27. maí lokaritgerðfeðlisleg... · 2015-07-01 · lífeðlisleg fæðing nálgun, ferli og...

34
Lífeðlisleg fæðing Nálgun, ferli og ávinningur Steinunn Rut Guðmundsdóttir Ritgerð til kandídatsprófs (8 einingar) í ljósmóðurfræði Námsbraut í ljósmóðurfræði

Upload: phamtruc

Post on 19-Mar-2019

228 views

Category:

Documents


0 download

TRANSCRIPT

Page 1: 27. maí lokaritgerðfeðlisleg... · 2015-07-01 · Lífeðlisleg fæðing Nálgun, ferli og ávinningur Steinunn Rut Guðmundsdóttir Ritgerð til kandídatsprófs (8 einingar)

Lífeðlisleg fæðing

Nálgun, ferli og ávinningur

Steinunn Rut Guðmundsdóttir

Ritgerð til kandídatsprófs (8 einingar) í ljósmóðurfræði

Námsbraut í ljósmóðurfræði

Page 2: 27. maí lokaritgerðfeðlisleg... · 2015-07-01 · Lífeðlisleg fæðing Nálgun, ferli og ávinningur Steinunn Rut Guðmundsdóttir Ritgerð til kandídatsprófs (8 einingar)

Lífeðlisleg fæðing Nálgun, ferli og ávinningur

Steinunn Rut Guðmundsdóttir

Ritgerð til kandídatsprófs í ljósmóðurfræði

Leiðbeinandi: Dr. Ólöf Ásta Ólafsdóttir

Hjúkrunarfræðideild

Námsbraut í ljósmóðurfræði

Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands

Júní 2015

Page 3: 27. maí lokaritgerðfeðlisleg... · 2015-07-01 · Lífeðlisleg fæðing Nálgun, ferli og ávinningur Steinunn Rut Guðmundsdóttir Ritgerð til kandídatsprófs (8 einingar)

Physiological birth Approach, process and benefit

Steinunn Rut Guðmundsdóttir

Thesis for a degree in Midwifery

Candidata Obstetriciorum

Advisor: Dr. Ólöf Ásta Ólafsdóttir

Faculty of Nursing

Department of Midwifery

School of Health Sciences

June 2015

Page 4: 27. maí lokaritgerðfeðlisleg... · 2015-07-01 · Lífeðlisleg fæðing Nálgun, ferli og ávinningur Steinunn Rut Guðmundsdóttir Ritgerð til kandídatsprófs (8 einingar)

Ritgerð þessi er til kandídatsprófs í ljósmóðurfræði og er óheimilt að afrita

ritgerðina á nokkurn hátt nema með leyfi rétthafa.

© Steinunn Rut Guðmundsdóttir 2015

Prentun: Háskólaprent

Reykjavík, Ísland 2015

Page 5: 27. maí lokaritgerðfeðlisleg... · 2015-07-01 · Lífeðlisleg fæðing Nálgun, ferli og ávinningur Steinunn Rut Guðmundsdóttir Ritgerð til kandídatsprófs (8 einingar)

4

Ágrip

Sjúkdóms- og tæknivæðing fæðingarinnar er ríkjandi þáttur innan barneignarþjónustunnar þrátt fyrir

aukna þekkingu á neikvæðum áhrifum óþarfa inngripa í eðlilegt ferli fæðinga. Margir hafa lýst yfir

áhyggjum af þessari þróun og leiðbeiningar um að fækka megi inngripum og stuðla að eðlilegum

fæðingum hafa komið út. Hugmyndafræði ljósmæðra byggir á því að fæðing sé lífeðlislegt ferli sem

ekki eigi að trufla með inngripum nema nauðsyn beri til.

Þetta verkefni er fræðileg útttekt á lífeðlisfræði fæðinga með áherslu á þann ávinning sem

lífeðlisleg nálgun í fæðingu hefur í för með sér fyrir móður og barn. Leitast var við að svara eftirfarandi

rannsóknarspurningum: Hver er ávinningur lífeðlislegrar nálgunar í fæðingu? Hvaða áhrif geta

utanbastsdeyfing og samdráttarörvun haft á lífeðlislegt ferli fæðinga? Hvernig er hægt að styðja við

lífeðlislegt ferli fæðinga?

Rannsóknir benda til þess að ávinningur lífeðlislegrar nálgunar felist í óhindruðu flæði meðgöngu-

og fæðingarhormóna sem stuðla að undirbúningi, framgangi fæðingar, verkjastillingu, vernd,

brjóstagjöf, virkjun verðlauna- og vellíðunarkerfis heilans og tengslamyndun við barnið. Líkur á

blæðingu eftir fæðingu, notkun inngripa og áhalda- og keisarafæðingu minnka og geta til að takast á

við verki eykst. Utanbastsdeyfing og örvun samdrátta með lyfjum trufla flæði fæðingarhormónanna og

auka líkur á fleiri inngripum. Sömuleiðis virðast koma fram neikvæð áhrif á; brjóstagjöf og líðan móður

og taugaþroska og heilsu barna til lengri tíma. Hægt er að styðja við lífeðlislegt ferli fæðinga með því

að huga að andrúmslofti og umhverfi fæðinga þar sem þekking, traust, öryggi og ró skipta höfuðmáli.

Aukin áhersla á lífeðlislegt ferli, nálgun og ávinning gæti verið lykillinn í baráttu gegn sjúkdóms- og

tæknivæðingu fæðingarinnar þar sem heilsa og velferð kvenna og barna er í forgrunni.

Page 6: 27. maí lokaritgerðfeðlisleg... · 2015-07-01 · Lífeðlisleg fæðing Nálgun, ferli og ávinningur Steinunn Rut Guðmundsdóttir Ritgerð til kandídatsprófs (8 einingar)

5

Abstract

The medicalization of birth is dominant in the childbirth service in spite of growing knowledge of

negative influences of unnecessary interventions in the normal process of birth. Many specialists in

the field have raised concerns over this development and various guidelines have been published on

how to support normal birth and keep the intervention rate down. Midwives consider birth to be a

physiological process that is not to be disturbed unless it is truly a necessety.

This is a literature review on the physiology of birth with a special emphasis on the benefit for

women and children of the physiological approach to birth. The research questions are: What are the

benefits of physiological approach to birth? What influence can epidural anesthesia and augmentation

have on the physiological process? In what ways can the physiological process be supported?

Research indicates that the uninterrupted flow of the pregnancy- and birth hormones is the

foundation of the benefit of physiological approach. The hormones promote labour process, pain relief,

protection and preparation, breastfeeding, attachment and activation of the pleasure and reward

system of the brain. Postpartum hemorrhage, the use of interventions and instrumental- and caesarian

births are also less likely to occur, and women´s ability to cope with pain increases. Epidural

anesthesia and augmentation interrupt the flow of the birth hormones and increase the chance of

more interventions. They also might have negative effect on breastfeeding, emotions, neurological

development and long-term health. Birth atmosphere and environment can support the physiological

process of birth, where knowledge, trust, safety and calmness play a key role.

More emphasis on physiological process, approach and benefit could be a key in the battle against

the medicalization of birth, with health and well-being of women and their children as the ultimate goal.

Page 7: 27. maí lokaritgerðfeðlisleg... · 2015-07-01 · Lífeðlisleg fæðing Nálgun, ferli og ávinningur Steinunn Rut Guðmundsdóttir Ritgerð til kandídatsprófs (8 einingar)

6

Þakkir

Ég vil þakka leiðbeinanda mínum Dr. Ólöfu Ástu Ólafsdóttur fyrir góða og hvetjandi leiðsögn við gerð

þessa lokaverkefnis. Einnig vil ég þakka öðrum kennurum við námsbraut í ljósmóðurfræði og

umsjónarljósmæðrum mínum þeim Árdísi Ólafsdóttur, Jennýju Árnadóttur, Jennýju Ingu Eiðsdóttur og

Stellu I. Steinþórsdóttur fyrir ómetanlegan stuðning, kennslu, innblástur og góð kynni. Heimilsmenn,

stórir og smáir, eiga þakkir skyldar og þá sérstaklega unnusti minn Haukur Ingvarsson fyrir jákvæðni

og hvatningu á ögurstundum, fyrir þolinmæði og þátttöku í endalausum vangaveltum um fæðingar og

ljósmóðurfræði. Honum þakka ég einnig yfirlestur á ritgerðinni. Að lokum vil ég þakka hollsystrum

mínum fyrir samfylgdina í gegnum súrt og sætt síðustu tvö ár.

Page 8: 27. maí lokaritgerðfeðlisleg... · 2015-07-01 · Lífeðlisleg fæðing Nálgun, ferli og ávinningur Steinunn Rut Guðmundsdóttir Ritgerð til kandídatsprófs (8 einingar)

7

Efnisyfirlit

Ágrip ........................................................................................................................................................ 4  Abstract ................................................................................................................................................... 5  Þakkir ...................................................................................................................................................... 6  Efnisyfirlit ................................................................................................................................................. 7  1   Inngangur ............................................................................................................................................ 8  2   Aðferðir ............................................................................................................................................. 11  3   Niðursöður ........................................................................................................................................ 12  

3.1  Lífeðlislegt ferli fæðingar ........................................................................................................... 12  3.1.1   Hormón ........................................................................................................................... 12  3.1.2   Sjálfkrafa upphaf fæðingar ............................................................................................. 14  3.1.3   Sjálfkrafa framgangur og fæðing barns og fylgju ............................................................ 16  3.1.4   Aðlögun nýbura .............................................................................................................. 17  

3.2  Áhrif inngripa á lífeðlislegt ferli fæðingar ................................................................................... 18  3.2.1   Utanbastsdeyfing ............................................................................................................ 19  3.2.2   Örvun með samdráttarlyfjum .......................................................................................... 20  

3.3  Stutt við lífeðlislegt ferli fæðinga ............................................................................................... 22  3.3.1   Umhverfi og stuðningur .................................................................................................. 22  3.3.2   Undirbúningur ................................................................................................................. 23  

4   Umræða ............................................................................................................................................ 26  Ályktanir ................................................................................................................................................. 28  Heimildaskrá .......................................................................................................................................... 29  

Page 9: 27. maí lokaritgerðfeðlisleg... · 2015-07-01 · Lífeðlisleg fæðing Nálgun, ferli og ávinningur Steinunn Rut Guðmundsdóttir Ritgerð til kandídatsprófs (8 einingar)

8

1 Inngangur Á 20. öld urðu miklar framfarir í lyfja- og læknavísindum og trú manna á vísindalega þekkingu jókst. Í

kjölfarið varð mikil breyting á starfsháttum heilbrigðiskerfa í hinum vestræna heimi og tæknivæðing

varð áberandi (Kristín Björnsdóttir, 2005). Áhrifa sjúkdóms- og tæknivæðingar fór einnig að gæta í

barneignarþjónustu snemma á síðustu öld með vaxandi fjölda spítalafæðinga og inngripa af ýmsum

toga (Donnison, 2012). Árið 1996 lýsti Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin [WHO] yfir áhyggjum sínum af

þessari þróun (WHO, 1996) en þrátt fyrir vitundarvakningu og vaxandi þekkingu á neikvæðum áhrifum

óþarfa inngripa á fæðingar hefur þeim haldið áfram að fjölga. Vitað er að eitt inngrip leiðir af öðru og

líkur á sjálfkrafa fæðingu um fæðingarveg minnka þegar inngripin hlaðast upp (Tracy, Sullivan, Wang,

Black og Tracy, 2007).

Þetta hefur leitt til þess að stefnumótandi aðilar og alþjóðasamtök á borð við WHO (1996) og

National Institue for Health and Care Excellence [NICE] (2014) hafa gefið út leiðbeiningar um það

hvernig megi fækka inngripum og stuðla að eðlilegum fæðingum. En ekki er þó með öllu ljóst hvað átt

er við með „eðlilegri fæðingu“. Hugtakið er gildishlaðið og það sem álitið er eðlilegt í einu samfélagi á

tilteknum stað og tíma gæti talist óeðlilegt í öðru samfélagi, tíma eða stað (Downe, 2006). Margir hafa

þó fært rök fyrir því að mikilvægt sé fyrir barneignarþjónustuna og notendur hennar að skilgreina

eðlilega fæðingu (Davis og Walker, 2011; Downe, 2006; Gould, 2000; Waldenström, 2007). Sífellt

meiri áhersla er lögð á gagnreynda þekkingu í heilbrigðisþjónustu í dag en í því felst að öll

ákvarðanataka á að byggja á bestu mögulegu þekkingu hverju sinni. Ulla Waldenström prófessor í

ljósmóðurfræði hefur bent á að til þess að geta vegið og metið árangur og gæði meðferða og inngripa í

fæðingarferlið sé nauðsynlegt að hafa ákveðið viðmið og skilgreina hvað átt sé við með inngripi og

fæðingu án nokkurra inngripa. Hún segir að gagnreynd þekking sé ekki alltaf höfð að leiðarljósi í

barneignarþjónustu eins og há tíðni keisaraskurða og utanbastsdeyfinga séu dæmi um og telur að ef

unnið væri í samræmi við gagnreynda þekkingu myndi tíðni eðlilegra fæðinga aukast (Waldenström,

2007). WHO skilgreinir eðlilega fæðingu sem sjálfkrafa fæðingu barns í höfuðstöðu á 37. - 42. viku

meðgöngu. Sótt hefst sjálfkrafa, áhætta er lítil í upphafi fæðingar og þar til hún er yfirstaðin, eftir

fæðingu heilsast móður og barni vel (WHO, 1996). Í skýrslum frá Fæðingarskráningu Landspítalans

eru fæðingar flokkaðar í þrjá flokka; eðlilegar fæðingar, áhaldafæðingar og keisarafæðingar

(Ragnheiður I. Bjarnadóttir, Guðrún Garðarsdóttir, Alexander K. Smárason og Gestur I. Pálsson,

2014). Eðlileg fæðing er ekki skilgreind frekar en leiða má líkum að því að átt sé við allar fæðingar

sem ekki enda með keisaraskurði eða áhaldafæðingu óháð því hvort önnur inngrip hafi komið við

sögu.

Vegna þeirra erfiðleika sem fylgja því að skilgreina og henda reiður á því hvað eðlileg fæðing felur í

sér hefur því verið velt upp hvort hentugra sé að notast við hugtakið „náttúruleg fæðing“. Það hugtak

er þó ekki síður gildishlaðið en „eðlileg fæðing“ og hefur mismunandi skilningur verið lagður í það; allt

frá fæðingu án verkjalyfja á sjúkrahúsi til fæðingar án allra læknisfræðilegra inngripa. Í skýrslu

Fæðingaskráningar fyrir árið 2010 má finna skilgreiningu á náttúrulegri fæðingu sem fæðingu án

eftirfarandi inngripa: framköllunar á fæðingu, örvunar með oxytosíni, mænurótardeyfingar,

spangarskurðs, áhalda og keisaraskurðs (Ragnheiður I. Bjarnadóttir o.fl., 2011). Umfjöllun um

Page 10: 27. maí lokaritgerðfeðlisleg... · 2015-07-01 · Lífeðlisleg fæðing Nálgun, ferli og ávinningur Steinunn Rut Guðmundsdóttir Ritgerð til kandídatsprófs (8 einingar)

9

náttúrulegar fæðingar byggir oft á því að innsæi konunnar ráði för því líkaminn viti hvernig eigi að fæða

barn. Margir hafa gagnrýnt þá eðlishyggju sem hugtakið felur í sér, að hinn náttúrulegi kvenlíkami

standi fyrir utan og verði ekki fyrir áhrifum af samfélagi og menningu (Darra, 2009). Hugtakið

náttúruleg fæðing tengist baráttu kvenna og femínistahreyfinga fyrir stjórn yfir eigin fæðingum,

mannúðlegri umönnun og lausn undan karllægri stjórn læknisfræðinnar. Aðrir hafa litið svo á að það

sé réttur hverrar konu að losna undan líkamlegum örlögum sínum og því sé konum í sjálfsvald sett að

nýta þá tækni sem er til staðar hverju sinni, hvort sem það snýr að notkun deyfinga í fæðingu eða að

kjósa keisaraskurð fremur en fæðingu (Kaufman, 2004). Becky Mansfield hefur fjallað um náttúrulegar

fæðingar út frá þeirri nálgun að allar fæðingar séu bæðu náttúrulegar og félagslegar. Hún rannsakaði

bækur sem skrifaðar hafa verið um nátttúrulegar fæðingar og komst að því að félagsleg vídd

hugtaksins náttúruleg fæðing væri áberandi í þeim. Hún færir rök fyrir því að hugtök sem tengjast

náttúrunni vísi alltaf til hugtaka um samfélag, með beinum eða óbeinum hætti. Í bókunum mátti greina

flóknari sýn á náttúrulegar fæðingar heldur en að náttúran eigi einfaldlega að fá að hafa sinn gang,

ekki er litið á getu kvenna til að fæða nátttúrulega sem eðlishvöt án félagslegs samhengis heldur eru

konur hvattar til að komast að því hvað það er sem þær þurfi til að geta tekist á við fæðingu

(Mansfield, 2008).

Aðrið hafa kosið að skilgreina fæðinguna út frá lífeðlisfræðilegu sjónarmiði og talað um lífeðlislega

fæðingu. Það hugtak hefur lítið verið rannsakað eða skilgreint en árið 2012 sendu samtök ljósmæðra í

Bandaríkjunum frá sér sameiginlega yfirlýsingu með það fyrir augum að skilgreina hugtakið. Þar segir

að lífeðlisleg fæðing sé í umhverfi sem stuðli að farsælli fæðingu, fari sjálfkrafa af stað og framgangur

sé einnig sjálfkrafa. Barn og fylgja fæðist um fæðingarveg og lífeðlislegt blóðtap eigi sér stað. Stuðlað

sé að kjöraðlögun nýburans eftir fæðing með ótruflaðri samveru móður og barns og húð við húð

snertingu þeirra eins fljótt eftir fæðingu og hægt sé. Ef þörf er á læknisfræðilegri meðferð eða inngripi

er einnig stutt við lífeðlislegt ferli fæðingarinnar á faglegan hátt og þannig stuðlað að bestu mögulegu

útkomu fyrir móður og barn (American College of Nurse- Midwives [ACNM], Midwives Alliance of North

America [MANA] og National Association of Certified Professional Midwives [NACPM], 2012). Til

samanburðar má líta á stefnuyfirlýsingu Ljósmæðrafélags Íslands:

Barneingarferlið er lífeðlislegt ferli sem ekki á að trufla með inngripum og tækni nema nauðsyn beri til. .... Áhætta af inngripinu verður að vera minni en áhættan af því að grípa ekki inn í ferlið. Rannsóknir hafa sýnt að öryggi við barnsburð er, þrátt fyrir allt, mest þegar um fæst inngrip er að ræða af hendi fagfólks í heilbrigðisþjónustunni. .... Rannsóknarniðurstöður hafa sýnt að sumt gerir ekki gagn og veldur jafnvel skaða (Ljósmæðrafélag Íslands, 2000).

Þessi yfirlýsing hefur verið mér hugleikin síðan ég hóf nám í ljósmóðurfræði og er í raun kveikjan

að þessu verkefni. Ég hef velt því fyrir mér hvers konar þekking liggi þarna að baki og hver

ávinningurinn af því sé að trufla ekki lífeðlislegt ferli. Það er grundvallaratriði fyrir ljósmæður að draga

þennan ávinning fram því hann er jú það sem hugmyndafræði þeirra byggir á. Það er einnig mikilvægt

að konur fái upplýsingar um það sem hefur áhrif á öryggi þeirra og heilsu í fæðingu þannig að þær geti

tekið upplýstar ákvarðanir og viti hvað sé í húfi. Af þessum sökum ákvað ég að gera fræðilega úttekt

um lífeðlislegar fæðingar. Byrjað verður á því að draga saman þekking sem liggur fyrir um lífeðlisfræði

fæðingarinnar og hormón tengdum henni. Fjallað verður um lífeðlislegan undirbúning í aðdraganda

Page 11: 27. maí lokaritgerðfeðlisleg... · 2015-07-01 · Lífeðlisleg fæðing Nálgun, ferli og ávinningur Steinunn Rut Guðmundsdóttir Ritgerð til kandídatsprófs (8 einingar)

10

fæðingar, fæðinguna sjálfa og aðlögun að henni lokinni. Því næst verður sjónum beint að tveimur

algengum læknisfræðilegum inngripum í fæðinguna; utanbastsdeyfingu og samdráttarörvun með

lyfjum og áhrif þeirra á lífeðlislegt ferli könnuð. Að lokum verður fjallað um þætti sem stuðla að og

styðja við lífeðlislegt ferli fæðinga og ávinningur þeirra reifaður. Leitast verður við að svara eftirfarandi

rannsóknarspurningum: Hver er ávinningur lífeðlislegrar nálgunar í fæðingu? Hvaða áhrif geta

utanbastsdeyfing og samdráttarövun haft á lífeðlislegt ferli fæðinga? Hvernig er hægt að styðja við

lífeðlislegt ferli fæðinga?

Page 12: 27. maí lokaritgerðfeðlisleg... · 2015-07-01 · Lífeðlisleg fæðing Nálgun, ferli og ávinningur Steinunn Rut Guðmundsdóttir Ritgerð til kandídatsprófs (8 einingar)

11

2 Aðferðir Verkefnið er fræðileg úttekt á lífeðlisfræði fæðingarinnar með áherslu á ávinning lífeðlislegrar nálgunar

í fæðingu, áhrif styðjandi þátta og læknisfræðilegra inngripa í ferlið.

Leitað var eftir heimildum í gagnasöfnum PupMed, Scopus, Chinal, Cochrane Database og Google

Scholar á tímabilinu nóvember 2014 til maí 2015. Kennslubækur í ljósmóður- og lífeðlisfræði voru

skoðaðar og einnig bækur sem fjalla um hugmyndafræði og barnsfæðingar frá mismunandi sjónarhóli.

Skýrslur frá samtökum og stofnunum um barneignir og á heilbrigðissviði voru einnig notaðar og

snjóboltaaðferðinni beytt þegar við átti. Leitin var takmörkuð við síðustu 10 til 15 ár og rannsóknir á

dýrum að mestu útilokaðar. Helst var leitað eftir samantektum og yfirlitsgreinum um lífeðlisfræði

fæðingarinnar til þess að fá heildarsýn yfir þá þekkingu sem er fyrir hendi. Leitað var eftir rannsóknum

og samantektum um áhrif lífeðlislegrar nálgunar og inngripa á lífeðlislegt ferli fæðinga. Hundruðir

greina fundust og því var ákveðið að notast við stórar kerfisbundnar samantektir og rannsóknir sem

skoðuðu sérstaklega áhrif á heilsu og velferð og bein lífeðlisleg áhrif. Einnig var ákveðið að takmarka

leitina við tvö algeng inngrip: utanbastsdeyfingu og örvun samdrátta með lyfjum til þess að hægt væri

að fara dýpra í efnið.

Notast var við leitarorðin: parturition, normal birth, natural birth, physioligal birth, midwifery,

oxytocin, endorphin, catecholamine, intervention, epidural analgesia, augmentation, epigenetics,

support, health promotion.

Page 13: 27. maí lokaritgerðfeðlisleg... · 2015-07-01 · Lífeðlisleg fæðing Nálgun, ferli og ávinningur Steinunn Rut Guðmundsdóttir Ritgerð til kandídatsprófs (8 einingar)

12

3 Niðursöður

3.1 Lífeðlislegt ferli fæðingar Þær líffræðilegu breytingar sem verða í líkama kvenna í fæðingu eru líklega þær mestu sem verða í

mönnum á lífsleiðinni – að minnsta kosti á svo skömmum tíma (Gaskin, 2003). Fullum skilningi á þeim

lífeðlislegu ferlum sem þarna spila saman hefur ekki verið náð en rannsóknir bæði á mönnum og

dýrum sýna að lífeðlisleg fæðing stuðli að mikilvægum ávinningi fyrir móður og barn (ACNM, MANA og

NACPM, 2012; Buckley, 2015; Odent, 2001). Mikilvægt er að hafa í huga að rannsóknir á fæðingum

eru oftast framkvæmdar í sjúkdómsvæddu umhverfi og segja okkur því ef til vill meira um það hvernig

líkami fæðandi konu bregst við þegar fylgst er með honum í sjúkrahúsumhverfi heldur en þær gera um

lífeðlisfræði fæðinga (Walsh, 2012).

Í þessum kafla verður fjallað um mikilvæga lífeðlislega ferla sem eiga sér stað í lok meðgöngu, í

fæðingu og eftir fæðingu en fyrst verður gerð grein fyrir helstu hormónum sem koma við sögu.

3.1.1 Hormón Hormón gegna lykilhlutverki í lífeðlisfræði fæðingarinnar. Hér verður fjallað um þrjú af mikilvægustu

fæðingarhormónunum; oxytosín, endorfín og katekólamín. Þau eru öll fyrst og fremst framleidd djúpt í

heilanum í svo kölluðu randkerfi heilans (e. limbic system) og í lífeðlislegri fæðingu vex styrkur þeirra

og nær hámarki þegar barnið fæðist, hjá bæði móður og barni (Buckley, 2015; Odent, 2001).

3.1.1.1 Oxytosín - ástarhormónið Árið 1906 uppgötvaði Sir Henry Dale að agnir frá aftari hluta heiladinguls í mönnum gætu dregið

saman legvöðvann í kettlingafullum læðum, þetta hormón fékk nafnið oxytosín (Arrowsmith og Wray,

2014). Oxytosín, eða ástarhormónið, eins og það er oft kallað, gegnir lykilhlutverki í fæðingu en stuðlar

einnig að vellíðan, umhyggju, trausti og minni streitu, hræðslu og kvíða. Það stuðlar að löngun til

umönnunar, hefur áhrif á minni, eykur líkamshita, minnkar verki og stuðlar að mjólkurlosun við

brjóstagjöf og er því gríðarlega mikilvægt í barneignarferlinu öllu (Buckley, 2015; Robertson, 2007;

Unväs-Moberg, 1998; Unväs-Moberg, Arn og Magnusson, 2005). Einnig hefur verið sýnt fram á að

oxytosín stuðli að væntumþykju og tengslamyndun í parasambandi og milli móður og barns (Carter,

1998). Til þess að geta haft áhrif á frumur og vefi þarf oxytosínið að bindast oxytosínviðtaka en þeir

finnast víðs vegar um líkamann í mismiklum mæli en mesta þéttnin er í randkerfi heilans, við mænuna,

hjartað, þarmana, í leginu og brjóstunum (Bell, Erickson og Carter, 2014).

Oxytosín er samsett úr níu amínósýrum. Það er framleitt í kjörnum undirstúkunnar og er bæði losað

út í blóðrás og miðlægt um ýmis svæði heilans fyrir tilstilli örvunar eins og þrýsting á grindarbotn,

brjóstagjöf, ljúfa snertingu, hlýju, lykt og jákvæð félagsleg samskipti. Magnocellular-taugar

undirstúkunnar flytja oxytosín til aftari hluta heiladinguls þaðan sem það er losað út í blóðrásina og

veldur samdráttum í legi og mjólkurlosun. Aðrar tegundir tauga í undirstúkunni, svo kallaðar

parvocellular-taugar, kvíslast um heilann og losa oxytosín staðbundið. Þessar oxytosíntaugar virðast

virka á svipaðan hátt hjá konum og karlmönnum (Arrowsmith og Wray, 2014; Unväs-Moberg, 1998;

Unväs-Moberg o.fl., 2005). Minna er vitað um hlutverk oxytosíns í heilanum en talið er að miðlæg

Page 14: 27. maí lokaritgerðfeðlisleg... · 2015-07-01 · Lífeðlisleg fæðing Nálgun, ferli og ávinningur Steinunn Rut Guðmundsdóttir Ritgerð til kandídatsprófs (8 einingar)

13

oxytosínlosun stuðli að félagslegri hegðun til dæmis kynferðislegri en jafnframt umönnun,

væntumþykju og tengslamyndun (Carter, 1998; Unväs-Moberg o.fl., 2005). Samkvæmt rannsóknum á

dýrum eykst virkni oxytosínviðtaka á meðgöngu á þeim stöðum í heilanum sem tengjast skap- og

streitustjórnun og tengslamyndunarhegðun (Bell o.fl., 2014). Rannsóknir á mönnum hafa einnig sýnt

fram á tengsl milli oxytosíns og móðurlegrar hegðunar eins og ástúðlegrar snertingar og tals,

augnsambands og næmi fyrir hegðun og merkjum barnsins (Gordon, Zagoory-Sharon, Leckman og

Feldman, 2010).

Oxytosín í blóði getur einnig örvað oxytosínlosun í heila og virkað á þann hátt bæði sem hormón og

taugaboðefni. Unväs-Moberg og félagar hafa rökstutt að oxytosín stuðli að svo kölluðu værðar- og

tenglsaviðbragði (e. calm and connection response) sem líkist flótta- og átakaviðbragðinu (e. fight or

flight). Í því felst að endurtekin losun oxytosíns hafi langverkandi áhrif, vegna þeirrar aðlögunar sem

verður á taugaboðefnakerfinu, á sama hátt og endurtekin losun streituhormóna veldur því að minna

áreiti þarf til að kalla fram streituviðbrögð. Mögulega einkennast viðhorf einstaklinga sem fá mikla hlýju

og umhyggju frekar af trausti og vinsemd vegna þess að heilinn í þeim hefur orðið fyrir áhrifum af

endurtekinni losun oxytosíns. Þau benda einnig á að heili ungbarna sé sérstaklega viðkvæmur fyrir

áreiti og treysti á líffræðilega og félagslega örvun (Unväs-Moberg o.fl., 2005). Rannsóknir á rottum

hafa sýnt að rottuungar sem fá mikla nærveru og snertingu frá mæðrum sínum á fyrstu vikunni eftir

fæðingu, hvort sem mæðurnar eru líffræðilegar mæður þeirra eða uppeldismæður, eru með fleiri

oxytosínviðtaka á ákveðnu svæði í heilanum sem fullorðnar rottur og þær sýna minni streitumerki og

sinna afkvæmum sínum betur en þær sem ekki hafa fengið eins gott atlæti (Champagne og Meaney,

2001).

Myndun oxytosíns á sér einnig stað í ýmsum vefjum líkamans eins og til dæmis í þekjuvef

legslímunnar á meðgöngu, gulbúinu, líknarbelgnum, fylgjunni og í eistum karlmanna (Arrowsmith og

Wray, 2014). Hlutverk oxytosíns í legslímu og belgjum er minna þekkt en vitað er að það stuðlar að

myndun prostaglandína sem auka samdrætti í leginu og þynningu og mýkingu leghálsins (Blanks og

Thornton, 2003).

3.1.1.2 Endorfín – náttúrulega verkjalyfið Beta-endorfín eða endorfín er samsett peptíð sem gegnir lykilhlutverki í verkjastillingu og

verðlaunakerfi heilans (e. brain reward center). Það er því eins konar náttúrulegt verkjalyf og hefur

svipaða virkni og ópíöt á borð við morfín. Endorfín er framleitt í heilastofni, taugaendum, í fylgjunni og

hjá barninu og losna fyrst og fremst við mikið álag. Oxytosín og prólaktín stuðla einnig að losun

endorfína. Endorfín virkja kröftuga losun dópamíns sem veitir ánægjutilfinningu og jafnvel alsælu.

Þessi tilfinning hvetur til þess að athafnir sem stuðla að slíkri losun séu endurteknar til dæmis að

nærast, stunda kynlíf, fæða barn, gefa brjóst og að sinna þörfum ungbarns (Buckley, 2015; Robertson,

2007).

Á meðgöngu eykst losun endorfína, hún eykst enn frekar í fæðingunni og nær hámarki í lok hennar.

Styrkur endorfíns í blóði móðurinnar lækkar á fyrstu klukkustundinni eftir fæðingu en miðlægur styrkur

(í heila) helst líklega hár í fleiri klukkustundir. Eftir fæðinguna getur samvera móður og barns, húð við

húð snerting og brjóstagjöf mögulega stuðlað að áframhaldandi endorfínlosun hjá móður og barni eins

Page 15: 27. maí lokaritgerðfeðlisleg... · 2015-07-01 · Lífeðlisleg fæðing Nálgun, ferli og ávinningur Steinunn Rut Guðmundsdóttir Ritgerð til kandídatsprófs (8 einingar)

14

og sýnt hefur verið fram á með dýrarannsóknum. Þannig heldur vellíðunar- og verðlaunatilfinning

áfram við umönnun barnsins. Framleiðsla endorfína minnkar einnig hjá barninu eftir fæðinguna en það

gæti stuðlað að því að barnið leitar eftir sambandi við móðurina. Í broddmjólkinni er endorfín sem

líklega hefur róandi og verkjastillandi áhrif á barnið ásamt því að setja verðalaunakerfi heilans af stað

(Buckley, 2015). Michel Odent orðar það svo að endorfíntoppar, sem verða við lífeðlislega fæðingu,

stuðli að eins konar fíkn móður og barns hvort í annað (Odent, 2001).

3.1.1.3 Katekólamín - streituhormónin Adrenalín og nor-adrenalín eru í flokki katekólamína en hér verður aðallega fjallað um það fyrr nefnda.

Katekólamín eru framleitt í nýrnahettum, heila, taugaendum og á ýmsum öðrum stöðum í líkamanum

og losna helst þegar við upplifum álag eða hræðslu og kvíða sem viðbrögð við ógnandi aðstæðum.

Þegar við lendum í slíkum aðstæðum undirbýr líkaminn sig fyrir flótta eða átök (e. fight or flight) og

flæði adrenalíns eykst. Líkaminn bregst við með því að hraða á hjartslætti og öndun og hækka

blóðsykur. Blóðflæði til innri líffæra, eins og meltingarfæra, minnkar en blóðflæði eykst til þeirra hluta

líkamans sem vinna líkamlegt erfiði, til dæmis stórra beinagrindarvöðva, hjarta, lungna og heila

(Gelder, Mayou og Gedds, 2005). Eðlileg losun katekólamína í fæðingu er nauðsynleg, hún stuðlar að

losun endorfína, ver barnið fyrir súrefnisskorti og stuðlar að lífeðlislegum ferlum hjá barninu sem

undirbúa það fyrir líf utan legsins (Smith, 2007). Í síðustu samdráttum fæðingarinnar nær magn

adrenalíns hámarki hjá móðurinni sem gefur henni aukna krafta og gerir það að verkum að hún er vel

vakandi þegar barnið fæðist og er tilbúin til að hefja tengslamyndun (Odent, 2001). Mjög mikil losun

katekólamína í fæðingu getur aftur á móti haft neikvæð áhrif og valdið minnkuðu blóðflæði til legsins

og barnsins vegna breytinga á forgangsröðun blóðflæðis, minnkaðri losun oxytosíns og þannig hægt á

framgangi fæðingar og valdið minni losun endorfína og aukinni sársaukaupplifun. Ógnandi aðstæður í

fæðingu gætu til dæmis verið ókunnugt umhverfi, ókunnugur umönnunaraðili eða miklir verkir

(Barholomew og Yerby, 2012; Gaskin, 2003; Robertson, 2007). Öll spendýr leita öruggs skjóls til að

fæða afkvæmi sín, sum velja sér umhverfi sem þau þekkja en önnur finna sér næði í felum. Þessi

hegðun varpar ljósi á það hversu viðkvæm og berskjölduð kvendýr eru í fæðingu (Buckley, 2015).

3.1.2 Sjálfkrafa upphaf fæðingar Atburðum sem leiða til fæðingar er hægt og rólega hrint af stað á meðgöngunni og erfitt er að festa

hendur á því hvað það er sem stýrir því ferli. Eftir því sem líður á meðgönguna verður hvíldarspenna í

vöðvafrumum legsins lægri þannig að hrifspenna næst á auðveldari hátt. Í fyrstu eru samdrættir í

legvöðvanum stuttir, tíðir og ósamstilltir en þegar nær dregur fæðingunni verða þeir kröftugri og

samstilltari. Þessi aukna samstilling verður vegna myndunar á tengibrúm (e. gap-junctions) milli

vöðvaþráða sem hleypa kalsíum jónum og merkjum um raförvun yfir til næstu vöðvafrumu og þannig

berast boð um afskautun og samdrátt hratt frá einni frumu til annarrar. Einnig verður 50 földun á

oxytosínviðtökum á vöðvafrumum legsins í lok meðgöngunnar og því eykst næmi fyrir oxytosínflæði.

Tengibrýrnar myndast í lok meðgöngu en þeim fjölgar og þær stækka í upphafi fæðingarinnar fyrir

tilstilli estrógena, prostaglandína og melatóníns (Coad og Dunstall, 2011; McNabb, 2012).

Oxytosínviðtakar í miðtaugakerfinu eru líka virkjaðir fyrir eða í fæðingu sem getur útskýrt hlutverk og

mikilvægi miðlægs oxytosíns í hegðun móður og aðlögun eftir fæðingu (Arrowsmith og Wray, 2014).

Page 16: 27. maí lokaritgerðfeðlisleg... · 2015-07-01 · Lífeðlisleg fæðing Nálgun, ferli og ávinningur Steinunn Rut Guðmundsdóttir Ritgerð til kandídatsprófs (8 einingar)

15

Á meðgöngunni er prógesterón í miklu varnarhlutverki. Það viðheldur vöðvaslökun í leginu og

heldur oxytosínviðtökum óvirkum. Prógesterónið bælir einnig ónæmis- og bólgusvörun á meðgöngunni

og heldur prostaglandínum í skefjum. Þegar líður á meðgönguna dregur úr framleiðslu prógesteróns

og prostaglandín ná yfirhöndinni. Prostaglandín stuðla að samdráttum í leginu og niðurbroti á bandvef

í leghálsi og belgjum en það á sér oft stað á síðustu þremur vikum meðgöngunnar (McNabb, 2012;

Robertson, 2007). Styrkur prostaglandína er mjög lágur á meðgöngu eða 100 sinnum lægri en í

venjulegum tíðahring en eykst svo hratt í kringum viku 36. Viðhald þungunar veltur að einhverju leyti á

þáttum sem hamla myndun prostaglandína en ekki er þó víst hvort prostaglandín eigi beinan þátt í því

að marka upphaf fæðingar (Coad og Dunstall, 2011).

Upphaf fæðingar virðist einnig tengjast þroska fylgjunnar og þá sérstaklega virkjun á geni sem

tengist framleiðslu CRF (e. corticotropin-releasing hormone) í fylgjunni. Styrkur CRF í blóði móður fer

stigvaxandi í lok meðgöngu og nær hámarki í fæðingunni. Sterahormón ýta undir tjáningu CRH

gensins og framleiðslu CRH í fylgjunni. Frá fylgjunni fer vaxandi styrkur CRH út í blóðrás móður og

barns og hefur þar víðtæk áhrif en viðtakar fyrir CRH eru í heiladingli, nýrnahettum og legvöðva hjá

móður og í heiladingli, nýrnahettum og líklega lungum hjá barninu. Þegar CRH örvar heiladingul

barnsins eykst framleiðsla corticotrópíns sem leiðir til losunar cortisóls frá nýrnahettunum sem stuðlar

að lungnaþroska barnsins. Aukinn styrkur cortisóls hjá barninu hvetur svo til aukinnar framleiðslu á

CRH í fylgjunni og gefur henni þannig merki um að undirbúningur fyrir fæðingu sé hafinn. Við

lungnaþroskann eykst framleiðsla surfaktant próteina sem fara út í legvatnið og í líknarbelginn þar sem

þau stuðla að myndun prostaglandína, þau stuðla svo að enn frekari prostaglandín framleiðslu í

vöðvafrumum legsins. Það er því um að ræða einhvers konar gagnvirkt kerfi (e. feed-forward) milli

móður og barns sem veldur stigvaxandi framleiðslu á CRH í fylgjunni þegar líður á meðgönguna og

fyrir tilstilli flókina ferla er fæðingunni hrundið af stað. Einnig geta bæði álag og sýkingar ýtt þessum

ferlum í gang (Smith, 2007).

Enginn vafi er á því að oxytosín er mikilvægt í fæðingunni sjálfri en óvíst er hvort eða hversu stórt

hlutverk það spilar í því að koma fæðingu af stað. Oxytosínmagn í blóði er lágt fyrir fæðingu og virðist

ekki hækka sérstaklega fyrr en fæðing er hafin. En það getur verið villandi að horfa aðeins á styrk

oxytosíns í blóði þar sem gríðarleg fjölgun oxytosínviðtaka verður í lok meðgöngu og því mikil aukning

á næmi (Coad og Dunstall, 2011). Viðtakarnir verða einnig virkari eftir að fæðing fer af stað,

sérstaklega í legbotninum (efri hluta legsins) sem stuðlar að enn kröftugri samdrætti þar heldur en í

neðri hluta legsins og framgangi barnsins niður fæðingarveginn. Það er því ekki ólíklegt að fjöldi,

staðsetning og virkjun oxytosínviðtaka hafi meiri áhrif á upphaf og framgang fæðingar en styrkur

oxytosíns í blóði (Mitchell og Schmid, 2001).

Þó að þekking á upphafi fæðingar verði sífellt meiri og nákvæmari þá er það og verður okkur

eflaust áfram hulin ráðgáta hvað það er nákvæmlega sem stýrir því hvenær fæðing fer af stað. Í þessu

sambandi er vert að hafa í huga að þegar fæðing fer ekki sjálfkrafa af stað, eins og í framköllun á

fæðingu eða í valkeisaraskurði, er óvíst hvaða röskun verður á þeim ferlum sem lýst var hér að framan

og hvaða áhrif hún getur haft á heilsu mæðra og barna.

Page 17: 27. maí lokaritgerðfeðlisleg... · 2015-07-01 · Lífeðlisleg fæðing Nálgun, ferli og ávinningur Steinunn Rut Guðmundsdóttir Ritgerð til kandídatsprófs (8 einingar)

16

3.1.3 Sjálfkrafa framgangur og fæðing barns og fylgju Í kennslubókum í ljósmóður- og fæðingarfræðum er fæðingunni skipt í þrjú stig. Fyrsta stigið hefst

þegar samdrættir í legvöðva verða reglulegir og valda þynningu og opnun á leghálsi. Annað stigið

hefst eftir að fullri útvíkkun leghálsins (10 cm) er náð og það varir þar til barnið fæðist. Þriðja stig

fæðingar hefst við fæðingu barnsins og lýkur þegar fylgja og belgir fæðast (Coad og Dunstall, 2001).

Út frá lífeðlisfræðilegu sjónarhorni er talsverð skörun milli stiganna þriggja og skilin á milli þeirra ekki

skýr. Í eigindlegri rannsókn þar sem tekin voru viðtöl við 18 konur sem fætt höfðu sjálfkrafa um

fæðingarveg kom í ljós að þær töluðu um stig og fasa fæðingar sem abstrakt hugtök sem pössuðu

ekki við þeirra eigin upplifun. Þær litu á fæðinguna sína sem samfellt ferli en litu þó á útvíkkun

leghálsins sem mælikvarða á framgang fæðingarinnar (Dixon, Skenner og Foureur, 2013a).

Í upphafi fæðingar eru samdrættir oft vægir og konur lýsa einkennum á borð við túrverki, bakverki,

útferð, meltingafæratruflanir en líka tilhlökkun og spennu eða ró og friðsæld (Dixon, Skinner og

Foureur, 2013b). Oxytosín og prostaglandín vinna saman að því að auka styrk, lengd og tíðni

samdrátta sem verða sársaukafyllri eftir því sem leghálsinn víkkar út og barnið færist neðar. Með

vaxandi sársauka verða aukin stressviðbrögð í líkamanum og CRH hækkar, endorfín eykst í kjölfarið

og með hækkandi oxytosín- og endrofínmagni verða aukin verkjastillandi áhrif og breyting á meðvitund

móður (Dixon o.fl., 2013b). Þegar öll hormónasinfónían spilar saman er framgangur fæðingar

hámarkaður en til þess þarf frumstæði hluti heilans (e. primitive part), þar sem hormónin eru framleidd,

að ná yfirhöndinni yfir nýberki heilans (e. neocortex) sem stýrir vitrænni hugsun. Fæðingarhormónin

stuðla að því og frumstæði hluti heilans stuðlar þá að enn frekari losun á fæðingarhormónunum. Þá

víkur rökhugsun gjarnan fyrir áhrifum hormónanna og konur hafa oft tilhneigingu til að hegða sér á

frumstæðari hátt (Odent, 2001). Konur hafa lýst því að þær fari í eigin heim, þurfi að einbeita sér að

verkjunum, eigi erfiðara með yrt samskipti og áreiti í umhverfinu og að þær séu í einhvers konar móki

(Dixon o.fl., 2013b).

Í fæðingu er oxytosín losað í púlsum út í blóðrásina og veldur því taktföstum samdráttum í

legvöðvanum. Púlserandi losun kemur í veg fyrir skert súrefnisflæði til barnsins og ónæmingu

viðtakanna. Einnig er oxytosínið brotið hratt niður af ensíminu oxytosínasa sem framleitt er í fylgjunni á

meðgöngu og í fæðingu. Þetta gerir það að verkum að afar erfitt er að mæla styrk oxytosíns í blóði

kvenna í fæðingu (Blanks og Thornton, 2003) en svo virðist sem styrkur þess aukist ekki jafnt og þétt í

fæðingunni heldur verði hækkunin lang mest á öðru stigi fæðingar og eftir fæðinguna (Arrowsmith og

Wray, 2014). Sársaukinn sem fylgir þessum öflugu samdráttum rís gjarnan hraðar en stressviðbrögð

líkamans ráða við sem veldur tímabundnu ójafnvægi; mikil hækkun verður á CRH sem veldur oft

yfirþyrmandi tilfinningu um hræðslu og uppgjöf. Þessi fasi hefur verið nefndur umbreyting (e. transition)

og kemur oftast fram rétt áður en útvíkkun lýkur eða sem afleiðing af oxytosínflæðinu sem leiðir til

Ferguson viðbragðsins og mjög sterkra samdrátta (Dixon o.fl., 2013b). Þegar barnið er komið vel niður

í grindina þrýstir það á taugaenda í grindarbotninum sem framkalla rembingsþörf hjá móðurinni og enn

frekari losun oxytosíns sem veldur svo enn kröftugri samdráttum. Þetta nefnist Ferguson reflex og

virkar eins og lokuð hringrás sem tryggir það að barnið fæðist hvort sem móðirin tekur þátt eða ekki.

Að lokum teygist á leggöngum, grindarbotninn hliðrast til og spöngin teygist og þynnist. Togið á

spönginni veldur enn frekari oxytosínlosun sem undirbýr mjólkurlosun úr brjóstum og stuðlar að

Page 18: 27. maí lokaritgerðfeðlisleg... · 2015-07-01 · Lífeðlisleg fæðing Nálgun, ferli og ávinningur Steinunn Rut Guðmundsdóttir Ritgerð til kandídatsprófs (8 einingar)

17

farsælu þriðja stigi fæðingar (Downe, 2012; Robertson, 2007). Losun adrenalíns nær einnig hámarki í

síðustu samdráttunum sem gefur móðurinni auka kraft á lokasprettinum og stuðlar að tengslamyndun

móður og barns eftir fæðinguna (Buckley, 2015; Odent, 2001). Konur hafa bæði lýst því að þær vakni

skyndilega upp um leið og fæðingin er búin, séu vel vakandi eða í einhvers konar alsælu ástandi sem

getur skýrst af mjög háum styrk endorfíns, oxytosíns og adrenalíns. Aðrar lýsa einhvers konar áfalli

eða óraunveruleikatilfinningu (Dixon o.fl., 2013b).

Eftir að barnið fæðist halda samdrættir og stytting vöðvaþráða áfram vegna mikils oxytosínflæðis

og stuðlar það, ásamt þyngdaraflinu, að fæðingu fylgju og belgja. Þetta er lífeðlisfræðileg nálgun að

þriðja stigi fæðingar en önnur nálgun, virk meðferð á þriðja stigi, er algengari. Virk meðferð

samanstendur af því að gefa móðurinni oxytosínlyf í vöðva strax eftir að barnið fæðist, framkvæma

stýrt naflastrengstog og stundum er klippt strax á naflastrenginn þó að sá þáttur meðferðarinnar sé

sums staðar að detta út. Rannsóknir sýna að í hópi kvenna í blandaðri áhættu minnkar virk meðferð á

þriðja stigi líkur á blæðingu eftir fæðingu (>1000 ml) en eykur líkur á hærri blóðþrýstingi, uppköstum,

verkjum og endurinnlögnum vegna blæðinga. Einnig eru auknar líkur á lægri fæðingarþyngd barna

(Begley, Gyte, Devane, McGuire og Weeks, 2015). Blæðing eftir fæðingu er ein algengasta ástæða

mæðradauða í þróunarlöndum þar sem lélegt næringarástand, heilsu- og blóðleysi gerir það að

verkum að konur þola blóðtap mjög illa. Þar hefur virk meðferð á þriðja stigi mikla þýðingu en

spurningin er hvort þörf sé á því að yfirfæra mikilvægi þess yfir á allan heiminn (Walsh, 2012). Nýlegar

rannsóknir hafa sýnt að konur sem eru í lítilli áhættu og hafa átt lífeðlislegt fyrsta og annað stig séu í

minni hættu á blæðingu eftir fæðingu hljóti þær lífeðlislega nálgun á þriðja stigi heldur en ef þær fá

virka meðferð og jafnvel er talið að betri verkun verði af samdráttarlyfinu ef það er gefið sem viðbragð

við blæðingu heldur en ef það er gefið fyrirbyggjandi (Dixon o.fl., 2013c; Fahy o.fl., 2010). Lífeðlisleg

nálgun á þriðja stigi gefur móður og nýfæddu barni svigrúm til að njóta fyrstu augnablikanna saman án

truflunar sem stuðlar að enn meiri oxytosínlosun, fæðingu fylgjunnar og minni hættu á blæðingu

(Buckley, 2015; Walsh, 2012).

3.1.4 Aðlögun nýbura Flóknar lífeðlislegar breytingar verða hjá barni í fæðingu og fyrst eftir að hún er yfirstaðin sem stuðla

að aðlögun þess að lífi utan móðurkviðs og ver það gegn súrefnisskorti í fæðingunni. Samdrættir valda

tímabundinni skerðingu á blóðflæði um fylgju og til barnsins, nýrnahettur barnsins bregðast við því

með því að framleiða aukið magn katekólamína sem minnka líkur á því að vefjaskemmdir verði hjá

barninu með því að draga saman æðar og minnka blóðflæði til líffæra sem eru minnna viðkvæm eins

og meltingarfæra og vöðva, að sama skapi eykst blóðflæði til lífsnauðsynlegra líffæra eins og heila og

hjarta (McNabb, 2012). Rannsóknir benda einnig til þess að oxytosín gegni mikilvægu hlutverki í því

að vernda heila barnsins gegn súrefnisskorti í fæðingunni með því að virkja ákveðna rofa sem tengjast

taugaboðefninu GABA (gamma-aminobutyric-acid) sem hægir á og minnkar virkni heilans. Þetta ferli

hefst áður en fæðing fer af stað og nær hámarki þegar líður á fæðinguna (Buckley, 2015; McNabb,

2012). Katekólamínin stuðla einnig bæði að losun surfaktants í lungnablöðrum barnsins og því að

vökvi þrýstist úr lungunum og þannig auðvelda þau árangursríka öndun eftir fæðingu (Smith, 2007).

Page 19: 27. maí lokaritgerðfeðlisleg... · 2015-07-01 · Lífeðlisleg fæðing Nálgun, ferli og ávinningur Steinunn Rut Guðmundsdóttir Ritgerð til kandídatsprófs (8 einingar)

18

Eftir fæðinguna heldur barnið áfram að fá súrefnisríkt blóð frá móðurinni í gegnum naflastrenginn

sem stuðlar að mýkri aðlögun og ávinningi fyrir barnið. Rannsóknir sýna að minni líkur eru á blóðleysi í

allt að sex mánuði ef beðið er í minnst tvær mínútur með að skilja á milli (Hutton og Hassan, 2007;

Mercer, Skovgaard og Ericson-Owens, 2008). Börn bregðast ekki öll eins við því að koma inn í

þennan heim og mikilvægt er að taka tillit til þess. Það eru ekki öll börn sem gráta eða öskra þegar

þau fæðast, sum taka sér lengri tíma til að hefja upp raustina. Svo lengi sem hjartslátturinn er

kröftugur og góður þá er óhætt að gefa þeim sitt einstaklingsbundna svigrúm til að aðlagast (Mercer

o.fl., 2008).

Aukin losun katekólamína hjá barninu í fæðingu gerir það einnig að verkum að það er vel vakandi

eftir fæðinguna, með útvíkkuð sjáöldur og tilbúið að fara á brjóst. Þessi lífeðlislegi ferill er talinn styðja

við tengslamyndun móður og barns á fyrstu stundum lífsins (Buckley, 2015; Odent, 2001). Samantekt

fjölda rannsókna leiddi í ljós að húð við húð snerting móður og barns strax eftir fæðingu hefur jákvæð

áhrif bæði á mæður og börn. Börn sem voru færð beint í fang mæðra sinna sýndu meiri viðbrögð við

mæðrum sínum og grétu minna heldur en börn sem voru tekin og vafin eða klædd í föt áður en þau

voru færð mæðrum sínum. Mæður sem fá húð við húð snertingu við börn sín eftir fæðingu voru líklegri

til að vera með börn sín á brjósti á fyrsta til fjórða mánuði eftir fæðingu og voru líklegri til að hafa börn

sín lengur á brjósti. Mögulegt er að börnin sem fengu húð við húð meðferð ættu í betri samböndum við

mæður sínar en erfitt var að mæla það þar sem gæði rannsókna á því sviði voru mismikil (Moore,

Anderson, Bergman og Dowswell, 2012). Ætla má að þessi ávinningur skýrist að hluta til af aukinni

losun oxytosíns og endorfíns.

3.2 Áhrif inngripa á lífeðlislegt ferli fæðingar Þrátt fyrir vaxandi þekkingu á neikvæðum árhrifum óþarfa inngripa á lífeðlislegt ferli fæðinga hefur

þeim haldið áfram að fjölga. Eitt inngrip eykur líkur á því næsta og dregur úr líkum á sjálfkrafa fæðingu

um fæðingarveg (Tracy o.fll., 2007). Flestar rannsóknir á áhrifum inngripa mæla aukningu eða

minnkun á sjúkleika eða fylgikvillum en afar fáar mæla áhrif á lífeðlisfræðilega eða heilsueflandi þætti

sem stuðla að jákvæðum áhrifum á heilsu og velferð kvenna og barna (Smith o.fl., 2014).

Hér á eftir verður fjallað um tvö algeng inngrip í fæðingar; annars vegar utanbastsdeyfingu og hins

vegar örvun með samdráttarlyfjum. Einnig verða áhrif þeirra á lífeðlislegt ferli fæðingar skoðuð.

Langtímaáhrif inngripa hafa lítið verið könnuð en á undanförnum árum hafa rannsóknir á áhrifum

inngripa á utangenaerfðir (e. epigenetics) farið vaxandi. Kenningin byggir á því að ýmsir þættir geti

haft áhrif á DNA- og genaprófíl okkar með því að svæfa eða slökkva á heilu geni eða hluta úr því (e.

methylation) og breyta þannig virkni og tjáningu þess. Talið er að inngrip í fæðinguna, sérstaklega

utanbastsdeyfing, samdráttarlyf og keisaraskurðir, hafi áhrif á eðlilega streituferla í líkamanum, bæði

með því að auka þá og minnka þá. Þannig hafi þau áhrif á lífeðlisfræðilega mótunarferla með DNA

methylation sem aftur hafi áhrif á heilsu móður og barns til lengri tíma (Dahlen o.fl., 2013; Dahlen,

Downe, Kennedy og Foureur, 2014). Hér verður einnig fjallað um rannsóknir á þessu sviði.

Page 20: 27. maí lokaritgerðfeðlisleg... · 2015-07-01 · Lífeðlisleg fæðing Nálgun, ferli og ávinningur Steinunn Rut Guðmundsdóttir Ritgerð til kandídatsprófs (8 einingar)

19

3.2.1 Utanbastsdeyfing Utanbastsdeyfing er algeng og árangursrík verkjastilling í fæðingu (Anim-Somuah, Smyth, og Jones,

2011). Á LSH fengu tæplega helmingur kvenna (46,2%) sem stefndu að fæðingu um fæðingarveg

utanbastsdeyfingu árið 2013 (Ragnheiður I. Bjarnadóttir o.fl., 2014) og því nánast jafn algengt að

konur fæði með og án deyfingar. Utanbastsdeyfing er í dag valmöguleiki sem stendur öllum konum

sem fæða á LSH til boða að undanskildum örfáum sjaldgæfum frábendingum. Deyfingin getur oft

hjálpað mikið, til dæmis þegar móðir er orðin örþreytt, en hún er ekki hættulaus. Samantekt fjölda

rannsókna sýndi að notkun mænurótardeyfingar eykur líkur á þáttum eins og lengdu öðru stigi

fæðingar, notkun samdráttarörvandi lyfja, minni hreyfigetu, áhaldafæðingu, blóðþrýstingsfalli móður,

hita í fæðingu, þvagteppu og keisaraskurði vegna fósturstreitu (Anim-Somuah o.fl., 2011). Rannsóknir

hafa einnig sýnt að utanbastsdeyfing auki líkur á framhöfuðstöðu í fæðingu. Orsakasamhengið er

óþekkt en slökun á vöðvum í grindarbotni virðist hafa áhrif þar á (Liberman, Davidson, Lee-Parritz og

Shearer, 2005). Við þetta bætast óbein áhrif deyfingarinnar á umönnun í fæðingu, til dæmis aukin

rúmlega, vökvagjöf í æð, síritun fjósturhjartsláttar og aftöppun þvags með þvaglegg. Allt þetta hefur í

för með sér að meiri tími fer í að sinna tæknilegum atriðum og fylgjast með mögulegum aukaverkunum

en beinan stuðning við konuna (Walsh, 2012).

Rannsóknir hafa sýnt fram á að tengsl séu á milli utanbastsdeyfingar og lækkunar á oxytosíni í

blóði kvenna í og eftir fæðingu sem gæti skýrt aukna þörf fyrir örvun og lengri fæðingar þegar deyfing

er notuð (Buckley, 2015; Rahm, Hallgren, Höberg, Hurtig og Odind, 2002). Deyfingin hefur áhrif á

taugaviðtaka sem flytja boð til heilans og stuðla að Ferguson reflex og útskýrir það líklega minni losun

oxytosíns (Buckley, 2003; Robertson, 2007). Einnig minnkar losun endorfíns þegar utanbastsdeyfing

hefur verið lögð (Räisänen, Paatero, Salminen og Laatikainen, 1984) og katekólamína sem getur verið

hjálplegt á fyrri stigum fæðingar en valdið erfiðleikum á öðru stigi. Áhrif deyfingar á fæðingarhormónin

valda því að konur fara síður í sinn eigin heim undir stjórn frumstæða hluta heilans (Buckley, 2003).

Áhrif þess að fæða barn án þeirra lífeðlislegu hormónatoppa sem verða í lífeðlislegri fæðingu eru að

mestu óþekkt. Í samantekt Anim-Somuah og félaga (2011) á áhrifum utanbastsdeyfinga var til dæmis

aðeins ein rannsókn af 38 sem kannaði áhrif hennar á brjóstagjöf. Í henni var þess einungis getið að

enginn munur hafi verið á upphafi brjóstagjafar eftir því hvort konur fengu deyfingu eða ekki. Í

rannsókn sem byggði á samanburði kvenna sem fengu deyfingu og þeirra sem notuðu engin verkjalyf í

fæðingunni kom í ljós að konur sem ekki notuðu verkjalyf voru líklegri til þess að vera með barn sitt á

brjósti sex vikum eftir fæðingu heldur en konur sem fengu utanbastsdeyfingu (Adams, Framley, Steel,

Broom og Sibbritt, 2015). Í sænskri rannsókn voru áhrif utanbastsdeyfingar á brjóstagjöf könnuð með

því að skoða allar konur sem fengu deyfingu á sjúkrahúsi í Stokkhólmi á ákveðnum tíma og bera

saman við sambærilega hóp kvenna sem ekki fékk deyfingu í fæðingu, allar konurnar voru hraustar og

í lítilli áhættu. Konur sem enduðu í keisaraskurði, áhaldafæðingu, voru með barn í sitjandi stöðu eða

tvíbura voru útilokaðar frá rannsókninni og líka þau tilfelli þar sem Apgar við fimm mínútur var <7. Í ljós

kom að börn mæðra sem fengið höfðu deyfingu í fæðingu voru ólíklegri til þess að hafa sogið brjóst

fjórum klukkustundum eftir fæðingu, þau voru einnig líklegri til að fá þurrmjólk á meðan þau dvöldu á

sjúkrahúsinu og ólíklegri til að vera eingöngu á brjósti við útskrift (Wiklund, Norman, Unväs-Moberg,

Ransjö-Arvidson og Andolf, 2009).

Page 21: 27. maí lokaritgerðfeðlisleg... · 2015-07-01 · Lífeðlisleg fæðing Nálgun, ferli og ávinningur Steinunn Rut Guðmundsdóttir Ritgerð til kandídatsprófs (8 einingar)

20

Ekki er vitað hvort eða hver áhrif deyfingar eru á losun hormóna í heilanum en þar sem oxytosín

virkar einnig eins og taugaboðefni og stuðlar að oxytosínlosun í heila (Unväs-Moberg o.fl., 2005) er

það ekki svo langsótt hugmynd að minnkað oxytosínmagn í blóði hafi áhrif á losun oxytosíns í

heilanum. Jonas, Nissen, Ransjö-Arvidson, Matthiesen og Unväs-Moberg (2008) könnuðu hvort

utanbastsdeyfing eða oxytosínlyfjagjöf hefðu áhrif á hegðun mæðra sem voru með börn sín á brjósti

eftir fæðingu. Í ljós kom að konur sem ekki fengu utanbastsdeyfingu, hvort sem þær fengu

oxytosínlyfjagjöf eða ekki, mældust með minni kvíða og óeirð og aukið félagslyndi eftir fæðingu miðað

við samanburðarhóp kvenna sem ekki voru barnshafandi eða með barn á brjósti. Þessar breytingar

mældust ekki hjá konum sem fengið höfðu deyfingu í fæðingunni þegar mælt var tveimur dögum eftir

fæðingu en komu fram í seinni mælingum tveimur og sex mánuðum eftir fæðingu. Niðurstöðurnar gefa

vísbendingu um að utanbastsdeyfing gæti haft áhrif og seinkað sállífeðlislegum breytingum sem verða

eftir fæðingu og auðvelda mæðrum að aðlagast móðurhlutverkinu. En þar sem rannsóknir á þessu

sviði eru fáar þá eru þessar niðurstöður ekki ákvarðandi og gefa ekki í skyn að mæður sem fá

utanbastsdeyfingu í fæðingu muni eiga í erfiðleikum með tengslamyndun við barnið sitt eða

móðurhlutverkið. En út frá lífeðlisfræði hormónanna má engu að síður vera að utanbastsdeyfingar hafi

áhrif á oxytosínferla sem stuðla að ró, tengslum og þá ánægju-verðlauna hringrás sem verður hjá

nýbökuðum mæðrum í tengslum við umönnun og samband við nýfædd börn sín (Buckley, 2015).

Þrátt fyrir að utanbastsdeyfing gefi góða verkjastillingu í fæðingu þá hafa rannsóknir sýnt að hún

bætir ekki upplifun kvenna af fæðingunni (Anim-Somuah o.fl., 2011; Hodnett, 2002) og geti jafnvel haft

neikvæð áhrif þar á (Waldenström, Hildingson, Rubertsson og Rådestad, 2004). Oxytosín hefur áhrif á

minni og mögulegt er að minnkað oxytosínflæði eftir fæðingu hafi áhrif á það hvernig konur muna

verkina og fæðinguna en þetta hefur þó ekki verið rannsakað (Buckley, 2015).

3.2.2 Örvun með samdráttarlyfjum Tepptur framgangur á fyrsta stigi fæðingar er ein algengasta ástæða keisaraksurða hjá frumbyrjum en

oxytosínlyfjagjöf (syntocinon) er sú meðferð sem yfirleitt er notuð til þess að freista þess að örva

sóttina og minnka þannig líkur á keisaraskurði (Bugg, Siddiqui og Thornton, 2013). Syntocinon er

verksmiðjuframleitt peptíð sem líkir eftir oxytosínhormóninu. Gjöf syntocinondreypis í æð framkallar

taktbundna samdrætti í leginu en stórir skammtar af lyfinu geta valdið viðvarandi krampakenndum

samdráttum sem geta leitt til fósturstreitu, fósturköfnunar, fósturdauða og legrofs (Sérlyfjaskrá, 2014).

Samdrættirnir geta orðið tíðir og grunnspenna í leginu hækkað, mögulega vegna þess að lyfið rennur

inn en losnar ekki í púlsum eins og náttúrulegt oxyotosín gerir (Buckley, 2003). Samantekt rannsókna

þar sem notkun syntocinondreypis við hægum framgangi á fyrsta stigi fæðingar hjá konum í sjálfkrafa

sótt sýndi að það minnkaði ekki líkur á keisaraskurði eða áhaldafæðingum og jók ekki líkur á fæðingu

um fæðingarveg borið saman við enga meðferð eða seinkaða meðferð. Enginn munur var á notkun

utanbastsdeyfingu en fæðingin styttist marktækt um tvær klukkustundir. Auknar líkur voru á oförvun

legs og breytingar á hjartslætti barns ef gripið var fljótt til meðferðar (Bugg o.fl., 2013). Nýleg rannsókn

kannaði áhrif notkunar syntocinons vegna teppts framgangs á hjartslátt barna þar sem 110 konur sem

fengu lyfið voru bornar saman við sambærilegan hóp kvenna sem ekki þurftu örvun. Í ljós kom að

syntocinon hafði engin marktæk áhrif á hjartslátt barna og draga höfundar þá ályktun að þegar lyfið sé

Page 22: 27. maí lokaritgerðfeðlisleg... · 2015-07-01 · Lífeðlisleg fæðing Nálgun, ferli og ávinningur Steinunn Rut Guðmundsdóttir Ritgerð til kandídatsprófs (8 einingar)

21

notað rétt geti það normaliserað lélega samdráttarvirkni legsins án þess að hafa áhrif á hjartslátt

barnsins (Aye, Redman og Georgieva, 2014). Áhugavert er að þau tilfelli þar sem fæðing hafði átt sér

stað innan tveggja klukkustunda frá því að meðferð hófst voru útilokuð frá rannsókninni. Rannsóknum

ber ekki heldur saman um hvort notkun syntocinondreypis vegna teppts framgangs auki líkur á

alvarlegum fylgikvillum. Sumar rannsóknir hafa sýnt fram á auknar líkur á lágu Apgar skori, innlögn á

nýburagjörgæslu (Oscarsson, Amer-Wåhlin, Rydhstroem og Källén, 2006) og alvarlegum fylgikvillum

fyrir bæði móður og barn þegar syntocinondreypi er notað við tepptum framgangi hjá konum í lítilli

áhættu (Buchanan, Patterson, Roberts, Morris og Ford, 2012) en niðurstöður annarra rannsókna sýna

engan mun á útkomu móður og barns (Bugg o.fl., 2013; Wei o.fl., 2013).

Notkun syntocinons til örvunar eða framköllunar á fæðingu veldur mikilli fækkun og minni virkni

oxytosínviðtaka í leginu (Phaneuf, Liñares, TambyRaja, MacKenzie og Lópz Bernal, 2000) og veltir

það upp spurningum um áhrif þess á oxytosínviðtaka annars staðar í líkamanum eins og til dæmis í

heila og brjóstum. Lítið er vitað um áhrif oxytosínlyfja á heilsu eða upplifun kvenna þar sem flestar

rannsóknir sem gerðar hafa verið á notkun þeirra við tepptum framgangi einblína á útkomu fæðinga

eins og til dæmis, keisaratíðni, lengd fæðingar og samdráttarvirkni (Begley o.fl., 2014). Óumdeilt er að

oxytosínhormónið hefur víðtæk áhrif á móður og barn í og eftir fæðingu en ekki er vitað hvort að

syntocinon komist yfir í heila (e. blood-brain-barrier) eða hafi áhrif á losun oxytosíns þar (Bell o.fl.,

2014). Af þessum sökum má velta fyrir sér hvort að sú fækkun sem verður á oxytosínviðtökum við

notkun syntocinondreypis geti haft víðtækari áhrif á móður og barn. Sú þekking sem er til staðar, þrátt

fyrir að vera gloppótt, bendir til þess að notkun syntocinons í fæðingu geti haft áhrif á taugaþroska

barnsins, verndun oxytosíns gegn skertu súrefnisflæði, viðbrögð þess til að nærast og félagslega

hegðun. Einnig er mögulegt að áhrifanna á oxytosíntengda hegðun eins og félagsleg hegðun gæti

síðar á ævinni með því að hafa áhrif á þroska miðtaugakerfisins (Kenkel, Yee og Carter, 2014). Í

nýlegri rannsókn voru áhrif notkunar samdráttarlyfja í fæðingu á merki barns og viðleitni til að nærast á

fyrsta klukkutímanum eftir fæðingu könnuð. Þægindaúrtak 47 heilbrigðra barna eftir fulla meðgöngu

var valið, hjá 36 þeirra hafði verið gripið til samdráttarlyfja í fæðingunni en ekki hjá hinum 11. Börn

með lágan Apgar, fósturstreitu og börn fædd með aðstoð áhalda eða keisaraskurði voru útilokuð.

Fyrsti klukkutíminn eftir fæðingu var tekinn upp og vísbendingar frá börnunum voru metnar. Algeng

merki sem börn gefa þegar þau eru tilbúin að nærast (e. prefeeding cues) eru til dæmis að opna

munninn, horfa til hliðar með opinn munninn, stinga tungunni út, sleikja, sjúga og bera hendur upp að

munni. Í ljós kom að 44% barnanna í örvunarhópnum voru með fá merki um að vilja nærast (13-44

merki) en engin barnanna í hinum hópnum. Fjórðungur barnanna í örvunarhópnum og 63,6% hinna

barnanna sýndu oft merki um að vilja nærast (90-117 merki) (Bell, White-Traut og Rankin, 2013). Í

nýrri danskri rannsókn voru líkur á einhverfu kannaðar með tilliti til syntocinon notkunar í fæðingu.

Skýrslur allra einbura sem fæddust í Danmörku á árunum 2000-2009 voru skoðaðar og börnunum svo

fylgt eftir frá eins árs aldri og til ársins 2012. Í ljós kom að auknar líkur voru á einhverfugreiningu hjá

drengjum þeirra mæðra sem höfðu fengið syntocinondreypi í fæðingunni (1177 drengir) samanborið

við aðra drengi (560 drengir). Ekki var marktækur munur meðal stúlkna. Vitað er að erfðir spila

hlutverk í einhverfu og ólíklegt er að oxytosínlyfjagjöf í fæðingu valdi einhverfu en niðurstöðurnar

benda til þess að mögulegt sé að oxytosínlyfjagjöf geti haft áhrif á þá sem eru erfðafræðilega útsettir

Page 23: 27. maí lokaritgerðfeðlisleg... · 2015-07-01 · Lífeðlisleg fæðing Nálgun, ferli og ávinningur Steinunn Rut Guðmundsdóttir Ritgerð til kandídatsprófs (8 einingar)

22

og aukið líkur á einhverfu (Weisman o.fl., 2015). Einnig hefur það verið kannað hvort syntocinongjöf í

fæðingu geti mögulega haft áhrif á taugaþroska barnsins á þessum viðkvæma tíma sem fæðingin og

fyrstu dagarnir eru og aukið líkur á ofvirkni með athyglisbrest (ADHD) síðar á ævinni. Vitað er að ýmsir

þættir á meðgöngu geta haft áhrif á þróun ADHD síðar á ævinni og tilfellum hefur fjölgað gríðarlega á

síðustu árum. Í Bandaríkjunum fjölgaði ADHD tilfellum um 22% frá árinu 2003-2007. Skýrslur 172

barna á aldrinum 3-25 ára voru skoðaðar; fæðingarskýrslur, mæðraskrár, heilsufarskýrslur barnanna

sjálfra og saga nánustu ættingja um ADHD var einnig könnðu. Í ljós kom að fylgni var milli

syntocinonnotkunar í fæðingu og ADHD greiningar barna síðar á ævinni. 67,1% barnanna sem voru

með ADHD áttu mæður sem höfðu fengið syntocinon í fæðingunni en aðeins 35,6% barnanna sem

ekki voru með ADHD. Fylgnin var sterkari eftir því sem móðirin hafði fengið syntocinon í lengri tími.

Einnig var fylgni milli lengdrar meðgöngu, langrar fæðingar og þyngdar barns en hún reyndist ekki

marktæk. Höfundar velta því fyrir sér hvort langvarandi samdráttarörvun í fæðingu með

syntocinondreypi hafi áhrif á heila barnsins og valdi taugatoxísku umhverfi fyrir hann þar sem minnkað

súrefnis- og blóðflæði og möguleg genavirkjun (e. epigenetic triggering) spila saman og stuðli að

óhagstæðri taugaþroskun sem auki líkur á ADHD (Kurth og Haussmann, 2011)

3.3 Stutt við lífeðlislegt ferli fæðinga

3.3.1 Umhverfi og stuðningur Tengsl lífeðlisfræði fæðingarinnar við tilfinningar og hegðun kvenna í fæðingu er verðugt viðfangsefni í

fæðingarhjálp ljósmæðra. Dixon og félagar (2013b) settu fram tilgátu, byggða á nútíma

vísindaþekkingu og eigin rannsókn á lýsingu kvenna af þeim tilfinningum sem þær upplifðu í fæðingu.

Kenningin gekk út á að hormónin sem eiga þátt í að hrinda fæðingu af stað og stuðla að framgangi

hennar hafi einnig sterk áhrif á tilfinningar kvenna í fæðingunni og hegðun sem afhjúpast í lífeðlislegri

fæðingu. Þannig geti allt sem hefur áhrif á tilfinningar og hegðun kvenna í fæðingu haft áhrif á

framgang hennar. Vellíðan og tilfinning um öryggi getur þannig stuðlað að framgangi fæðingar og

hræðsla, kvíði og óöryggi haft neikvæð áhrif. Ina May Gaskin hefur einnig sett fram kenningu um áhrif

umhverfis og tilfinninga kvenna á gang fæðingar sem hún kallar Lögmál hringvöðvans (e. Spincter

Law). Kenningin byggir á því að leghálsinn hegði sér eins og hringvöðvi þó að hann sé það í raun og

veru ekki. Hringvöðvar líkamans bregðast illa við skipunum, þeir virka best í næði og ró, þeir geta

lokast ef viðkomandi verður leiður, hræddur, meðvitaður um sjálfan sig eða niðurlægður og slökun í

munni og kjálka, hæg og djúp öndun, heitt vatn og hlátur auðveldar slökun hringvöðvanna. Því séu

skortur á næði, hræðsla og örvun rangra svæða í heilanum oftast ástæður þess að framgangur

fæðinga sé hægur eða stoppi (Gaskin, 2003). Þetta rímar við kenningar Odent (2001) um að örvun á

virkni nýbarkarins í fæðingu eins og til dæmis með samræðu, skærri birtu og skorti á næði trufli virkni

frumstæða hluta heilans og valdi þannig röskun á flæði fæðingarhormóna og gangi fæðingarinnar.

Andrúmsloft í fæðingu þarf að vekja tilfinningu um ró, traust og öyggi. Gott samband konu og

ljósmóður er einnig lykilatriði og þegar þessir þættir koma saman styður fæðingarumhverfið við eðlilegt

ferli fæðingarinnar og lágmarkar alla truflun (Berg, Ólafsdóttir og Lundgren, 2012). Einnig er mikilvægt

að skapa aðstæður fyrir lífeðlislega fæðingu með því að gera ráð fyrir hinu breytilega í hinu eðlilega,

hvað varðar óvissu, ólínulega þróun og margbreytileika (Downe og McCourt, 2008; Gaskin, 2011;

Page 24: 27. maí lokaritgerðfeðlisleg... · 2015-07-01 · Lífeðlisleg fæðing Nálgun, ferli og ávinningur Steinunn Rut Guðmundsdóttir Ritgerð til kandídatsprófs (8 einingar)

23

Walsh, 2012). Rannsóknir á umönnun hraustra kvenna í fæðingu benda einnig til þess að hreyfing og

uppréttar stöður, hléhlustun í stað síritunar á fósturhjartslætti, verkjameðferð án lyfja (Albers, 2007),

sjálfkrafa upphaf fæðingar og óslitin samvera móður og barns séu þættir sem styðji við lífeðlislegt ferli

fæðingar. Með því að koma í veg fyrir óþarfa inngrip er truflun á ferlinu einnig lágmörkuð (Romano og

Lothian, 2008). Á mótsagnakenndan hátt má segja að það að tileinka sér hæfni og tækni til að styðja

við lífeðlislegt ferli fæðingar feli oft í sér að „af-tileinka“ sér ákveðna hluti og læra listina að gera ekki

neitt. Hlutverk ljósmóðurinnar er að styðja við en ekki að stýra lífeðlislegu ferli (Walsh, 2012).

Samkvæmt þessum tilgátum getur umhverfið og umönnunaraðilar stuðlað að og stutt við lífeðlislegt

ferli fæðinga og hafa rannsóknir sýnt að svo er raunin. Samantekt fjölda rannsókna sýndi að

stuðningur og yfirseta í fæðingu geta bætt lífeðlislegan framgang fæðinga og aukið tilfinningu kvenna

fyrir stjórn og trú á eigin getu. Stuðningurinn felur í sér félags- og tilfinningalegan stuðning,

upplýsingagjöf og að vera einhvers konar málssvari konunnar. Í ljós kom að konur sem fengu

samfelldan stuðning í fæðingu voru líklegri til að fæða um fæðingarveg, fæðingarnar voru styttri og

enduðu síður í keisara- eða áhaldafæðingu. Konurnar notuðu síður deyfingu í fæðingunni, voru síður

óánægðar og eignuðust síður börn með lágan Apgar við fimm mínútur (Hodnett, Gates, Hofmeyr og

Sakala, 2013). Þá hafa rannsóknir með slembiröðuðum samanburðarhópum (e. randomized og quazi

randomized controlled trials) sem skoðað hafa áhrif fæðingarumhverfis á útkomu fæðinga leitt í ljós að

sá hópur hraustra kvenna sem hefur fæðingu á „óhefðbundnum“ fæðingardeildum, þar sem lögð er

áhersla á hlýlegt og styðjandi umhverfi séu líklegri en hraustar konur sem hefja fæðingu á

hefðbundnum fæðingardeildum, til þess að fæða sjálfkrafa um fæðingarveg, upplifa fæðinguna á

jákvæðan hátt og hafa barn sitt á brjósti sex til átta vikum eftir fæðingu. Minni líkur voru á inngripum

eins og utanbastsdeyfingu, örvun með lyfjum, áhaldafæðingu og spangarskurði, en enginn munur var

á heilsu mæðra og barna eftir fæðingu (Hodnett, Downe og Walsh, 2012).

Ljósmæður verða líka fyrir áhrifum af því umhverfi sem þær starfa í og þær hafa lýst því í

rannsóknum að á stórum blönduðum fæðingardeildum finni þær frekar fyrir togstreitu milli tveggja

hugmyndaheima sem hafi áhrif á skynjun þeirra á öryggi og áhættu og á það hvernig þær sinna

störfum sínum (Blaaka og Schauer, 2008; Valgerður Lísa Sigurðardóttir og Ólöf Ásta Ólafsdóttir,

2009). Ljósmæður hafa einnig lýst því að yfirsetan, trú þeirra á eðlilegt ferli fæðinga og þolinmæði

gagnvart óskýrum mörkum þess eðlilega (án þess að örygginu sé fórnað) séu mikilvægir þegar

ljósmæður styðja við eðlilegt ferli fæðinga (Kennedy og Sannon, 2004). Í rannsókn á hugmyndafræði

og þekkingu íslenskra ljósmæðra kom einnig fram að ljósmæður litu á yfirsetu, nærverau og tengsl við

konur sem mikilvæga þætti til að skapa tilfinningu um öryggi og stuðla að eðlilegri fæðingu (Ólöf Ásta

Ólafsdóttir, 2009).

3.3.2 Undirbúningur Til þess að geta stuðlað að lífeðlislegu ferli fæðinga er nauðsynlegt fyrir ljósmæður að hafa þekkingu á

því. En til þess að lífeðlisleg fæðing sé eftirsóknarverður kostur fyrir konur þurfa þær ekki síður að hafa

þekkingu og þá sérstaklega á þeim ávinningi sem hún felur í sér. Að mati Denis Walsh, prófessors í

ljósmóðurfræði, er þekking í víðu samhengi einmitt lykillinn að því að gera lífeðlislegar fæðingar að

ekki bara mögulegum heldur eftirsóknarverðum kosti fyrir konur næstu kynslóða. Hann telur að þá

Page 25: 27. maí lokaritgerðfeðlisleg... · 2015-07-01 · Lífeðlisleg fæðing Nálgun, ferli og ávinningur Steinunn Rut Guðmundsdóttir Ritgerð til kandídatsprófs (8 einingar)

24

munu ekki bara einstaka konur njóta góðs af þeim heldur fjölskyldur, samfélög og jafnvel heilu

þjóðfélögin (Walsh, 2012).

Hræðsla er mesti óvinur fæðingarinnar (Gaskin, 2003). Hræðsla og ótti eru viðbrögð við ógnandi

aðstæðum. Ef þekking er til staðar stendur fólki minni ógn af því óþekkta og því rökrétt að hugsa sér

að fæðingarfræðsla bæti útkomu fæðinga. Mikið er um alls kyns fæðingarfræðslunámskeið fyrir

foreldra en rannsóknir benda til þess að þau hafi almennt ekki áhrif á útkomu fæðinga eða

inngripatíðni (Bergstöm, Kieler og Waldenström, 2009; Ferguson, Davis og Browne, 2013; Martínez-

Galiano og Delgado-Rodriguez, 2013). Námskeiðin hafa verið gagnrýnd fyrir kennsluaðferðir sem

stuðli frekar að því að konur falli að þeirri barneignarþjónustu sem er í boði en að styrkja þær til

sjálfstæðra ákvarðana. Konur ættu frekar að fá upplýsingar og fræðslu sem byggja á bestu mögulegu

þekkingu sem er til staðar þannig að þær geti tekið upplýsta ákvörðun (Romano og Lothian, 2008).

Ljósmæður eru í lykilaðstöðu til þess að fræða og efla konur á meðgöngu sem er mikilvægt þar sem

jákvæð viðhorf og trú á eigin getu virðast hafa áhrif á útkomu fæðinga til hins betra (Green, Baston,

Easton og McCornic, 2003).

3.3.2.1 Fæðingarsamtal Kenning Antonovskys um salutogenesis felst í því að einstaklingurinn líti á umhverfi sitt eða aðstæður

sem mikilvægar, viðráðanlegar og skiljanlegar, hann þekki eigin bjargráð og styrkleika og kunni að

nýta sér þá. Þeir sem horfa þannig á hlutina eru líklegri til þess að ráða við erfiða reynslu og finna fyrir

samræmanleika (e. sense of coherence) sem leiðir af sér velferð eða heilsu (e. well-being)

(Antonovsky, 1996).

Hugmyndafræði fæðingarsamtalsins (e. birth-talk) byggir meðal annars á kenningu Antonovskys

um salutogenesis. Þar sem þættirnir þrír sem stuðla að samræmanleika eru hafðir að leiðarljósi í

fræðslu verðandi foreldra; mikilvægi (það er tilgangur falinn í því að takast á við fæðinguna og einnig

eftirsóknarvert), viðráðanleiki (einstaklingurinn hefur úrræði til að takast á við fæðinguna og veit

hvernig hann getur fengið aðstoð) og skilningur (foreldrarnir hafa þekkingu á því sem gerist í

líkamanum í fæðingu). Fræðslan fer yfirleitt fram á 36. viku meðgöngu og oft á heimili fólks eða í

fæðingarumhverfinu. Unnið er að því að gera fæðinguna raunverulega fyrir foreldrum og lögð áhersla

á styrkleika konunnar þannig að hún öðlist trú á eigin getu til þess að fæða eðlilega. Útskýrt er á

myndrænan eða leikrænan hátt hvað gerist í líkamanum þannig að fólk hafi forsendur til að vinna með

það í fæðingunni sjálfri. Lögð er áhersla á hversu einstakt það getur verið að ganga í gegnum fæðingu

og hversu magnað það sé að komast í gegnum hana. Markmiðið er að konan sé full tilhlökkunar að

takast á við fæðinguna eftir samtalið og hafi trú á sjálfri sér. Markmiðið er ekki að draga upp

glansmynd af fæðingunni heldur raunverulega en yfirstíganlega mynd (Jónína S. Birgisdóttir, 2014;

Kemp og Sandall, 2010). Fæðingarsamtalði hefur ekki verið mikið rannsakað en í bók Walsh Evidence

and skills for normal labour and birth kemur fram að afbrigði af fæðingarsamtalinu sem tekið var upp á

stórri fæðingardeild í Bretlandi þar sem ljósmóðir fræddi fimm til sex pör saman í einu inn á

fæðingarstofu á 34. - 36. viku hafi lækkað tíðni utanbastsdeyfinga um helming og tvöfaldað líkur á

uppréttri stöðu í fæðingu (Walsh, 2012). Í meistaraverkefni sínu í ljósmóðurfræði, þróaði og forprófaði

Jónína Birgisdóttir (2014) fæðingarsamtal sem veitt var í mæðravernd á Suðurnesjum á 36. viku

Page 26: 27. maí lokaritgerðfeðlisleg... · 2015-07-01 · Lífeðlisleg fæðing Nálgun, ferli og ávinningur Steinunn Rut Guðmundsdóttir Ritgerð til kandídatsprófs (8 einingar)

25

meðgöngu. Tekin voru viðtöl við fjögur pör sem áttu von á sínu fyrsta barni fyrir og eftir íhlutun til að

meta árangur af fæðingarsamtalinu. Við greiningu gagna kom í ljós að fæðingarsamtalið dró úr kvíða

og jók sjálfsöryggi kvennana en minnkaði ekki líkur á notkun inngripa í fæðingu.

Fæðingasamtalið veitir ljósmæðrum tækifæri til að koma fræðslu um ávinning lífeðlislegra fæðinga

til skila. Einnig skapar það tækifæri til að hafa jákvæð áhrif á konuna og efla hana í trú sinni á eigin

getu og að fæðingin sé yfirstíganleg (Kemp og Sandall, 2010). Soo Downe hefur fært rök fyrir því að

þegar við nálgumst fæðingar út frá salutogenesis þá náist hámarks árangur, sem mældur er með

heilsu og velferð móður og barns. Hún telur að með því að hámarka líkur á lífeðlislegri fæðingu þá séu

mestar líkur á slíkri útkomu og ef til nauðsynlegra inngripa komi þá sé unnið að því að gera þá reynslu

sem besta (Downe og McCourt, 2008)

Page 27: 27. maí lokaritgerðfeðlisleg... · 2015-07-01 · Lífeðlisleg fæðing Nálgun, ferli og ávinningur Steinunn Rut Guðmundsdóttir Ritgerð til kandídatsprófs (8 einingar)

26

4 Umræða Lífeðlisleg nálgun miðar að því að stuðla að sjálfkrafa upphafi, framgangi og fæðingu ásamt

kjöraðlögun móður og barns með því að styðja við lífeðlislegt ferli fæðingar. Í upphafi var spurt hver

ávinningur lífeðlislegrar nálgunar í fæðingu væri, hvaða áhrif inngrip gætu haft á lífeðlislegt ferli og

hvernig hægt væri að styðja við lífeðlislegt ferli.

Sjálfkrafa upphaf fæðingar er mikilvægt því áður en fæðing fer af stað á sér stað flókinn

lífeðlisfræðilegur undirbúningur bæði hjá móður og barni. Mikil fjölgun og virkjun oxytosínviðtaka

tryggir aukið næmi fyrir oxytosíni bæði í leginu og heilanum (Arrowsmith og Wray, 2014; Coad og

Dunstall, 2011), niðurbrot á bandvef í leghálsi gerir hann mýkri og eftirgefanlegri (McNabb, 2012) og

aukinn styrkur streituhormóna í lok meðgöngu stuðlar að lungnaþroska barnsins, framleiðslu

surfaktants í lungum, vernd gegn skertu súrefnisflæði og eykur losun prostaglandína (Smith, 2007).

Óvíst er hvaða áhrif það hefur að fara að einhverju leyti á mis við þennan undirbúning.

Lífeðlislegur framgangur fæðingar stuðlar að vaxandi styrk oxytosíns, endorfíns og katekólamína

hjá móður og barni sem stuðla að frekari framgangi, veita verkjastillingu, veita aukinn kraft, verja

barnið fyrir súrefnisskorti og undirbúa það fyrir fyrstu andartökin. Þau stuðla að tengslamyndun móður

og barns eftir fæðinguna, árangursríkri brjóstagjöf og virkja verðlauna- og vellíðunarkerfi heilans sem

gerir það að verkum að móðir og barn heillast hvort að öðru og sækjast eftir sambandi hvort við annað

(Buckley, 2003; Buckley, 2015; Carter, 1998; McNabb, 2012; Moore o.fl., 2012; Odent, 2001; Smith,

2007; Unvås-Moberg, o.fl., 2005). Þegar fæðingarhormónin fá að flæða óhindrað í lífeðlislegri fæðingu

minnkar hættan á blæðingu eftir fæðingu (Dixon o.fl., 2013c og Fahy o.fl., 2010), móðirin fær tækifæri

til þess að upplifa eigið heilbrigði með því að fara í gegnum þessa reynslu, barnið nýtur góðs af því að

móðirin er í stakk búin til að bregðast við þörfum þess (ACNM o.fl., 2012) og er mögulega í minni

hættu á því að kljást við langvinn veikindi síðar á ævinni (Buckley, 2015; Dahlen, o.fl., 2013; Kurt og

Haussmann, 2011; Odent, 2001; Weisman o.fl., 2015). Minni líkur verða á óþarfa inngripum eins og

utanbastsdeyfingu og samdráttarörvun og geta kvenna til að takast á við verki verður betri, einnig

minnka líkur á áhalda- og keisarafæðingu (Hodnett o.fl., 2012; Hodnett o.fl., 2013).

Utanbastsdeyfing hefur áhrif á losun fæðingarhormónanna sem verður minni og það getur haft áhrif

á flæði fæðingarinnar. Auknar líkur eru á fleiri inngripum, ýmsum skammtíma afleiðingum fyrir móður

og barn (Anim-Somuah o.fl., 2011) og truflun á brjóstafjöf (Adams o.fl., 2015; Wiklund o.fl., 2009).

Notkun syntocinondreypis við tepptum framgangi fæðingar styttir fæðinguna en virðist ekki minnka

líkur á keisaraskurði (Bugg o.fl., 2013). Heimildum ber ekki saman um hvort notkun þess auki líkur á

slæmri útkomu móður og barns í fæðingu. Oxytosín spilar stórt hlurverk í barneignarferlinu öllu og ekki

er ljóst hvaða áhrif það getur haft þegar fækkun og ónæming oxytosínviðtaka verður líkt og gerist

þegar synotcinonörvun er notuð í fæðingu. Mögulegt er að slík truflun geti haft áhrif á taugaþroska,

félagslega hegðun og heilsu barna til lengri tíma (Bell o.fl., 2013; Kenkel o.fl., 2014; Kurth og

Haussmann, 2011). Ekki liggur fyrir hvaða heildaráhrif það hefur þegar kona fæðir barn án þess að

losa fæðingarhormóninn í sama styrk og gerist í lífeðislegri fæðingu. Ávinningur lífeðlislegrar nálgunar

felst í óhindruðu flæði fæðingarhormónanna og því mikilvægt að tekið sé tillit til tengsla hormónanna

við fæðinguna sjálfa og tenglsa tilfinninga og líðan kvenna við flæði hormónanna. Það er einnig

Page 28: 27. maí lokaritgerðfeðlisleg... · 2015-07-01 · Lífeðlisleg fæðing Nálgun, ferli og ávinningur Steinunn Rut Guðmundsdóttir Ritgerð til kandídatsprófs (8 einingar)

27

mikilvægt að áherslan sé ekki einungis á línulegan framgang fæðingar heldur sé gert ráð fyrir

breytileika innan þess eðlilega.

Með því að skapa andrúmsloft og umhverfi í fæðingu sem tryggir næði og ró, veita stuðning sem

skapar traust og styður við hegðun sem stuðlar að óhindruðu flæði hormónanna geta ljósmæður stutt

við lífeðlislegt ferli fæðingar (Berg o.fl. 2012, Hodnett o.fl., 2012; Hodnett o.fl., 2013). Barnshafandi

konur þurfa að vera upplýstar um lífeðlislegt ferli fæðinga og ávinning þess til að fæðing án óþarfa

inngripa verði eftirsóknarverður kostur fyrir þær. Ljósmæður eru í kjöraðstöðu til að fræða verðandi

foreldra og undirbúa þá fyrir fæðingu. Í fæðingarsamtali er lögð áhersla á mikilvægi, viðráðanleika og

skilning á fæðingunni með það að markmiði að gera fæðinguna að raunverulegum og yfirstíganlegum

atburði. Vísbendingar eru um að fæðingarsamtal geti haft áhrif á inngripanotkun í fæðingu (Walsh,

2012). Ef til vill er áhersla á salutogenesis og lífeðlisfræði fæðingarinnar lykillinn að því að ná betur til

fólks. Þó að það sé ekki ætlunin þá felur umræða um eðlilegar og náttúrulegar fæðingar í sér hinn

kostinn eða andstæðurnar, það er óeðlilegar og ónáttúrulegar fæðingar. Konur standa frammi fyrir því

að hafa fætt ónáttúrulega vegna þess að grípa þurfti inn í fæðinguna af einhverjum orsökum og það

getur valdið togstreitu, vonbrigðum og jafnvel tilfinningu um að hafa brugðist (Kannan, Jamison og

Datta, 2001). Mögulega er heillavænlegra að tala um lífeðlislega nálgun að fæðingum af þessum

sökum. Öryggi skiptir fólk miklu máli á meðgöngu og í fæðingu og með lífeðlislegri nálgun á fæðinguna

er stuðlað að hámarks öryggi fyrir konu og barn og jákvæðri heilsueflandi útkomu (ACNM o.fl., 2012;

Buckley, 2015; Downe og McCourt, 2008)

Veikleiki þessa verkefnis er hversu smátt í sniðum það er en umfjöllunarefnið stórt. Því þurfti að

takmarka umfjöllunina við valda þætti. Ekki var leitað sérstaklega eftir rannsóknum á ávinningi

tæknilegra inngripa þegar vandamál koma upp og aðeins fjallað um tvö af mörgum inngripum sem í

boði eru. Lífeðlisfræði fæðingar og ávinningur lífeðlislegrar nálgunar eru ekki skilinn til fulls og þörf er á

frekari rannsóknum þar sem tekið er tillit til víðtækra áhrifa meðgöngu- og fæðingarhormóna á

undirbúning og fæðinguna sjálfa og á líðan og heilsu eftir fæðingu og til framtíðar. Þekking á áhrifum

þess að trufla lífeðlislegan undirbúning og ferli fæðingar er einnig ábótavant. Styrkleiki verkefnisins er

sá að hér eru kynntar til sögunnar rannsóknir og þekking sem renna stoðum undir þá hugmyndafræði

sem fram kemur í stefnu Ljósmæðrafélags Íslands og ljósmæður starfa eftir. Einnig er ávinningur

lífeðlislegrar nálgunar dreginn fram sem skiptir máli fyrir heilbrigði og öryggi kvenna og barna.

Þetta efni hefur ekki verið dregið saman á íslensku að mér vitandi en samantektin getur nýst í

þróun fræðsluefnis og klínískra leiðbeininga fyrir ljósmæðranema, barnshafandi konur, ljósmæður og

annað fagfólk í barneignarþjónustunni.

Page 29: 27. maí lokaritgerðfeðlisleg... · 2015-07-01 · Lífeðlisleg fæðing Nálgun, ferli og ávinningur Steinunn Rut Guðmundsdóttir Ritgerð til kandídatsprófs (8 einingar)

28

Ályktanir

Tilgangur þessarar ritgerðar var að draga fram ávinning lífeðlislegrar nálgunar í fæðingu. Það er

mikilvægt því hugmyndafræði ljósmæðra byggir á lífeðlislegri nálgun, ferli og ávinningi. Þetta skiptir

máli fyrir heilsu kvenna og öryggi og til þess að þær hafi þekkingu og möguleika á að velja lífeðlislega

fæðingu og fæðingarumhverfi sem styður við það val.

Þó að ljósmæður séu talsmenn eðlilegra fæðinga þá sinna þær ekki bara konum sem fæða einbura

á settum tíma í höfuðstöðu, þær sinna líka konum sem glíma við veikindi eða alvarlega áhættuþætti

sem njóta góðs af tæknilegum inngripum og þurfa ekki síður á umönnun ljósmæðra að halda. Það er

mikilvægt að ljósmæður útiloki ekki stóran hóp kvenna frá hugmyndafræði sinni með þröngum

skilgreiningum sem einnig geta haft neikvæð áhrif á upplifun kvenna af eigin fæðingu. Að mínu mati er

hugmyndafræði og orðanotkun um lífeðlislega nálgun heildrænni og meira viðeigandi heldur en

skilgreiningar á eðlilegum og/eða náttúrulegum fæðingum. Ávinningur lífeðlislegrar nálgunar er ekki

annað hvort til staðar eða ekki heldur er hann hámarkarkaður fyrir hverja og eina konu. Þannig hættir

nálgunin aldrei að eiga við og konur falla ekki út fyrir ramma skilgreiningarinnar í miðri fæðingu eða

þegar hún er yfirstaðin. Þetta þýðir þó ekki að það skipti ekki máli hvort gripið sé inn í fæðingu eða

ekki því það er ávallt haft að leiðarljósi að öryggi og ávinningur sé mestur þegar truflun er sem minnst.

Ef til vill er kominn tími til að snúa vörn í sókn, vinna í samræmi við stefnumótun WHO um stuðning

við eðlilegar fæðingar og leggja áherslu á óhindrað ferli fæðingar og ávinning í stað þess að einblína á

afleiðingar þess að grípa inn í ferlið. Ávinningur lífeðlislegrar nálgunar sem felst í óhindruðu flæði

fæðingarhormóna gæti verið lykillinn í baráttunni gegn sjúkdóms- og tæknivæðingu fæðingarinnar og

barneigarþjónustunnar með öryggi, heilsu og velferð kvenna og barna í forgrunni.

Page 30: 27. maí lokaritgerðfeðlisleg... · 2015-07-01 · Lífeðlisleg fæðing Nálgun, ferli og ávinningur Steinunn Rut Guðmundsdóttir Ritgerð til kandídatsprófs (8 einingar)

29

Heimildaskrá

Adams, J., Framley J., Steel, A., Broom, A. og Sibbritt, D. (2015). Use of pharmacological and non-pharmacological labour pain management techniques and their relationship to maternal and infant bith outcomes: examination of a nationally representative sample of 1835 pregnant women. Midwifery, 31, 458-463.

Albers, L.L. (2007). The evidence for physiologic management of the active phase of the first stage of labor. Journal of Midwifery & Women´s Health, 52(3), 207-215.

American College of Nurse-Midwives (ACNM), Midwives Alliance of North America (MANA), and the National Association of Certified Professional Midwives (NACPM). (2012). Supporting health and normal physiologic childbirth: a consensus statement. Sótt 12. apríl 2015 af http://nacpm.org/wp-content/uploads/2014/07/Physiological-Birth-Consensus-Statement.pdf

Anim-Somuah, M., Smyth, R.M.D. og Jones, L. (2011). Epidural versus non-epidural or no analgesia in labour (Review). Cochrane Database of Systematic Reviews, 12.

Antonovsky, A. (1996). The salutogenic model as a theory to guide health promotion. Health Promotion Intertanation, 11(1), 11-18.

Arrowsmith. S. og Wray, S. (2014). Oxytocin: Its Mechanism of Action and Receptor Signalling in the Myometrium. Journal of Neuroendocrinology, 26, 356-369.

Aye, C.Y.L., Redman, C.W.G. og Georgieva, A. (2014). The effect of augmentation of labour with syntocinon on the fetal CTG using objective computerised analysis: a tested case-control study. European Journal of Obstretics & Gynecology and Reproductive Biology, 176, 112-118.

Barholomew, C.M. og Yerby, M. (2012). Pain, labour and women´s choice of pain relief. Í S. Macdonald og J. Maguill-Cuerden (ritstjórar). May´s midwifery (14. útgáfa, bls. 521-533.). London: Bailliére Tindall.

Bell, A.F., Erickson, E.N. og Carter, C.S. (2014). Beyond labor: the role of natural and synthetic oxytocin in the transition of motherhood. Journal of Midwifery & Women´s Health, 59(1), 35-42.

Bell, A.F., White-Traut, R. og Rankin, K. (2013). Fetal exposure to synthetic oxytocin and the relationship with prefeeding cues within one hour postbirth. Early Human Development, 89, 137-143.

Berg, M., Ólafsdóttir, Ó.Á. og Lundgren, I. (2012). A midwifery model of women-centred childbirth care – in Swedish and Icelandic settings. Sexual & Repruductive Healthcare, 3, 79-87.

Bergström, M., Kieler, H. og Waldenström, U. (2009). Effects of natural childbirth preperation versus standard antenatal education on epidural rates, experience of childbirth and parental stress in mothers and fathers: a randomized controlled multicentre trial. BJOG, 116, 1167-1176.

Begley, C.M., Gross, M.M., Dencker, A., Bernsoem, C., Berg, M. og Devane, D. (2014). Outcome measures in studies on the use of oxytocin for treatment of delay in labour: A systematic review. Midwifery, 30, 975-982.

Begley, C.M., Gyte, G.M.L., Devane, D., McGuire, W. og Weeks, A. (2015). Active versus expectant management for women in the third stage of labour (Review). Cochrane Database of Systematic Reviews, 3.

Blaaka, G. og Schauer, T. (2008). Doing midwifery between different belief systems. Midwifery, 24, 344-352.

Blanks, A.M. og Thornton, S. (2003). The role of oxytocin in parturition. BJOG, 110(20), 46-51.

Buchanan, S.L., Patterson, J.A., Roberts, C. L., Morris, J.M. og Ford, J.B. (2012). Trends and morbidity associated with oxytocin use in labour in nulliparas at term. ANZJOG, 52, 173-178.

Page 31: 27. maí lokaritgerðfeðlisleg... · 2015-07-01 · Lífeðlisleg fæðing Nálgun, ferli og ávinningur Steinunn Rut Guðmundsdóttir Ritgerð til kandídatsprófs (8 einingar)

30

Buckley, S.J. (2003). Undisturbed birth, nature´s blueprint for ease and ecstasy. Journal of Prenatal and Pernatal Psychology and Health, 17(4), 261-288.

Buckley, S.J. (2015). Hormonal physiology of childbearing: evidence and implications for women, babies, and maternity care. Sótt 25. febrúar 2015 af vefnum Childbirth Connection http://childbirthconnection.org/pdfs/CC.NPWF.HPoC.Report.2015.pdf

Bugg, G.J., Siddique, F. og Thornton, J.G. (2013). Oxyotocin versus no treatment or delayed treatment for slow progress in the first stage of spontaneous labour (Review). Cochrane Database of Systematic Reviews, 6.

Carter, C.S. (1998). Neuroendocrine perspectives on social attachment and love. Psyhoneuroendocrinology, 23(8), 779-818.

Champagne, F. og Meaney, M.J. (2001). Like mother, like daughter: evidence for non-genomic transition of parental behavior and stress repsponsivity. Progress in Brain Research, 133, 287-302.

Coad, J. og Dunstall, M.(2001). Anatomy and physiology for midwives. London: Mosby.

Dahlen, H.G., Downe, S, Kennedy, H.P. og Foureur, M. (2014). Is society being reshaped on a microbiological and epigenetic level by the way women give birth? Midwifery, 30, 1149-1151.

Dahlen, H.G. Kennedy, H.P., Anderson, C.M., Bell, A.F., Clark, A., Foureur, M. o.fl., (2013). The EPIC hypothesis: intrapartum effects on the neonatal epigenome and consequent health outcomes. Medical Hypotheses, 80, 656-662.

Darra, S. (2009). ‘Normal’, ‘natural’, ‘good’ or ‘good-enough’ birth: examining the concepts. Nursing Inquiry, 16(4), 297-305.

Davis, D.L. og Walker, K. (2011). Case-loading midwifery in New Zealand: bridging the normal/abnomral divide ʻwith womanʼ. Midwifery, 27, 46-52.

Dixon, L, Skinner, J. og Foureur, M. (2013a). Women´s perspectives of the stages and phases of labour. Midwifery, 29, 10-17.

Dixon, L., Skinner, J. og Foureur, M. (2013b). The emotional and hormonal pathways of labour and birth: integrating mind, body and behaviour. New Zealand College of Midwives Journal, 48, 15-23.

Dixon, L., Tracy, S.K., Guilliland, K., Fletcher, L., Hendry, C. og Pairman, S. (2013c). Outcomes of physiolgical and active third stage labour care amongst women in New Zealand. Midwifery, 29, 67-74.

Donnison, J. (2012). A history of the midwifery profession in the United Kingdom. Í Macdonald, S. og Magill-Cuerden, J. (ritstjórar), Mayes’ Midwifery (14. útgáfa, bls.13-32). London: Bailliére Tindall Elsevier.

Downe, S. (2006). Engaging with the concept of inique normality in childbirth. British Journal of Midwifery, 1(6), 352-355.

Downe, S. og McCourt, C. (2008). From being to becoming: reconstructing childbirth knowledges. Í S. Downe (ritstjóri), Normal Childbirth: Evidence and Debate (2. útgáfa, bls. 3-28). London: Churchill Livingstone Elsevier.

Downe, S. (2012). Care in the second stage of labour. Í S. Macdonald og J. Maguill-Cuerden (ritstjórar), May´s midwifery (14. útgáfa) (bls. 509-520). London: Bailére Tindall.

Fahy, K., Hastie, C., Bisits, A., Marsh, C., Smith, L. og Saxton, A. (2010). Holistic physiological care compared with active management of the third stage of labour for women at low risk of postpartum haemorrhage: a cohort study. Women and Birth, 23(4), 146-152.

Ferguson, S, Davis, D. og Browne, J. (2013). Does antenatal education affect labour and birth? A structural review of the literature. Women and Birth, 26(1), 5-8.

Gaskin, I.M. (2003). Ina May´s guide to childbirth. New York: Bantam Dell.

Page 32: 27. maí lokaritgerðfeðlisleg... · 2015-07-01 · Lífeðlisleg fæðing Nálgun, ferli og ávinningur Steinunn Rut Guðmundsdóttir Ritgerð til kandídatsprófs (8 einingar)

31

Gaskin, I.M. (2011). Birth Matters: A midwife´s manifesta. London: Pinter and Martin Ltd.

Gelder, M., Mayou, R. og Gedds, J. (2005). Psychiatiry (3. útgáfa). Oxford: Oxford.

Gordon, I, Zagoory-Sharon, O., Leckman, J.F. og Feldman, R. (2010). Oxytocin and the development of parenting in humans. Biological Psychiatry, 68(4), 377-382.

Gould, D. (2000). Normal labour: a concept analysis. Journal of Advanced Nursing, 31(2), 418-427.

Green, J., Baston, H., Easton, S. og McCormic, F. (2003). Greater Expectations? Inter-relationships between women´s expectations and experiences of decision making, continuity, choice and control in labour, and psychological outcomes. Leeds: Mother & Infant Research Unit.

Hodnett, E. (2002). Pain an women´s satisfaction with the experience of childbirth: A systematic review. American Journal of Obstetetrics & Gynecology, 186(5), 160-172.

Hodnett, E. D., Downe, S. og Walsh, D. (2012). Alternative versus conventional institutional settings for birth (Review). Cochrane Database of Systematic Reviews, 8.

Hodnett, E.D., Gates, S., Hofmeyr, G.J. og Sakala, C. (2013). Continuous support for women during childbirgh (Review). Cochrane Database of Systematic Reviews, 7, 1-114.

Hutton, E.K. og Hassan, E.S. (2007). Late versus early clamping of the umbilical cord in full-term neonates: systematic review and meta-analysis of controlled trials. JAMA, 297, 1241-1252

Jonas, W., Nissen, E., Ransjö-Arvidson, A.B., Matthiesen, A.S. og Unväs-Moberg, K. (2008). Influence of oxytocin or epidural analgesia on personality profile in breastfeeding women: a comparative study. Archives of Women´s Mental Health, 11, 335-345.

Jónína S. Birgisdóttir. (2014). Fæðingarsamtal: Forprófun fræðsluíhlutunar í meðgönguvernd (Meistararitgerð). Háskóli Íslands. Heilbrigðisvísindasvið. Sótt 20. apríl 2015 af http://hdl.handle.net/1946/20411

Kannan, S., Jamison, R. og Datta, S. (2001). Maternal satisfaction and pain control in women electing natural childbirth. Reginal Anesthesia & Pain Medicine, 26(5), 468-472.

Kaufmann, T. (2004). Introducing feminism. Í M. Stewart (ritstjóri), Pregnancy, birth and maternity care – Feminist perspective. London: Books for midwives.

Kemp, J. og Sandall, J. (2010). Normal birth, magical birth: the role of the 36-week birth talk in caseload midwifery practice. Midwifery, 26, 211-221.

Kenkel, W.M., Yee, J.R. og Carter, C.S. (2014). Is oxyotocin a maternal-foetal signalling molecule at birth? Implications for development. Journal of Neuroendocrinology, 26, 739-749.

Kennedy, H.P. og Shannon, M.T. (2004). Keeping birth normal: Research findings on midwifery care during childbirth. JOGNN, 33(5), 554-560.

Kristín Björnsdóttir. (2005). Líkami og sál: hugmyndir, þekking og aðferðir í hjúkrun. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag.

Kurth, L. og Haussmann, R. (2011). Perinatal pitocin as an early ADHD biomarker: neurodevelopmental risk? Journal of Attention Disorders, 15(5), 423-431.

Lieberman, E., Davidson, K., Lee-Parritz, A. og Shearer, E. (2005). Changes in fetal position during labor and the association with epidural analgesia. Obstetrics & Gynecology, 105(5), 974-982.

Ljósmæðrafélag Íslands. (2000). Hugmyndafræði og stefna. Sótt 15. apríl 2015 af http://www.ljosmaedrafelag.is/Assets/%C3%9Atg%C3%A1fa/lmfistefnumotun.pdf

Mansfield, B. (2008). The social nature of natural childbirth. Social Science & Medicine, 66, 1084-1094.

Martínez-Galiano, J.M. og Delgado-Rodriguez, M. (2013). Influence of an education program of pregnant women on delivery. Journal of Maternal-Fetal and Neonatal Medicine, doi:10.3109/14767058.2013.836486.

Page 33: 27. maí lokaritgerðfeðlisleg... · 2015-07-01 · Lífeðlisleg fæðing Nálgun, ferli og ávinningur Steinunn Rut Guðmundsdóttir Ritgerð til kandídatsprófs (8 einingar)

32

McNabb, M. (2012). Physiological changes from late pregnancy until the onset of lactation. Í S. Macdonald og J. Maguill-Cuerden (ritstjórar), Mayes’ midwifery (14. útgáfa) (bls. 463- 481). London: Bailliére Tindall.

Mercer, J., Skovgaard, R. og Ericson-Owens, D. (2008). Fetal to neonatal transition: first, do no harm. Í S. Downe (ritstjóri), Normal Childbirth: Evidence and Debate (2. útgáfa, bls. 149-174). London: Churchill Livingstone Elsevier.

Mitchell, B.F. og Schmid, B. (2001). Oxytocin and its receptor in the process of parturition. Journal of Society for Gynecologic Investigation, 8, 122-133.

Moore, E.R., Anderson, G.C., Bergman, N. og Dowswell, T. (2012). Early skin-to-skin contact for mothers and their healthy newborn infants (Review). Cochrane Database of Systematic Reviews, 5.

National Institute for Health and Care Excellence (NICE). (2014). Intrapartum care: care of healthy women and their babies during childbirth. Sótt 1. febrúar 2015 af http://www.nice.org.uk/guidance/cg190/resources/guidance-intrapartum-care-care-of-healthy-women-and-their-babies-during-childbirth-pdf

Odent, M. (2001). New reasons and new ways to study birth physiology. International Journal of Gynecology & Obstetrics, 75, S39-S45.

Oscarsson, M.E., Amer-Wåhlin, I., Rydhstroem, H. og Källén, K. (2006). Outcome in obstetric care related to oxytocin use, a population-based study. Acta Obstetricia et Gynecologica, 85, 1094-1098.

Ólöf Ásta Ólafsdóttir (2009). Lærdómur af fæðingarsögum: nærvera, tengsl við konur og þekking ljósmæðra. Í Helga Gottfreðsdóttir og Sigfríður Inga Karlsdóttir (ritstjórar), Lausnarsteinar (bls. 215-239). Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag.

Phaneuf, S., Liñares, R., TambyRaja, R.L., MacKenzie, I.Z. og Lópz Bernal, A. (2000). Loss of myotmetrial oxytocin receptor during oxytocin-induced and oxytocin-augmented labour. Journal of Reproduction and Fertility, 120, 91-97.

Ragnheiður I. Bjarnadóttir, Guðrún Garðarsdóttir, Alexander K. Smárason og Gestur I. Pálsson (ritstjórar). (2011). Skýrsla frá Fæðingarskráningunni fyrir árið 2010. Reykjavík: Kvenna- og barnasvið Landspítala Háskólasjúkrahúss.

Ragnheiður I. Bjarnadóttir, Guðrún Garðarsdóttir, Alexander K. Smárason og Gestur I. Pálsson (ritstjórar). (2014). Skýrsla frá Fæðingarskráningunni fyrir árið 2013. Reykjavík: Kvenna- og barnasvið Landspítala Háskólasjúkrahúss.

Rahm, V., Hallgren, A., Höberg, H., Hurtig, I. og Odind, V. (2002). Plasma oxytocin levels in women during labor with or without epidural analgesia: a prospective study. ACTA, Obstetricia et Gynecologica Scandinavica, 81(11).

Räisänen, I.,Paatero, H., Salminen, K. og Laatikainen, T. (1984). Pain and plasma ß-endorphin level during labor. Obstetrics & Gynecolgy, 64(6), 783-786.

Robertson, A. (2007). The midwife companion: the art of support during birth (2.útgáfa). Camperdown: Birth International.

Romano, A.M. og Lothian, J.A. (2008). Promoting, protecting, and supporting normal birth: a look at the evidence. JOGNN, 37(1), 94-105.

Sérlyfjaskrá. (2014). Syntocinon: samantekt á eiginleikum lyfs. Sótt 14. apríl 2015 af http://www.serlyfjaskra.is/FileRepos/6da32b14-0793-e311-bcf2-001e4f17a1f7%5CSyntocinon%2520stungulyf%2520-%2520SmPC.doc.pdf

Smith, R. (2007). Parturition. The New England Journal of Medicine, 356(3), 271-283.

Page 34: 27. maí lokaritgerðfeðlisleg... · 2015-07-01 · Lífeðlisleg fæðing Nálgun, ferli og ávinningur Steinunn Rut Guðmundsdóttir Ritgerð til kandídatsprófs (8 einingar)

33

Smith, V., Daly, D., Lundgren, I. Eri, T., Benstoem, C. og Devane, D. (2014). Salutogenically focused outcomes in systematic reviews of intrapartum interventions: a systematic review of systematic reviews. Midwifery, 30, 151-156.

Tracy, S.K., Sullivan, E., Wang, Y.A., Black, D. og Tracy, M. (2007). Birth outcomes associated with interventions in labour amongst low risk women: a population-based study. Women and Birth, 20, 41-48.

Uvnäs-Moberg, K. (1998). Oxytocin may mediate the benefits of positive socal interaction and emotions. Psychoneuroendocrinology, 23(8), 819-835.

Uvnäs-Moberg, K., Arn, I. og Magnusson, D. (2005). The psychobiology of emotion: the role of the oxytocinergic system. International Journal of Behavioral Medicine, 12(2), 59-65.

Valgerður Lísa Sigurðardóttir og Ólöf Ásta Ólafsdóttir (2009). Skynjun íslenskra ljósmæðra á öryggi og áhættu við eðlilegar fæðingar. Í Helga Gottfreðsdóttir og Sigfríður Inga Karlsdóttir (ritstjórar), Lausnarsteinar (bls. 193-214). Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag.

Waldenström, U., Hildingsson, I., Rubersson, C. og Rådestad, I. (2004). A negative birth experience: prevalence and risk factors in a national sample. BIRTH, 31(1), 17-27.

Waldenström, U. (2007). Normal childbirth and evidence based practice. Women and Birth, 20, 175- 180.

Walsh, D. (2012). Evidence and skills for normal labour and birth: a guide for midwives (2. útgáfa). Oxon: Routledge.

Wei, S., Wo, L.B., Qi, H., Xu, H., Luo, Z., Roy, C. og Fraser, W. (2013). Early amniotomy and early oxytocin for prevention of, or therapy for, delay in first stage spontaneous labour compared with routine care (Review). Cochrane Database of Systematic Reviews, 8.

Weisman, O., Agerbo, E., Carter, C.S., Harris, J.C., Uldbjerg, N., Henriksen, T.B. o.fl. (2015). Oxytocin-augmented labor and risk for autism in males. Behavioural Brain Research, 284, 207-212.

Wiklund, I., Norman, M., Unväs-Moberg, K., Ransjö-Arvidson, A.B. og Andolf, E. (2009). Epidural analgesia: breast-feeding success and related factors. Midwifery, 25, 31-38.

World Health Organization (WHO). (1996). Care in normal birth: Practical guide. Sótt 11. desember 2014 af http://whqlibdoc.who.int/hq/1996/WHO_FRH_MSM_96.24.pdf.