12 vikna

þjálfunaráætlun fyrir

heimaæfingar

gagnist betur en

hefðbundin meðferð

til að létta á

þunglyndis-

einkennum hjá

konum eftir

barnsburð.

Sama og næsta fyrir

ofan.

Sama og næsta fyrir ofan. Sama og næsta fyrir

ofan.

Höfundar báru saman

niðurstöður úr tveimur

þunglyndiskvörðum hjá

báðum hópum og fengu

þær niðurstöður að

hreyfing væri gagnleg til

að létta á einkennum

fæðingarþunglyndis,

sérstaklega hjá þeim hópi

kvenna sem fengu hærri

stig á þunglyndis-

kvörðunum við upphaf

rannsóknarinnar.

Norman og

félagar (2010)

Slembiröðuð

samanburðar-

rannsókn

Meta áhrif

þjálfunaráætlunar frá

sjúkraþjálfara og

fræðslunámskeiðs

frá heilbrigðisstarfs-

fólki á andlega

velferð nýbakaðra

mæðra.

134 nýbakaðar

mæður á aldrinum

17–41 árs sem allar

höfðu alið barn 6 til

10 vikum fyrir

rannsóknina.

8 vikna þjálfunaráætlun.

Íhlutunarhópurinn hittist einu sinni

í viku í 60 mínútna hópþjálfun

með áherslu á úthalds- og

styrktarþjálfun af miðlungs til

mikilli ákefð sem stjórnað var af

sjúkraþjálfara. Í kjölfar

þjálfunarinnar sátu konurnar 30

mínútna þverfaglegan

fræðslufyrirlestur frá

sjúkraþjálfara, næringarfræðingi,

heilsusálfræðingi og ljósmóður.

Samanburðar-

hópurinn fékk

eingöngu skriflega

fræðslu um ýmislegt

sem tengist

umönnun ungabarns,

til dæmis hvernig

aðlagast megi nýjum

lífsstíl, samskiptum

við barnið, næringu

nýbakaðra mæðra,

ungbarnanudd,

sólarvörn fyrir barnið

og þroska barnsins.

Íhlutunarhópurinn fékk

marktækt færri stig á

þunglyndiskvörðum eftir

átta vikna þjálfun og

héldust áhrifin í fjórar

vikur eftir að þjálfun var

hætt.

Page 27: Gildi hreyfingar sem hluti af meðferð og... · er, hvers konar hreyfingu er um að ræða, tíðni, tíma og ákefð? Þar að auki er markmið ritgerðarinnar að kanna afstöðu

16

LeCheminant

og félagar

(2012)

Slembiröðuð

samanburðar-

rannsókn

Kanna áhrif

styrktarþjálfunar á

líkamssamsetningu,

trú á eigin getu,

þunglyndi og

líkamlega virkni

kvenna eftir

barnsburð.

44 konur sem allar

höfðu alið barn 6

vikum til 8 mánuðum

fyrir rannsóknina.

Aldur kvennanna var

ekki tilgreindur.

18 vikna þjálfunaráætlun.

Konurnar tóku þátt í

styrktarþjálfun 2 sinnum í viku,

ekki var tilgreint hversu lengi í

einu. 9 æfingar fyrir alla helstu

vöðvahópa líkamans. Hver æfing

framkvæmd 8–12 sinnum, 1–3

sett. Álagið jókst stig af stigi eftir

því sem leið á þjálfunartímabilið

og þjálfari var til taks einu sinni í

viku, frá viku 8–18.

Samanburðar-

hópurinn tók þátt í

liðleikaþjálfun 2

sinnum í viku í 18

vikur. Þátttakendur

gerðu 4 kyrrstöðu-

teygjuæfingar fyrir

hvern vöðvahóp

líkamans og héldu

teygjunni í 10–30

sekúndur. Ekki var

eftirlit með

liðleikaþjálfuninni.

18 konur greindust með

þunglyndiseinkenni (CES-

D ≥ 10) við upphaf

rannsóknar. Sjö af átta

eða 88% þátttakenda í

rannsóknarhópnum

greindust ekki lengur með

þunglyndiseinkenni við lok

rannsóknarinnar

samanborið við fimm af

tíu eða 50% kvennanna í

samanburðarhópnum. 10

konur voru greindar með

þunglyndi (CES-D ≥ 16), 4

í rannsóknarhóp og 6 í

samanburðarhóp. Við lok

rannsóknarinnar uppfylltu

allar konurnar fjórar í

rannsóknarhóp ekki

lengur greiningarskilmerki

þunglyndis (CES-D < 16)

samanborið við 3 af 6 í

samanburðarhóp.

Ko og félagar

(2013) - Hálf-tilraun.

- Einn hópur

fyrir og eftir

mælingu.

- Þæginda-

úrtak.

Meta skilvirkni

þjálfunaráætlunar

fyrir konur eftir

barnsburð til að

léttast, minnka þreytu

og draga úr

þunglyndis-

einkennum

23 konur sem allar

höfðu alið barn 2–6

mánuðum fyrir

rannsóknina.

Meðalaldur 34 ár.

12 vikna þjálfunaráætlun. Jóga-

og pilatesæfingaráætlun fyrir

konur eftir barnsburð var hönnuð

fyrir rannsóknina. Konurnar æfðu í

hóp einu sinni í viku, 60 mín. í

senn af lítilli ákefð.

Enginn

samanburðarhópur.

Hjá þeim konum sem

greindust með þunglyndi

fyrir íhlutun (CES-D ≥ 15)

dró hreyfingin marktækt úr

þunglyndiseinkennum.

Page 28: Gildi hreyfingar sem hluti af meðferð og... · er, hvers konar hreyfingu er um að ræða, tíðni, tíma og ákefð? Þar að auki er markmið ritgerðarinnar að kanna afstöðu

17

4.1 Þátttakendur og faraldsfræði

Rannsóknirnar tíu sem til athugunar voru komu út á tímabilinu 1997-2013 og var samanlagður fjöldi

þátttakenda 480 konur. Í átta tilvikum var um að ræða slembiraðaðar samanburðarrannsóknir

(Armstrong og Edwards, 2003; Armstrong og Edwards, 2004; Da Costa o.fl., 2009; Daley o.fl., 2008;

Dritsa o.fl., 2008; Koltyn og Schultes, 1997; LeCheminant o.fl., 2012; Norman o.fl., 2010) og tvær voru

hálf-tilraunir (e. quasi-experiment) (Heh o.fl., 2008; Ko o.fl., 2013).

Þrjár rannsóknir voru framkvæmdar í Ástralíu (Armstrong og Edwards, 2003; Armstrong og

Edwards, 2004; Norman o.fl., 2010), tvær í Bandaríkjunum (Koltyn og Schultes, 1997; LeCheminant

o.fl., 2012), tvær í Kanada (Da Costa o.fl., 2009; Dritsa o.fl., 2008), tvær í Tævan (Heh o.fl., 2008; Ko

o.fl., 2013) og ein í Bretlandi (Daley o.fl., 2008).

Í sex rannsóknum voru þátttakendur allt konur sem greindar höfðu verið með fæðingarþunglyndi

(Armstrong og Edwards, 2003; Armstrong og Edwards, 2004; Da Costa o.fl., 2009; Daley o.fl., 2008;

Dritsa o.fl., 2008; Heh o.fl., 2008), en í fjórum þeirra var það ekki skilyrði (Ko o.fl, 2013; Koltyn og

Schultes, 1997; LeCheminant o.fl., 2012; Norman o.fl, 2010). Í fimm rannsóknum er tilgreindur

meðalaldur þátttakendanna (Koltyn og Schultes, 1997; Armstrong og Edwards, 2004; Da Costa o.fl.,

2009; Dritsa o.fl., 2008; Ko o.fl., 2013), fjórar segja frá aldursbili þátttakenda (Armstrong og Edwards,

2003; Daley o.fl., 2008; Norman o.fl., 2010; Heh o.fl., 2008) og í einni grein eru engar upplýsingar um

aldur þátttakenda (LeCheminant o.fl., 2012). Algengast var að meðalaldur kvennanna væri 30 til 33 ár.

Allar konurnar í rannsóknunum tíu höfðu alið barn innan 12 mánaða fyrir rannsókn.

4.2 Íhlutun

Íhlutun tveggja rannsókna fólst í röskri göngu með barnavagn eða kerru (Armstrong og Edwards,

2003; Armstrong og Edwards, 2004). Í öðrum tveimur var boðið upp á einstaklingsmiðaða

þjálfunaráætlun með fyrirmælum um að stunda loftháða þjálfun, til dæmis göngu með barnavagn/kerru

og fjögur hvatningarviðtöl til að stuðla að meðferðarheldni (Da Costa o.fl., 2009; Dritsa o.fl., 2008). Ein

rannsókn bauð upp á einstaklingsmiðaða þjálfunaráætlun og tvö stuðningssamtöl í gegnum síma

(Daley o.fl., 2008). Úthalds- og styrktarþjálfun undir stjórn sjúkraþjálfara var íhlutun einnar rannsóknar

(Norman o.fl., 2010) og í annarri samanstóð íhlutunin eingöngu af 60 mínútna loftháðri dansþjálfun

(Koltyn og Schultes, 1997). Í þremur rannsóknum var íhlutunin ekki þolþjálfun eða fyrirmæli um slíka

þjálfun heldur létt liðleikaþjálfun (Heh o.fl., 2008), jóga og pilatesþjálfun (Ko o.fl., 2013) og

styrktarþjálfun (LeCheminant o.fl., 2012).

Misjafnt var þó hvort þátttakendur hreyfðu sig saman í hóp (Armstrong og Edwards, 2003; Ko o.fl.,

2013; Koltyn og Schultes, 1997; Norman o.fl., 2010), einir samkvæmt fyrirmælum (Da Costa o.fl.,

2009; Daley o.fl., 2008; Dritsa o.fl., 2008; LeCheminant o.fl., 2012) eða þessu var blandað saman

(Armstrong og Edwards, 2004; Heh o.fl., 2008).

Í þremur rannsóknum hófst þjálfunin 4 vikum eftir barnsburð (Da Costa o.fl., 2009; Dritsa o.fl.,

2008; Heh o.fl., 2008). Algengast var að þjálfun hæfist 6 vikum eftir barnsburð (Armstrong og

Edwards, 2003; Armstrong og Edwards, 2004; Koltyn og Schultes, 1997; LeCheminant o.fl., 2012;

Page 29: Gildi hreyfingar sem hluti af meðferð og... · er, hvers konar hreyfingu er um að ræða, tíðni, tíma og ákefð? Þar að auki er markmið ritgerðarinnar að kanna afstöðu

18

Norman o.fl., 2010). Í einni rannsókn hófst þjálfun tveimur mánuðum eftir barnsburð (Ko o.fl., 2013) og

í einni er ekki tilgreint hversu langt var liðið frá fæðingu þegar þjálfun hófst (Daley o.fl., 2008).

Tímalengd íhlutunarinnar var frá einni klukkustund (Koltyn og Schultes, 1997) upp í 18 vikur

(LeCheminant o.fl., 2012). Algengast var að íhlutunin stæði yfir í 12 vikur (Armstrong og Edwards,

2003; Armstrong og Edwards, 2004; Da Costa o.fl., 2009; Daley o.fl., 2008; Dritsa o.fl., 2008; Heh o.fl.,

2008; Ko o.fl., 2013).

Tíðni og ákefð þjálfunarinnar var nokkuð mismunandi eftir rannsóknum eða allt frá léttum liðkandi

æfingum af lítilli ákefð einu sinni í viku, 60 mínútur í senn, í þolþjálfun af miðlungs til mikilli ákefð

þrisvar sinnum í viku, 30–40 mínútur í senn.

Rannsóknarhópurinn var ýmist borinn saman við hóp kvenna sem fékk hefðbundna meðferð við

fæðingarþunglyndi (Daley o.fl., 2008; Heh o.fl., 2008), félagslegan stuðning (Armstrong og Edwards,

2004), hvíld (Koltyn og Schultes, 1997), aðra gerð af þjáflun, til dæmis teygjuæfingar (LeCheminant

o.fl., 2012) eða enga meðferð (Armstrong og Edwards, 2003; Da Costa o.fl., 2009; Dritsa o.fl., 2008;

Norman o.fl., 2010). Í einni rannsókn var enginn samanburðarhópur því um var að ræða hálf-tilraun

þar sem rannsóknarhópurinn var borinn saman við sjálfan sig fyrir íhlutun (Ko o.fl., 2013).

4.2.1 Tilgangur íhlutunarinnar

Tilgangur allra rannsóknanna var að meta hvort líkamleg hreyfing gæti dregið úr fæðingarþunglyndi

eða ákveðnum einkennum þess. Í tveimur rannsóknum voru áhrif annarrar íhlutunar á borð við

félagslegan stuðning og fræðslunámskeið könnuð samhliða hreyfingu (Armstrong og Edwards, 2003;

Norman o.fl., 2010). Tvær rannsóknir lögðu áherslu á þreytueinkenni (Dritsa o.fl., 2008; Ko o.fl., 2013).

Dritsa og félagar (2008) könnuðu sérstaklega hvort hreyfing hefði áhrif á þreytu meðal kvenna með

fæðingarþunglyndi og í rannsókn Ko og félaga (2013) voru áhrif hreyfingar á þreytu könnuð auk

annarra þátta.

4.3 Niðurstöður rannsóknanna

Níu af tíu rannsóknum sýndu jákvætt samband milli hreyfingar og fæðingarþunglyndis, þ.e.a.s.

hreyfing dró úr fæðingarþunglyndi eða einkennum þess (Armstrong og Edwards, 2003; Armstrong og

Edwards, 2004; Da Costa o.fl., 2009; Dritsa o.fl., 2008; Heh o.fl., 2008; Ko o.fl., 2013; Koltyn og

Schultes, 1997; LeCheminant o.fl., 2012; Norman o.fl., 2010). Í sjö af tíu rannsóknum voru niðurstöður

metnar með Edinborgar þunglyndiskvarðanum (Armstrong og Edwards, 2003; Armstrong og Edwards,

2004; Da Costa o.fl., 2009; Daley o.fl., 2008; Dritsa o.fl., 2008; Heh o.fl., 2008; Norman o.fl., 2010). Í

hinum þremur voru niðurstöður metnar með State-Trait Anxiety Inventory (STAI) og Profile of Mood

States (POMS) (Koltyn og Schultes, 1997) og The Center for Epidemiologic Studies Depression Scale

(CES-D), sem er þunglyndiskvarði fyrir almennt þunglyndi (Ko o.fl. 2013; LeCheminant o.fl., 2012).

Page 30: Gildi hreyfingar sem hluti af meðferð og... · er, hvers konar hreyfingu er um að ræða, tíðni, tíma og ákefð? Þar að auki er markmið ritgerðarinnar að kanna afstöðu

19

5 Umræður/umfjöllun

Markmið þessarar kerfisbundnu heimildasamantektar var að leita svara við fyrri

rannsóknarspurningunni: Getur hreyfing dregið úr fæðingarþunglyndi eða einkennum þess og þannig

nýst sem hluti af meðferð? Af niðurstöðum samantektarinnar má draga þá ályktun að hreyfing hafi

líklega góð áhrif á fæðingarþunglyndi en ekki er hægt að fullyrða frekar um málið, meðal annars vegna

fárra rannsókna og takmarkana í þeim rannsóknum sem teknar voru til athugunar.

Aðhald og eftirfylgni er hugsanlega mikilvæg fyrir þennan hóp því í einu rannsókninni sem ekki

tókst að sýna fram á jákvæð áhrif hreyfingar samanstóð íhlutunin af 12 vikna æfingaáætlun sem

konurnar áttu að framkvæma heima og yfir tímabilið fengu þær einungis tvö stuðnings- og

hvatningarviðtöl í gegnum síma (Daley o.fl., 2008). Sem hugsanlega skýringu á niðurstöðunum bentu

rannsakendur á að erfitt er að ná til og vekja löngun þunglyndra kvenna til að hreyfa sig ásamt því sem

íhlutunin var að öllum líkindum ekki nægilega öflug, aðhaldið var, með öðrum orðum, of lítið.

5.1 Takmarkanir

Fara þarf varlega við að túlka niðurstöður rannsóknanna í þessari samantekt, meðal annars vegna

takmarkana þeirra. Þátttakendur voru fáir og í nokkrum rannsóknum var ekki eingöngu verið að meta

áhrif hreyfingar á fæðingarþunglyndi. Í sumum rannsóknum var ekki sérstaklega sóst eftir þátttöku

kvenna með fæðingarþunglyndi, í öðrum voru þátttakendur ekki greindir með fæðingarþunglyndi

samkvæmt greiningarviðmiðum og misjafnt var hvaða viðmiðunarmörk rannsakendur notuðu.

Eftirfylgni var stutt og í nokkrum rannsóknum var úrtakið konur sem buðu sig fram til þátttöku og voru

því hugsanlega viljugri en aðrar konur til að þiggja aðstoð og svara meðferð.

Erfitt var að bera rannsóknirnar saman vegna misræmis í þjálfunaráætlunum. Einnig vantaði

upplýsingar um meðferðarheldni, þ.e.a.s. hversu mikið konurnar hreyfðu sig í raun miðað við það sem

lagt var upp með. Í flestum rannsóknunum æfðu konurnar saman í hóp og því ekki hægt að vita fyrir

víst hvort árangur meðferðarinnar sé aukinni hreyfingu eða auknum félagslegum samskiptum að

þakka.

5.2 Viðtöl við heilbrigðisstarfsfólk

Til að svara síðari rannsóknarspurningunni tók ég viðtöl við Önnu Maríu Jónsdóttur, geðlækni, og

Stefaníu B. Arnardóttur, sérfræðing í hjúkrun, sem báðar eru hluti af teymi heilbrigðisstarfsfólks hjá

Miðstöð foreldra og barna. Fagfólk í heilbrigðisþjónustu og félagsþjónustu vísar fjölskyldum til dæmis

þangað. Teymið sinnir meðal annars konum með fæðingarþunglyndi og ef tengslavandi gerir vart við

sig milli foreldris og barns.

Stefanía hafði þetta að segja þegar hún var spurð að því hvort hreyfing væri ráðlögð samhliða

meðferðinni sem þær veita:

Ég spyr oft: Hvað gerir þú til að bæta líðan? Og ef hreyfing er eitt af því þá styð ég við það. Ef

þær eru ekki að hreyfa sig neitt bendi ég þeim á mömmujóga sem margar fara í og finnst það

hjálplegt. Auðvitað getur kvíðinn bæði haft áhrif á löngun og getu til að taka þátt en bara það að

fara út og vera þátttakandi í þessu getur skipt máli. Ef þær eru mjög illa settar eða finnst þær

Page 31: Gildi hreyfingar sem hluti af meðferð og... · er, hvers konar hreyfingu er um að ræða, tíðni, tíma og ákefð? Þar að auki er markmið ritgerðarinnar að kanna afstöðu

20

varla komast út úr húsi þá ráðleggjum við þeim að ganga bara einn hring í kringum húsið eða

niður götuna, bara byrja stutt. Auðvitað mættum við kannski setja meiri fókus á hreyfinguna en

þetta er samt einn þáttur sem við leggjum áherslu á. Það eru alltaf þessir grunnþættir; hreyfing,

svefn og næring sem við leggjum mikla áherslu á. (Stefanía B. Arnardóttir munnleg heimild, 4.

apríl 2014)

Miklar breytingar verða á meðgöngu og við það að eignast barn, bæði innri og ytri. Stefanía

ráðleggur mæðrum að gefa sér þann tíma sem þær þurfa til að kynnast barninu áður en þær gera

kröfu til sín um að vera komnar af stað í hreyfingu. „Við viljum að barnið fái þetta ákveðna rými fyrstu

vikurnar og tölum svolítið um að fyrstu þrír mánuðirnir séu svona eins og fjórði partur meðgöngunnar,

barnið er að kynnast lífinu og mamman að kynnast barninu og vera aðgengileg. Nú, ef konurnar

treysta sér til að fara út er það í lagi en ef þær langar það ekki er það í lagi líka (Stefanía B. Arnardóttir

munnleg heimild, 4. apríl 2014).“

Anna María tók í sama streng og hafði þetta að segja um hlutverk hreyfingar við

fæðingarþunglyndi: „Ég mæli með hreyfingu við alla sem ég fæ til mín vegna þunglyndis og ég segi

alltaf að það eru þrjár meðferðir eða þrennt sem hefur áhrif, það er hreyfing, lyf og viðtalsmeðferð

(Anna María Jónsdóttir munnleg heimild, 4. apríl 2014).“ Ef um alvarlegt þunglyndi er að ræða er fólk

oft svo þreklaust og framtakslaust þannig það hefur sig ekki af stað. Þá geta lyfin hjálpað til að byrja

með. Hreyfingin getur svo viðhaldið batanum og hugsanlega flýtt fyrir því að viðkomandi geti hætt á

lyfjum eða komið í veg fyrir að einkennin kom til baka þegar lyfjatöku er hætt (Anna María Jónsdóttir

munnleg heimild, 4. apríl 2014). „Ef líkamlegir kvillar gera vart við sig í kjölfar meðgöngu eins og

grindargliðnun eða konurnar eiga erfitt með að hreyfa sig er hreyfing stundum ekki valkostur til að

byrja með. Þegar þær þurfa meðhöndlun út af stoðkerfiseinkennum þá vísa ég þeim til sjúkraþjálfara

eftir fæðinguna og þá fá þær stuðning þar (Anna María Jónsdóttir munnleg heimild, 4. apríl 2014).“

„Við hvetjum þær til að fara með börnin sín með sér í hreyfingu, til dæmis út að ganga, í

mömmujóga og svo ég segi þeim oft frá Hreyfilandi á Eiðistorgi (Anna María Jónsdóttir munnleg

heimild, 4. apríl 2014).“ Anna María og Stefanía mæla ekki með líkamsræktartímum þar sem börnin

eru ekki í nálægð við móðurina. Þar er oft spiluð tónlist sem getur valdið barninu óþægindum og

tímarnir hafa það ekki að markmiði að móðir og barn njóti samvista hvort við annað. Anna María fjallar

að auki um að fara verði varlega og segir:

Börn skjólstæðinga okkar eru stundum svolítið viðkvæm af því þau hafa átt erfiða byrjun og þola

því ekki þannig aðstæður. Mæðurnar geta kannski ekki gert hvað sem er og munum við fagna

því að hafa gott úrræði til að vísa þeim í. Við myndum virkilega þurfa á því að halda því það

finnst okkur vera frábær leið til að efla samskiptin, koma mömmunni út, hitta aðrar mæður og

fyrir barnið að hitta aðra. (Anna María Jónsdóttir munnleg heimild, 4. apríl 2014)

Þegar þær Anna María og Stefanía voru spurðar hvort þær telji hreyfiseðil vera gagnlegan fyrir

þennan hóp kvenna sögðust þær telja að hreyfiseðlar myndu að öllum líkindum gagnast einhverjum

hluta þeirra. Hins vegar þurfi margir skjólstæðingar þeirra líklega meira aðhald og eftirfylgni. Enn sem

komið er, er mjög lítil reynsla af notkun seðilsins fyrir konur með fæðingarþunglyndi og þær telja

tímann eiga eftir að leiða gagnsemi hans í ljós (Anna María Jónsdóttir og Stefanía B. Arnardóttir

munnleg heimild, 4. apríl 2014).

Page 32: Gildi hreyfingar sem hluti af meðferð og... · er, hvers konar hreyfingu er um að ræða, tíðni, tíma og ákefð? Þar að auki er markmið ritgerðarinnar að kanna afstöðu

21

Viðtölin gáfu innsýn í stöðuna hér á landi varðandi vægi hreyfingar í meðferð við

fæðingarþunglyndi. Hjá Miðstöð foreldra og barna er hreyfing alltaf ráðlögð en oft þarf að efla tengsl

móður og barns og vinna úr ákveðnum vanda áður en konurnar treysta sér til að stunda einhverja

líkamsrækt. Þær Anna María og Stefanía hafa mikla trú á hreyfingu og telja hana gagnlega fyrir

þennan viðkvæma hóp. Konur sem þjást af fæðingarþunglyndi fá stuðning og hvatningu til að halda

áfram í sinni hreyfingu. Ef sú hreyfing hentar ekki lengur eða ef þær hafa ekki verið líkamlega virkar fá

þær aðstoð við að finna ný úrræði (Stefanía B. Arnardóttir munnleg heimild, 4. apríl 2014).

5.3 Hlutverk sjúkraþjálfara

Hlutverk sjúkraþjálfara varðandi þjálfun kvenna með fæðingarþunglyndi gæti falist í fræðslu og ráðgjöf

varðandi hvaða þjálfun er heppileg eftir barnsburð, hvað ber að leggja áherslu á í þjálfuninni og hvað

ber að varast ásamt því að veita andlegan stuðning og hvatningu. Því til viðbótar er sérsvið

sjúkraþjálfara að greina hreyfitruflanir og færniskerðingar og væri þá einnig hægt að meðhöndla

stoðkerfisvandamál ef þau gera vart við sig í kjölfar meðgöngu og fæðingar. Rannsóknir gefa

vísbendingu um að þjálfunarástand fyrir meðgöngu skipti máli varðandi líkurnar á þunglyndi eftir

barnsburð (Downs, o.fl. 2008; Söngøygard o.fl., 2012). Hlutverk sjúkraþjálfara snýr því ekki síður að

forvörnum með fræðslu til kvenna á barneignaraldri um mikilvægi hreyfingar bæði í tengslum við

andlega og líkamlega heilsu.

Í samstarfi við heilsugæsluna mætti nýta hreyfiseðla sem nýlega voru gerðir hluti af almennri

heilbrigðisþjónustu og vísa konum, sem þangað leita vegna kvíða og depurðar á meðgöngu og eftir

fæðingu, á hreyfingu í samráði við sjúkraþjálfara. Í samstarfi við aðrar heilbrigðisstéttir gætu

sjúkraþjálfarar orðið hluti af þverfaglegu teymi til að byggja upp heildræna meðferð sem nýtist þessum

hópi skjólstæðinga hvað best. Sjúkraþjálfarar eiga því fullt erindi í að bæta líðan kvenna með

fæðingarþunglyndi.

Page 33: Gildi hreyfingar sem hluti af meðferð og... · er, hvers konar hreyfingu er um að ræða, tíðni, tíma og ákefð? Þar að auki er markmið ritgerðarinnar að kanna afstöðu

22

6 Samantekt og lokaorð

Hreyfingarleysi og tíðni lífstílssjúkdóma hafa aukist síðustu áratugi. Samkvæmt Lýðheilsustöð (2008)

benda kannanir til þess að meirihluti fullorðinna hreyfi sig ekki í samræmi við ráðleggingar um

hreyfingu. Konur sem eiga ung börn standa hugsanlega frammi fyrir viðameiri hindrunum en

almenningur því litla barnið kallar á mikla athygli, tíma og orku. Til að virkja konur með

fæðingarþunglyndi til að hreyfa sig þurfa heilbrigðisstarfsmenn og aðrir sem sinna þjálfun að hafa

augun opin hvað varðar þá innri og ytri þætti sem bæði hindra og hvetja konurnar til hreyfingar.

Mikilvægi forvarna er ótvírætt og oft og tíðum hægt að gera umtalsvert betur en nú er gert á því

sviði. Með heilsueflingu og fræðslu er vonandi hægt að gera hreyfingu hluta af heilbrigðum lífsstíl

stærri hóps kvenna á barneignaraldri því rannsóknir gefa vísbendingu um að hreyfing fyrir meðgöngu

hafi forvarnargildi þegar kemur að fæðingarþunglyndi. Jafnframt er mikilvægt að hvetja barnshafandi

konur, sem oft eru tilbúnar til að setja heilsu sína og fóstursins í forgang, til að viðhalda eða jafnvel

auka líkamlega virkni í samræmi við ráðleggingar heilbrigðisstarfsfólks. Hreyfing hefur fjölmarga

heilsutengda kosti í för með sér fyrir konur eftir barnsburð, bæði andlega og líkamlega. Foreldar eru

fyrirmyndir barna sinna og með virkum lífsstíl er hægt að hafa áhrif á komandi kynslóðir og sporna við

slæmum áhrifum kyrrsetu.

Þrátt fyrir takmarkaðan fjölda rannsókna á þessu sviði og annmarka þeirra gefa niðurstöðurnar

vísbendingar og veita ákveðinn grunn fyrir framtíðarrannsóknir að byggja á til að kanna samband

hreyfingar og fæðingarþunglyndis. Hreyfing skiptir máli, er öllum nauðsynleg og mikilvægur hluti af

heilbrigðum lífsstíl.

6.1 Framtíðarrannsóknir

Nokkrar spennandi rannsóknir á sambandi hreyfingar og fæðingarþunglyndis standa nú yfir (Daley

o.fl., 2012; Kernot o.fl., 2013; Lewis o.fl. 2012) og sýnir það aukinn áhuga á málefninu og þörfina á

fleiri gæðarannsóknum.

Framtíðarrannsóknir um gildi hreyfingar sem hluta af meðferð við fæðingarþunglyndi ættu að hafa

takmarkanir fyrri rannsókna til hliðsjónar og hafa fleiri þátttakendur, íhlutunina hreyfingu sem viðbót við

hefðbundna meðferð, lengri eftirfylgni en tíðkast hefur og konur greindar með fæðingarþunglyndi

samkvæmt greiningarskilmerkjum. Einnig væri áhugavert að kanna hvernig þjálfun er heppilegust fyrir

konur með fæðingarþunglyndi með tilliti til tegundar, magns og ákefðar og hvort einstaklingsþjálfun

eða þjálfun í hóp henti betur.

Page 34: Gildi hreyfingar sem hluti af meðferð og... · er, hvers konar hreyfingu er um að ræða, tíðni, tíma og ákefð? Þar að auki er markmið ritgerðarinnar að kanna afstöðu

23

Heimildaskrá

Adams, S. S., Eberhard-Gran, M., Sandvik Å. R. og Eskild, A. (2012). Mode of delivery and

postpartum emotional distress: A cohort study of 55 814 women. BJOG An International Journal of

Obstetrics and Gynaecology, 119, 298–305.

American psychatric association (2013). Diagnostic and statistical manual of mental disorders (5.

útgáfa) Washington: Höfundur.

Armstrong, K. og Edwards, H. (2003). The effects of exercise and social support on mothers reporting

depressive symptoms: A pilot randomized controlled trial. International Journal of Mental Health

Nursing, 12, 130–138.

Armstrong, K. og Edwards, H. (2004). The effectiveness of a pram-walking exercise programme in

reducing depressive symptomatology for postnatal women. International Journal of Nursing

Practice, 10, 177–194.

Ban, L., Gibson, J. E., West, J. og Tata, L. J. (2010). Association between perinatal depression in

mothers and the risk of childhood infections in offspring: A population-based cohort study. BMC

Public Health, 10, 799–806.

Banti, S. Mauri, M. Oppo, A., Borri, C., Rambelli, C., Ramacciotti, D. o.fl. (2011). From the third month

of pregnancy to 1 year postpartum: Prevalence, incidence, recurrence, and new onset of

depression. Results from the perinatal depression-research & screening unit study.

Comprehensive Psychiatry, 52, 343–351.

Beck, C. T. (1998). The effects of postpartum depression on child development: A meta-analysis.

Archives of Psychiatric Nursing, 12, 12–20.

Beck, C. T. (2001). Predictors of postpartum depression: An update. Nursing Research, 50, 277–285.

Beck, C. T., og Indman, P. (2005). The many faces of postpartum depression. Journal of Obstetric,

Gynecologic & Neonatal Nursing , 34, 569–576.

Blom, E. A., Jansen, P. W., Verhulst, F. C., Hofman, A., Raat, H., Jaddoe, V. W. V., o.fl. (2010).

Perinatal complications increase the risk of postpartum depression: The Generation R study.

BJOG An International Journal of Obstetrics and Gynaecology, 117, 1390–1398.

Brennan, P. A., Hammen, C., Andersen, M. J., Bor, W., Najman, J. M. og Williams, G. M. (2000).

Chronicity, severity, and timing of maternal depressive symptoms: Relationships with child

outcomes at age 5. Developmental Psychology, 36(6), 759–766.

Cooney G. M., Dwan K., Greig, C. A., Lawlor D. A., Rimer J., Waugh F. R., McMurdo M. og Mead G.E.

(2013). Exercise for depression (Review). The Cochrane Library, 9, 1–157.

Da Costa, D., Lowensteyn, I., Abrahamowicz, M., Ionescu-Ittu, R., Dritsa, M., Rippen, N. o.fl. (2009). A

randomized clinical trial of exercise to alleviate postpartum depression mood. Journal of

Psychosomatic Obstetrics Gynecology, 30, 191–200.

Daley, A. J. (2008). Exercise and depression: A review of reviews. Journal of Clinical Psychology in

Medical Settings,15, 140–147.

Page 35: Gildi hreyfingar sem hluti af meðferð og... · er, hvers konar hreyfingu er um að ræða, tíðni, tíma og ákefð? Þar að auki er markmið ritgerðarinnar að kanna afstöðu

24

Daley, A. J., Jolly, K., Sharp, D. J., Turner, K. M., Blamey, R. V., Coleman, S. o.fl. (2012). The

effectiveness of exercise as a treatment for postnatal depression: Study protocol. BMC Pregnancy

and Childbirth, 12, 45–52.

Daley, A. J., Winter, H., Grimmett, C., McGuinness, M., McManus, R. og MacArthur C. (2008).

Feasibility of an exercise intervention for women with postnatal depression: A pilot randomised

controlled trial. British Journal of General Practice, 58, 178–183.

Demissie Z., Siega-Riz, A. M., Evenson, K. R., Herring, A. H., Dole, N. og Gaynes, B. N. (2013)

Physical activity during pregnancy and postpartum depressive symptoms. Midwifery, 29,139–147.

Downs D. S., DiNallo, J. M. og Kirner T. L. (2008). Determinants of pregnancy and postpartum

depression: Prospective influences of depressive symptoms, body image satisfaction, and

exercise behavior. Annals of Behavioral Medicine, 36, 54–63.

Dritsa, M., Da Costa, D., Dupuis, G., Lowensteyn, I. og Khalifé S. (2008). Effects of a home-based

exercise intervention on fatigue in postpartum depressed women: Results of a randomized

controlled trial. Annals of Behavioral Medicine, 35, 179–187.

Eberhard-Gran, M., Slinning, K. og Rognerud, M. (2014). Screening for postnatal depression: A

summary of current knowledge. Tidsskrift for Den norske legeforening,134(3), 297–301.

Ersek, J. L. og Huber, L. R. B. (2009). Physical activity prior to and during pregnancy and risk of

postpartum depressive symptoms. Journal of Obstetric, Gynecologic and Neonatal Nursing, 38,

556–66.

Ertel, K. A., Koenen, K. C., Rich-Edwards, J. W. og Gillman, M. W. (2010). Antenatal and postpartum

depressive symptoms are differentially associated with early childhood weight and adiposity.

Paediatric and Perinatal Epidemiology, 24, 179–189.

Evans, J., Heron, J., Francomb, H., Oke, S. og Golding, J. (2001). Cohort study of depressed mood

during pregnancy and after childbirth. British Medical Journal, 323, 257–260.

Evenson, K. R., Aytur, S. A. og Borodulin, K. (2009). Physical activity beliefs, barriers, and enablers

among postpartum women. Journal of women’s health, 18, 1925–1934.

Field, T. (2010). Postpartum depression effects on early interactions, parenting and safety practices: A

review. Infant Behavior and Development, 33(1), 1–9.

Gaillard, A., Strat, Y. L., Mandelbrot, L., Keïta, H. og Dubertret, C. (2014). Predictors of postpartum

depression: Prospective study of 264 women followed during pregnancy and postpartum.

Psychiatry Research, 215, 341–346.

Gaynes, B. N., Gavin, N., Meltzer-Brody, S., Lohr K. N., Swinson T., Gartlehner G. o.fl. (2005).

Perinatal depression: Prevalence, screening accuracy, and screening outcomes. Summary,

Evidence Report/Technology Assessment Number 119. Rockwille: US Department of Health and

Human Services, Agency for Healthcare Research and Quality Screening Outcomes. Sótt af:

http://archive.ahrq.gov/clinic/epcsums/peridepsum.pdf

Gibson, J., McKenzie-McHarg, K., Shakespeare, J., Price, J. og Gray, R. (2009). A systematic review

of studies validating the Edinburgh postnatal depression scale in antepartum and postpartum

women. Acta Psychiatrica Scandinavica, 119, 350–364.

Page 36: Gildi hreyfingar sem hluti af meðferð og... · er, hvers konar hreyfingu er um að ræða, tíðni, tíma og ákefð? Þar að auki er markmið ritgerðarinnar að kanna afstöðu

25

Goodman, S. H., Rouse, M. H., Connell, A. M., Broth M. R., Hall, C. M. og Heyward, D. (2011).

Maternal depression and child psychopathology: A meta-analytic review. Clinical Child and Family

Psychology Review, 14, 1–27.

Gress-Smith J. L., Luecken, L. J., Chalfant, K. L. og Howe, R. (2012). Postpartum depression

prevalence and impact on infant health, weight, and sleep in low-income and ethnic minority

women and infants. Maternal and Child Health Journal, 16, 887–893.

Gump, B. B. Reihman, J., Stewart, P., Lonky, E., Darvill, T., Granger, D. A. o.fl. (2009). Trajectories of

maternal depressive symptoms over her child’s life span: Relation to adrenocortical,

cardiovascular, and emotional functioning in children. Development and Psychopathology, 21,

207–225.

Hanusa, B. H., Scholle, S. H., Haskett, R. F., Spadaro, K. og Wisner, K. L. (2008). Screening for

depression in the postpartum period: A comparison of three instruments. Journal of Women's

Health, 17(4), 585–596.

Heh, S. S., Huang L. H, Ho, S. M., Fu, Y. Y. og Wang, L. L. (2008). Effectiveness of an exercise

support program in reducing the severity of postnatal depression in Taiwanese women. Birth, 35,

60–65.

Hendrick, V., Altshuler, L., Strouse, T. og Grosser, S. (2000). Postpartum and nonpostpartum

depression: Differences in presentation and response to pharmacologic treatment. Depression and

Anxiety, 11, 66–72.

Herring, S. J., Rich-Edwards, J. W., Oken, E., Rifas-Shiman S. L., Kleinman, K. P. og Gillman M. W.

(2008). Association of postpartum depression with weight retention 1 year after childbirth.

Obesity,16(6), 1296–1301.

Jolley, S. N., Elmore, S., Barnard, K. E., Darcy B., Carr D. B. (2007). Dysregulation of the

hypothalamic-pituitary-adrenal axis in postpartum depression. Biological Research For Nursing

8(3), 210–222.

Kernot, J., Olds, T., Lewis, L. K. og Maher, C. (2013). Effectiveness of a Facebook-delivered physical

activity intervention for post-partum women: A randomized controlled trial protocol. BMC Public

Health, 13, 518–524.

Kjellman, B., Martinsen, E., Taube, J. og Andersson, E. (2010). Depression. Í (Carl Johan Sundberg,

formaður), Physical activity in the prevention and treatment of disease (bls. 325–335). Sótt af:

http://fyss.se/wp-content/uploads/2011/06/24.-Depression.pdf

Ko, Y. L., Yang, C. L., Fang, C. L., Lee M. Y. og Lin, P. C. (2013). Community-based postpartum

exercise program. Journal of Clinical Nursing, 22, 2122–2131.

Koltyn, K. F. og Schultes, S. S. (1997). Psychological effects of an aerobic exercise session and a rest

session following pregnancy. The Journal of Sports Medicine and Physical Fitness, 37, 287–291.

LeCheminant, J. D., Hinman, T., Pratt, K. B., Earl, N., Bailey B. W., Thackeray, R. o.fl. (2012). Effects

of resistance training on body composition, self-efficacy, depression, and activity in postpartum

women. Scandinavian Journal of Medicine & Sience in Sports, 24, 414–421.

Page 37: Gildi hreyfingar sem hluti af meðferð og... · er, hvers konar hreyfingu er um að ræða, tíðni, tíma og ákefð? Þar að auki er markmið ritgerðarinnar að kanna afstöðu

26

Lee, D. T. og Chung T. K. (2007). Postnatal depression: An update. Best Practice & Research Clinical

Obstetrics and Gynaecology, 21(2), 183–191.

Lewis, B. A., Gjerdingen, D. K., Avery, M. D., Guo, H., Sirard, J. R., Bonikowske, A. R. o.fl. (2012).

Examination of a telephone-based exercise intervention for the prevention of postpartum

depression: Design, methodology, and baseline data from The Healthy Mom study. Contemporary

Clinical Trials, 33, 1150–1158.

Linda Bára Lýðsdóttir, Halldóra Ólafsdóttir og Jón Friðrik Sigurðarson. (2008). Fæðingarþunglyndi:

Algengi, afleiðingar og helstu áhrifaþættir. Sálfræðiritið - Tímarit sálfræðifélags Íslands, 13, 171–

185.

Lýðheilsustöð, (2008). Ráðleggingar um hreyfingu. Reykjavík: Lýðheilsustöð.

Matthey, S., Henshaw, C., Elliott, S. og Barnett, B. (2006). Variability in use of cut-off scores and

formats on the Edinburgh postnatal depression scale: Implications for clinical and research

practice. Archives of Women’s Mental Health, 9, 309–315.

Meltzer-Brody, S. (2011). New insights into perinatal depression: Pathogenesis and treatment during

pregnancy and postpartum. Dialogues in Clinical Neuroscience, 13(1), 89–100.

Murray, C. L. og Lopez, A. D. (1997). Alternative projections of mortality and disability by cause 1990–

2020: Global burden of disease study. The Lancet, 349, 1498–1504.

National Institute for Health and Clinical Excellence (NICE). (2007). CG45 Antenatal and postnatal

mental health: Clinical Management and Service Guidance. Sótt af:

http://www.nice.org.uk/nicemedia/pdf/CG045NICEGuidelineCorrected.pdf

Navarro, P., García-Esteve, L., Ascaso, C., Aguado, J., Gelabert, E. og Martín-Santos, R. (2008).

Non-psychotic psychiatric disorders after childbirth: Prevalence and comorbidity in a community

sample. Journal of Affective Disorders, 109, 171–176.

Norman, E., Sherburn, M., Osborne, R. H. og Galea, M. P. (2010). An exercise and education program

improves well-being of new mothers: A randomized controlled trial. Physical Therapy, 90, 348–

355.

O’Hara, M. W. og McCabe, J. E. (2013). Postpartum depression: Current status and future directions.

Annual Review of Clinical Psychology, 9, 379–407.

O’Hara, M. W. og Swain, A. M. (1996). Rates and risk of postpartum depression: A meta analysis.

International Review of Psychiatry, 8(1), 37–54.

Ólöf J. Elíasdóttir, Hildur Harðardóttir og Þórður Þórkelsson. (2010). Áhrif þyngdar verðandi mæðra á

meðgöngu, fæðingu og nýbura. Læknablaðið, 96(11), 691–696.

Rahl, R. L. (2010). Physical activity and health guidelines. Champaign: Human Kinetics.

Robertson, E., Grace, S., Wallington, T. og Stewart D. E. (2004). Antenatal risk factors for postpartum

depression: A synthesis of recent literature. General Hospital Psychiatry, 26, 289–295.

Sackett, D. L., Strauss, S. E., Richardson, W. S., Rosenberg, W. og Haynes, R. B. (2000). Evidence-

based medicine: How to practice and teach EBM (2. útgáfa). Edinburgh: Churchill Livingstone.

Page 38: Gildi hreyfingar sem hluti af meðferð og... · er, hvers konar hreyfingu er um að ræða, tíðni, tíma og ákefð? Þar að auki er markmið ritgerðarinnar að kanna afstöðu

27

Sexton, M. B., Flynn, H. A., Lancaster, C., Marcus, S. M., McDonough, S. C., Volling, B. L. o.fl. (2012).

Predictors of recovery from prenatal depressive symptoms from pregnancy through postpartum.

Journal of Womens Health, 21(1), 43–49.

Sohr-Preston, S. L. og Scaramella, L. V. (2006). Implications of timing of maternal depressive

symptoms for early cognitive and language development. Clinical Child and Family Psychology

Review, 9(1), 65–83.

Songøygard, K. M., Stafne, S. N., Evensen, K. A. I., Salvesen, K. Å., Vik, T. og Mørkved, S. (2012).

Does exercise during pregnancy prevent postnatal depression? ACTA Obstetricia et Gynecologica

Scandinavica, 91, 62–67.

Stowe, Z. N., Hostetter, A. L. og Newport J. (2005). The onset of postpartum depression: Implications

for clinical screening in obstetrical and primary care. American Journal of Obstetrics and

Gynecology, 192, 522–526.

Sword, W., Kurtz Landy, C., Thabane, L., Watt, S., Krueger, P., Farine, D., o.fl. (2011). Is mode of

delivery associated with postpartum depression at 6 weeks: A prospective cohort study. BJOG An

International Journal of Obstetrics and Gynaecology, 118, 966–977.

Thome, M. (2000). Predictors of postpartum depressive symptoms in Icelandic women. Archives of

Women's Mental Health, 3, 7–14.

Wadsworth, P. (2007). The benefits of exercise in pregnancy. The Journal for Nurse Practitioners, 3,

333–339.

Workman, J. L., Barha, C. K. og Galea L. A. M. (2012). Endocrine substrates of cognitive and affective

changes during pregnancy and postpartum. Behavioral Neuroscience 126(1), 54–72.

Zajicek-Farber, M. L. (2009). Postnatal depression and infant health practices among high-risk

women. Journal of Child and Family Studies,18, 236–245.

Page 39: Gildi hreyfingar sem hluti af meðferð og... · er, hvers konar hreyfingu er um að ræða, tíðni, tíma og ákefð? Þar að auki er markmið ritgerðarinnar að kanna afstöðu

28

Fylgiskjal

Upplýst samþykki vegna viðtala

Upplýsingar og upplýst samþykki vegna verkefnisins Hreyfing og

fæðingarþunglyndi, gildi hreyfingar sem hluti af meðferð til BS gráðu í sjúkraþjálfun,

unnið af Ösp Jóhannsdóttur.

Leiðbeinandi og ábyrgðarmaður verkefnisins:

Svandís Sigurðardóttir, lektor við Námsbraut í sjúkraþjálfun, HÍ

Stapi v/Hringbraut, 101-Reykjavík

Sími: 525 4006

Netfang: [email protected]

Verkefnið er lokaritgerð í sjúkraþjálfun við Háskóla Íslands. Með kerfisbundinni samantekt leitar

höfundur svara við fyrri rannsóknarspurningu verkefnisins: Getur hreyfing dregið úr fæðingarþunglyndi

eða einkennum þess og þannig nýst sem hluti af meðferð?

Ásamt því er markmið þessarar ritgerðar að kanna stöðuna hér á landi og svara síðari

rannsóknarspurningunni: Er hreyfing ráðlögð samhliða annarri meðferð við fæðingarþunglyndi, þá

hvernig tegund hreyfingar, tíðni, tími og ákefð? Þar að auki að kanna afstöðu meðferðaraðila til

hreyfingar, hvort þeir telji hana gagnlega og hvort hreyfiseðlar séu raunhæfur kostur fyrir þennan

sjúklingahóp til að auka vægi hreyfingar í meðferð við fæðingarþunglyndi.

Þær skoðanir, viðhorf og svör sem út úr viðtalinu koma verða ýmist notaðar sem munnleg heimild eða

sem beinar tilvitnanir, eftir því sem við á.

Undirrituð, Ösp Jóhannsdóttir, heiti því hér með að engin ummæli verði höfð eftir viðmælenda nema

sá hin sami hafi lesið það yfir og samþykkt.

_____________________________________ _________________

Ösp Jóhannsdóttir, 4. árs nemi í sjúkraþjálfun Dagsetning

Sími: 865 3538

Netfang: [email protected]

Page 40: Gildi hreyfingar sem hluti af meðferð og... · er, hvers konar hreyfingu er um að ræða, tíðni, tíma og ákefð? Þar að auki er markmið ritgerðarinnar að kanna afstöðu

29

Ég undirritaður/uð _________________________________________________ veiti Ösp

Jóhannsdóttur hér með leyfi til að nota upplýsingar úr viðtali sem fram fór þann:

_____________________ vegna verkefnisins Hreyfing og fæðingarþunglyndi, gildi hreyfingar sem

hluti af meðferð til BS gráðu í sjúkraþjálfun við Háskóla Íslands, enda fái ég tækifæri til að lesa yfir og

samþykkja þann texta.

_____________________________________ ________________

Undirskrift viðmælanda Dagsetning